Hér á eftir fer frásögn af brottför Íslendings, sem tekin var saman af Einari Benediktssyni, framkvæmdastjóra Landafundanefndar.
Þann 24. júní lét víkingaskipið Íslendingur úr höfn frá Búðardal á leið sinni til Grænlands. Var sú athöfn öll ágætlega viðeigandi vegna þessa tækifæris sem fólk skynjaði sem merkisatburð og hann all sögulegan. Var þar fyrst um að ræða athöfn á bæ Eiríks rauða í Haukadal sem endurbyggður hefur verið af mikilli vandvirkni. Var gestum boðinn hádegisveður að hætti fornaldar í skála Eiríks en þar hafði verið kyntur langeldur. Voru bornir fram ljúffengir þjóðarréttir , nýmeti sem súrsað, í trogum og við það drukkinn mjöður úr hornum en það seinni tíma fyrirbæri hnífar og gafflar voru að sjálfsögðu ekki við hendina.Þótti okkur hjónum þetta kærkomin tilbreyting frá sendiráðaveislum fyrri tíðar og ekki var minni hrifning meðal annara gesta þeirra Dalamanna sem voru Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og eiginkona hans, kollega hans frá Nýfundnalandi Charles Furey, Bjarni Tryggvason geimfari , að sjálfsögðu áhöfn Íslendings íklædd fornbúningum og margir fleiri. Þá voru á Eiríksstöðum fréttamenn og ljósmyndarar sem einnig létu kappana bregða sér á hestbak.
Eftir hádegisverðinn var haldið úr Haukadal í Búðardal en þar í smábátahöfn lá Íslendingur við festar. Við höfnina voru sennilega samankomnir 500-600 manns. Fyrir brottför héldu þarna ræður Sturla Böðvarsson og Furey og Sigurður Rúnar Friðjónsson oddviti en Gunnar Marel fór með sjóferðabæn.Þá var tónlistarflutningur ,leikþættir og kórsöngur. Það var svo samgönguráðherra sem leysti landfestar Íslendings þá er skipið lét úr höfn. Ríkti þarna fögnuður mikill og ánægja með að sögufrægð Dalabyggðar skuli nú fá aðnjóta sín betur en nokkru sinni áður.Var að þessu loknu efnt til kaffisamsætis á vegum Eiríksstaðanefndar.
Góður byr var þegar Íslendingur hóf tignarlega siglingu sína vestur Hvammsfjörðinn til Ólafsfjarðar. Þar var fyrirsjáanleg nokkur bið vegna óvenju mikils íss við Suður Grænland. En brottförin frá Búðardal tókst í alla staði vel og vissulega er ánægjulegt til þess að vita að að með Íslendingi var hægt að verða þessu byggðarlagi til mikils stuðnings um kynningu..
Reykjavík 26.júní 2000
(sign.) Einar Benediktsson