Í skýrslu fjölmiðlanefndar sem menntamálaráðherra skipaði til þess að kortleggja eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, er fjallað um framtíðarfyrirkomulag við dreifingu útvarps og sjónvarpsefnis.

Þar er vitnað til stefnumótunar stjórnvalda um stafrænt útvarp og sjónvarp og vinnu á vegum samgönguráðuneytis við undirbúning þess. Ráðuneyti fjarskiptamála ber ábyrgð á úthlutun tíðna fyrir sjónvarp og útvarp og vinnur að stefnumótun þessa málaflokks.

Í okkar stóra dreifbýla landi skiptir það miklu máli að vel takist til með uppbyggingu dreifikerfis útvarps og sjónvarps. Liður í því að bæta stöðu fjölmiðlanna er að hið opinbera hlutist til um skynsamlega stefnu í þeim efnum um leið og starfsumhverfi fjölmiðlanna er markað skýrum línum í löggjöf.

Allmiklar umræður hafa orðið hér á landi um innleiðingu stafræns hljóðvarps og sjónvarps. Talið er að stafrænt sjónvarp bjóði upp á marga kosti umfram núverandi kerfi. Þessir eru helst nefndir:

– Aukin flutningsgeta hverrar rásar og betri nýting í dreifi- og flutningskerfum.
– Betri nýting á tíðnisviðum.
– Betri mynd- og hljóðgæði.
– Lægri kostnaður við dreifingu.
– Auðveldari samruni við önnur fjarskiptakerfi og meiri möguleikar að því er varðar upplýsingasamfélagið.
– Auðveldari innkoma nýrra efnisframleiðanda á markaðinn.
– Auknir möguleikar á gagnvirkni.
– Auknir möguleikar á færanlegu sjónvarpi innanhúss og/eða þráðlausri móttöku.

Íslensk stjórnvöld verða að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki þau vilja leggja uppbyggingu stafræns sjónvarps lið. Núverandi fyrirkomulagi sjónvarpsstöðva á Íslandi er lýst sem ,,lóðréttu“, þ.e. þjónusta sem fyrirtækin veita er alla leið úr myndveri yfir til endanotanda í gegnum eigið dreifikerfi. Með tilkomu stafræns sjónvarps gefst kostur á að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að nálgunin verði ,,lárétt“, þ.e. að sjónvarpsstöðvar sérhæfi sig í að framleiða efni, en dreifingarfyrirtæki dreifi efni margra sjónvarpsstöðva til neytandans í gegnum dreifikerfi sem nær til alls landsins eða því sem næst. Við útfærslu stafræns sjónvarps þarf að taka afstöðu til tveggja meginatriða. Annars vegar á fyrirkomulagi dreifikerfis og hins vegar á fyrirkomulagi svonefnds aðgangskerfis.

Sjálfstætt dreifingarfyrirtæki

Ég hef lagt til að stofnað verði sjálfstætt dreifingarfyrirtæki í eigu aðila á fjölmiðlamarkaði. Hlutverk þess verði að byggja upp dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp og hljóðvarp. Meginmarkmiðið með því er að auka fjölbreytni og bæta aðgengi neytenda að sjónvarpsefni.

Þetta markmið er að öllu leyti í samræmi við tilmæli Evrópuráðsins, en þar er einmitt lagt til að ríki hugi sérstaklega að því að leggja slíkum áformum lið.
Í skýrslu fjölmiðlanefndar kemur fram að nefndin taki undir þær ráðagerðir sem eru upp um skipulag dreifingar stafræns útvarps og sjónvarps.

Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið í málefnum upplýsingasamfélagsins. Þar er fjallað um stafrænt útvarp og sjónvarp. Sú stefnumótun er byggð á vinnu á vegum samgönguráðuneytis.

Undirbúningur á vegum samgönguráðuneytis

Í nóvember 2002 skipaði ég nefnd sem fjalla átti um innleiðingu stafræns sjónvarps. Nefndin var skipuð fulltrúum frá fjármálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Póst- og fjarskiptastofnun og samgönguráðuneyti um. Nefndin var undir formennsku fyrrverandi forstjóra Stöðvar 2, Jafets Ólafssonar. Nefndin skilaði tillögum í apríl 2003. Meginniðurstaða nefndarinnar var að stofnað yrði sameiginlegt dreifingarfyrirtæki aðila á markaði til að sjá um dreifingu stafræns sjónvarps. Forsenda þessarar lausnar væri að góð samstaða næðist um hana a.m.k. á meðal stærri efnisframleiðenda. Kostirnir eru minni heildarfjárfesting, lægri rekstrarkostnaður, skipulögð og hagkvæm uppbygging og einsleit heildarlausn. Gert er ráð fyrir því að allir efnisframleiðendur hefðu jafnan aðgang að dreifikerfinu sem m.a. kæmi til með að auðvelda nýjum framleiðendum að koma inn á markaðinn.

