Ráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til laga um samgönguáætlun.
Hér er lagt fram frumvarp til laga um samgönguáætlun fyrir ríkisstjórn til samþykktar.
Samgönguráðherra ákvað 1999, í samræmi við þingsályktun Alþingis, að gerð skyldi samræmd samgönguáætlun. Kom þessi áhersla m.a. fram í stefnuræðu forsætisráðherra þann 4. október 1999.

Frumvarp það, sem hér er lagt fram er fyrst og fremst ætlað að festa samgönguáætlun í sessi. Þessi heildstæða áætlun mun koma í stað vegáætlunar, langtímaáætlunar í vegagerð, flugmálaáætlunar, hafnaáætlunar og sjóvarnaáætlunar. Samhliða þessu frumvarpi verður lagður fram s.k. bandormur, sem ætlað er að breyta nokkrum lögum á sviði samgöngumála með hliðsjón af framangreindu.

Í samgönguáætluninni er gert ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:
a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,
c. að ná fram víðtæku samspili milli samgöngumáta og samstarfi milli stofnana samgönguráðuneytisins.

Samgönguáætlun er ætlað að vera mun víðtækari en fyrri áætlanir. Auk framkvæmdaáætlana tekur hún til stefnumótunar á sviði öryggismála, umhverfismála, almenningssamgangna, fjármögnunar samgöngukerfisins og reksturs stofnana, svo að eitthvað sé nefnt. Áætlunin sem mun einnig, eins og áður sagði, taka til allra þátta samgöngukerfisins, þ.e. samgangna á lofti, láði og legi, og innbyrðis samspils milli þeirra og við aðra mikilvæga þjóðfélagsþætti.
Ein helsta nýjungin í þessu frumvarpi er að nú verður í fyrsta skipti lögð fyrir Alþingi, í formi þingsályktunartillögu, heildstæð stefna og markmið í samgöngumálum þjóðarinnar til 12 ára í senn.

Það skal áréttað hér, að með þeirri tillögu að samgönguáætlun, sem er væntanleg innan skamms, er verið að færa áætlanagerð í samgöngum inn á nýjar brautir. Í stað þess, eins og verið hefur, að leggja nær eingöngu áherslu á einstök verkefni eða framkvæmdir, er bætt við þýðingarmiklum þætti. Nú verður lögð verulega aukin áhersla á heildstæða stefnumótun og markmiðssetningu, sem tekur mið af mörgum þáttum saman þvert á samgöngugreinarnar. Þannig munu leiðir að markmiðum ekki eingöngu taka mið af fjárfestingum heldur einnig nefna til sögunnar ætlaða fjáröflun t.d. með sköttum eða notendagjöldum ásamt tilheyrandi breytingum á lögum eða reglum, svo dæmi sé tekið. Grundvöllur þessa byggist á því að Alþingi setji fram skýr markmið og ákveði að lokum leiðirnar að markmiðunum út frá mismunandi möguleikum eða tillögum, sem stofnanir setja fram. Þegar leiðirnar hafa verið staðfestar er það stofnana að bera ábyrgð á framkvæmdinni. Hugmyndafræði þessi snýst því um að Alþingi eigi að leggja meiri áherslu á umfjöllun um stefnumótun og leiðir en e.t.v. minna um einstakar fjárfestingar. Þetta er málefni, sem á eftir að þróast og með samgönguáætlun er aðeins stigið lítið skref í þessa átt. Í nágrannalöndum okkar hefur áætlanagerð í samgöngum þróast mjög hratt og hefur vinna við samgönguáætlun að nokkru tekið mið af reynslu þessara þjóða og þá sérstaklega Norðmanna. Norski samgönguráðherrann lagði t.d. fram ,,Nasjonal transportplan 2002-2011″ á s.l. ári sem nú hefur verið samþykkt.

