Í gær var lagt fram á Alþingi svar samgönguráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur um frestun á vegaframkvæmdum. Svarið fer hér á eftir í heild sinni.
126. löggjafarþing 2000-2001
Þskj. 1172 – 724. mál

1. Liggur fyrir tillaga um hvaða framkvæmdum verður frestað í kjölfar lækkunar á framlögum til vegamála á fjárlögum 2001?

Ekki liggur fyrir endanleg tillaga um frestun framkvæmda samkvæmt vegáætlun til samræmis við fjárlög 2001.

2. Hvernig skiptist sá niðurskurður:
a) milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar,
b) milli einstakra verkefna?

a) Samkvæmt þeim drögum að tillögu, sem nú liggur fyrir skiptist frestun þannig milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, að frestað er framkvæmdum fyrir 330 m.kr. á höfuðborgarsvæðinu en fyrir 470 m.kr. á landsbyggðinni.
b) Samkvæmt sömu drögum og nefnd eru í a) lið myndi frestun framkvæmda á landsbyggðinni skiptast á verk sem hér segir:

Hringvegur um Þjórsá 200 m.kr.

Orku- og iðjuvegir á Austurlandi:
Fljótsdalur 200 m.kr.
Reyðarfjörður 70 m.kr.

Samtals: 470 m.kr.

Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að frestað verði framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu fyrir 330 m.kr., en á þessu stigi liggja ekki fyrir tillögur um skiptingu þeirrar upphæðar á verkefni.

3. Hvernig er niðurskurðurinn rökstuddur fyrir hvert verkefni fyrir sig?

Spurningin fjallar um það hvernig frestun einstakra verkefna er ákveðin eftir að heildarfjárhæð frestunar hefur verið staðfest. Það eru einkum tvö atriði sem vega þungt. Hið fyrra er að undirbúningur verka tekur æ lengri tíma, og er ekki alltaf lokið nægilega snemma til að unnt sé að nýta fjárveitingar í samræmi við vegáætlun. Við þetta verður oft ekki ráðið. Seinna atriðið er að verkefni eru all oft með fjárveitingar í tvö ár og jafnvel fleiri. Er þá stundum unnt að fresta verkbyrjun og draga þar með úr fjárnotkun á fyrra eða fyrsta árinu, án þess að það komi að ráði niður á verklokum.

Um byggingu nýrrar brúar á Þjórsá á Hringvegi og vega um hana gilda báðar ofantaldar ástæður. Við lokarannsóknir á jarðfræði í brúarstæðinu reyndust aðstæður svo óhagstæðar að leita varð annarra leiða og olli það umtalsverðum töfum á undirbúningi. Fjárveitingar til verksins gerðu ráð fyrir að því lyki 2002 og frágangi þess 2003. Þrátt fyrir frestun nú er miðað við að svo verði.

Orku- og iðjuvegir á Austurlandi hafa fjárveitingu árin 2000 – 2003 bæði ár meðtalin. Þar er undirbúningur nokkuð á eftir fjárveitingum. Þá er einnig miðað við að Landsvirkjun leggi fram á þessu ári nokkurt fjármagn til vega- og brúagerða í Fljótsdal. Lok þessara verka geta því verið á réttum tíma þrátt fyrir frestun nú.