Meginstefna stjórnvalda

Meginmarkmið stjórnvalda er að auka fjölbreytni og bæta aðgengi neytenda að sjónvarpsefni. Stuðla að samvinnu sjónvarpsstöðva í dreifingu sjónvarpsefnis, en samkeppni þeirra á milli í efnisframboði. Þannig verði leitað einsleitra lausna sem eru þjóðhagslega hagkvæmar og einfaldar fyrir neytendur og stuðla að fjölbreyttri þjónustu við alla landsmenn. Opið samstarf á sjónvarpsdreifingarmarkaði auðveldar nýjum efnisveitendum aðgang að dreifikerfi á eðlilegu kostnaðarverði og skilmálum og skapar þannig samkeppni á efnisframboði á sjónvarpsefni.

Samstarf um dreifingu

Ég hef lagt til að stofnað verði til samstarfs markaðsaðila um efnisdreifingu þannig að stofnað verði sameiginlegt, sjálfstætt og opið dreifingarfyrirtæki þeirra aðila sem tilbúnir eru til samstarfs um dreifingu stafræns sjónvarps. Fyrirtækið sjái ennfremur um rekstur fjölflétta, aðgangskerfa og rafrænna dagskrárvísa. Kostir þessa fyrirkomulags eru minni kostnaður, skipuleg og hagkvæm uppbygging, auk þess sem auðveldara verður fyrir nýja dreifingaraðila að koma inn á markaðinn. Annar megin kostur þessarar nálgunar er að neytendum er tryggður aðgangur að efni með einföldum og einsleitum hætti. Ætla má að hægt sé að tryggja jafnræði markaðsaðila að aðgangs að sjónvarpsdreifingu með úrræðum núverandi fjarskiptalaga í framhaldi af markaðsgreiningu. Forsenda slíks fyrirtækis er að allir stærri seljendur sjónvarpsefnis myndu nýta hið nýja dreifingarkerfi og að samstaða næðist um slíkt fyrirkomulag.

Þjónusta nái til allra Íslendinga

Við uppbyggingu dreifikerfis munu stjórnvöld m.a. uppfylla skyldur Ríkisútvarpsins um þjónustu við alla landsmenn. Þetta gæti t.d. gerst með þátttöku í eða stuðningi við dreifingarfyrirtæki sem skuldbindur sig til að ná 99,9% dreifingu. Varðandi þjónustu við mismunandi landssvæði, t.d. hvað varðar fjölda dagskráa, munu markaðslögmálin ráða hverju sinni og ekki er ólíklegt að fleiri en eitt dreifingarfyrirtæki muni starfa á sumum landssvæðum. Jafnframt þessu verði könnuð hagkvæmni þess að senda út íslenskt sjónvarpsefni um gervitungl til sjómanna, til landfræðilega afskekktra staða og til Íslendinga í Norður-Evrópu.

Tímasetningar

Það er ljóst að breytingar yfir í stafrænar sendingar sjónvarps eru nokkuð kostnaðarsamar og þurfa að taka mið af efnahagsaðstæðum. Að auki tengist innleiðing stafræns sjónvarps beint og óbeint málefnum upplýsingasamfélagsins og hvar Íslendingar vilja staðsetja sig meðal jafninga í samfélagi þjóðanna. Þetta tengist einnig tímasetningu á endurnýjun núverandi dreifikerfis helstu aðila á markaði. Einnig verður að horfa til þess að þegar hafnar verða stafrænar sendingar þá verður um að ræða millibilsástand þar sem sent verður út bæði stafrænt og hliðrænt. Þetta er kostnaðarsamt og því mikilvægt að þetta tímabil sé stutt. Yfirfærslan í stafrænt verður því að vera átaksverkefni sem hefjist árið 2005 og nái til 99,9% þjóðarinnar eigi síðar en árið 2008.

Næsta skref

Í samræmi við þessa stefnumótun hafa fulltrúar samgönguráðuneytis átt fundi með fulltrúum útvarps- og sjónvarpsstöðva og kannað vilja þeirra til þess að vinna eftir þessari stefnumörkun. Hafa þeir lýst vilja sínum til þess að halda því starfi áfram og er nú unnið að því.

Það er von mín að okkur megi takast að standa þannig að málum að skapa nýtt og traust lagaumhverfi í kringum ljósvakamiðlana og um leið sameinast um uppbyggingu dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp sem auki framboð á efni fjölmiðla þannig að notendur hafi sem mest val og góðan aðgang að efni.
Með þeirri leið er framtíð útvarps- og sjónvarpsstöðva best borgið í þágu eigenda og notenda.