Greinargerð um vinnulag og breytingar:
Samkvæmt frumvarpinu skiptist samgönguáætlunin í þrjú fjögurra ára tímabil. Fjögurra ára áætlun hennar, sem er lögð fram sem þingsályktunartillaga í kjölfar þingsályktunartillögu um samgönguáætlun, er sundurliðun fyrsta fjögurra ára tímabilsins og skiptist í kaflana flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun. Hún nær til allra útgjalda og tekna viðkomandi stofnana sem hafnaáætlun og sjóvarnaáætlun skv. núgildandi lögum gera ekki. Núgildandi vegáætlun og flugmálaáætlun gera það hins vegar að flestu leyti, en uppsetning þeirra er ekki samræmd. Samgönguáætlunin er endurskoðuð á fjögurra ára fresti en fjögurra ára áætlun hennar á tveggja ára fresti. Við aðra hverja endurskoðun, nær hún því til fyrstu tveggja ára annars tímabils samgönguáætlunarinnar.

Í framsetningu fjögurra ára áætlunar þarf að samræma gildistíma, efnistök og uppsetningu núverandi áætlana. Fylgiskjal frumvarpsins nr. 1 sýnir gildistíma þessara áætlana og áætlaða gildistöku samgönguáætlunarinnar. Stefnt er að því að samgönguáætlunin ásamt fjögurra ára áætlun taki í fyrsta sinn gildi 1. janúar árið 2003. Það er sami tíminn og ný hafnaáætlun ætti að taka gildi. Hins vegar eiga ný flugmálaáætlun og vegáætlun að taka gildi 1. janúar árið 2002. Því þarf að brúa þetta millibil með endurskoðuðum framangreindum áætlunum fyrir árið 2002 áður en samgönguáætlunin tekur við 1. janúar árið 2003. Bent skal sérstaklega á að samgönguáætlunin tekur yfir langtímaáætlun í vegagerð.

Á fylgiskjali 2 með frumvarpinu er fjögurra ára áætlunin einnig sýnd með brotalínum (ár 1-4). Hún er sundurliðun á fyrsta tímabili samgönguáætlunar eins og áður var sagt, bæði niður á einstök ár og á einstök verkefni. Gert er ráð fyrir að í áætluninni komi fram yfirlit, sem sýni bæði tekju- og gjaldatölur flokkaðar eftir sundurliðun fjárlaga og það geti fallið beint inn í fjárlagafrumvarpið hverju sinni. Gert er ráð fyrir að í sundurliðun stofnkostnaðar komi ætíð fram sérstaklega fjárveitingar til grunnkerfisins, en skilgreining þess sem landskerfis er eitt af þýðingarmestu atriðum samgönguáætlunar.

Miðað er við að við undirbúning samgönguáætlunar og fjögurra ára áætlunar hafi stofnanir á sviði samgangna með sér náið samstarf. Í því skyni verði komið á fót s.k. samgönguráði sem beri ábyrgð á samræmdri tillögugerð til samgönguráðherra. Það skal vinna sjálfstætt án formlegs lögbundins umsagnarferils, fyrir utan s.k. samgönguþing, sem samgönguráði er skylt að kalla saman minnst einu sinni fyrir hverja endurskoðun samgönguáætlunar. Auðvitað má slá því föstu þrátt fyrir þetta, að samgönguráð leiti víða fanga í vinnu sinni. Gert er ráð fyrir að í samgönguráði sitji forstöðumenn Siglingastofnunar, Flugmálastjórnar og Vegagerðar, auk fulltrúa fjármálaráðuneytis og samgönguráðuneytis, sem jafnframt er formaður. Í fyrrgreindum bandormi, er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á skipan flugráðs og hafnaráðs, sem skapa ættu betri faglegan grundvöll undir störf þessara ráða og jafnframt er þátttaka notenda betur tryggð. Þessum ráðum er nú ætlað að gefa sjálfstæða umsögn til samgönguráðherra um tillögur á sviði samgönguáætlana, eftir að þær hafa verið afgreiddar af samgönguráði til ráðherra. Í núgildandi lögum er verklagið slíkt að umsögn þessara ráða berst stofnun áður en hún leggur tillögu sína fyrir ráðherra. Hér er því um þýðingarmikla breytingu að ræða.