Í vikunni lagði ég fram ásamt Valgerði Sverrisdóttur og Jóni Magnússyni, frumvarp til laga um breytingar á þingskaparlögum. Sem forseti Alþingis lét ég undirbúa frumvarp til laga sem felur í sér miklar breytingar á nefndarstarfi Alþingis. Breytingin liggur í því  að nefndum er fækkað þannig að hver nefnd fjallar um fleiri málefnasvið. Hagræðið sem fylgir þessari breytingu er, að auðveldara verður að skipuleggja fundi þannig að þingmönnum sé ekki ætlaða að vera á mörgum fundum á sama tíma eins og nú er.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 545  —  315. mál.

Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum.
Flm.: Sturla Böðvarsson, Jón Magnússon, Valgerður Sverrisdóttir.
 
1. gr.

    1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Á Alþingi starfa þessar fastanefndir:
    1.      Allsherjar- og menntamálanefnd.
    2.      Atvinnumálanefnd.
    3.      Efnahags- og viðskiptanefnd.
    4.      Fjárlaganefnd.
    5.      Heilbrigðis- og félagsmálanefnd.
    6.      Umhverfis- og samgöngunefnd.
    7.      Utanríkismálanefnd.

2. gr.

    1. og 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Í hverja nefnd skulu kosnir níu þingmenn. Þingflokkar skulu tilnefna varamenn í nefndir, allt að þeim fjölda aðalmanna sem þingflokkurinn hefur.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 23. gr. laganna:
    a.      3. málsl. orðast svo: Til allsherjar- og menntamálanefndar skal vísa dómsmálum, kirkjumálum, menntamálum, menningarmálum og öðrum þeim málum sem þingið ákveður.
    b.      Í stað orðsins „allsherjarnefnd“ í 4. málsl. kemur: allsherjar- og menntamálanefnd.

 
4. gr.

    Í stað orðanna „efnahags- og skattanefndar“ í 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna og sömu orða í 5. málsl. greinarinnar kemur í viðeigandi falli: efnahags- og viðskiptanefndar.
5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi við upphaf næsta löggjafarþings eftir samþykkt þeirra.
Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis sem hér er lagt fram eru lagðar til breytingar á skipulagi fastanefnda Alþingis, fjölda þeirra og þeim málaflokkum sem undir þær heyra. Fastanefndir eru 12 en samkvæmt frumvarpinu verða þær sjö. Eftirfarandi eru heiti nefndanna og málaflokkar sem gert er ráð fyrir að undir þær heyri:
    1.      Allsherjar- og menntamálanefnd. Undir hana heyra dóms- og kirkjumál, menntamál, menningarmál, stofnanir Alþingis, Stjórnarráðið o.fl.
    2.      Atvinnumálanefnd. Undir hana heyra iðnaðar- og orkumál, landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, byggðamál og ferðamál.
    3.      Efnahags- og viðskiptanefnd. Undir hana heyra skattamál, verslunar-, viðskipta- og bankamál og efnahagsmál almennt.
    4.      Fjárlaganefnd. Undir hana heyra tekjur og gjöld ríkissjóðs.
    5.      Heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Undir hana heyra heilbrigðismál, almannatryggingar og félagsþjónusta, húsnæðismál og vinnumál.
    6.      Umhverfis- og samgöngunefnd. Undir hana heyra umhverfismál, vega-, hafna- og flugmál, siglingar, fjarskipti og sveitarstjórnarmál.
    7.      Utanríkismálanefnd. Undir hana heyra utanríkismál, varnar- og öryggismál og málefni Evrópska efnahagssvæðisins.
    Við síðustu breytingar á lögum um þingsköp Alþingis voru gerðar nokkrar lagfæringar á störfum og starfsumhverfi fastanefnda Alþingis. Breytingarnar miðuðu að því að efla starf nefndanna, m.a. með því að ráðherrar komi oftar á fundi þingnefnda. Samhliða breytingunum var gert samkomulag á milli þeirra flokka sem stóðu að breytingunum sem m.a. miðaði að því að aðstoða minni hluta í nefndum og efla eftirlitshlutverk nefnda. Frá því að þessar breytingar tóku gildi 1. janúar 2008 hefur forsætisnefnd Alþingis samþykkt reglur um opna nefndafundi en bráðabirgðareglur um slíka fundi voru samþykktar á fundi forsætisnefndar 3. júní sl. og nýjar reglur á fundir forsætisnefndar 14. janúar sl.
    Sú endurskipulagning á fastanefndum Alþingis sem lögð er til í þessu frumvarpi er að nokkru leyti framhald af síðustu breytingum sem gerðar voru á störfum nefndanna. Markmið breytinganna er að styrkja og efla nefndastarfið enn frekar ásamt því að gefa nefndunum meira og betra svigrúm til starfa. Önnur helstu rökin fyrir breytingunum eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi munu breytingarnar efla löggjafarstarfið. Fastanefndirnar verða færri og mun hver nefnd fjalla um fleiri málaflokka en áður. Það gefur nefndarmönnum m.a. meiri möguleika á að hafa heildaryfirsýn yfir tengd málasvið. Slíkt mun jafnframt styrkja eftirlitshlutverk þingsins.
    Í öðru lagi munu breytingarnar fela í sér hagræðingu í störfum fastanefndanna. Með fækkun fastanefnda gefst tækifæri fyrir nefndirnar til að funda oftar og lengur ef þörf krefur. Það hefur oft verið erfitt að komast hjá því að fundir nefnda skarist þegar fjöldi þeirra er svo mikill, en með fækkun þeirra í sjö mun draga úr þessum árekstrum og auðveldara verður að skipuleggja fundi nefndanna. Þá munu skapast betri tækifæri og tími til að halda opna nefndafundi, en slíkir fundir krefjast oft meiri tíma en hefðbundnir nefndafundir.
    Þingmenn eiga oft sæti í fleiri nefndum en einni, jafnvel fjórum, en með fækkun og stækkun nefnda munu þingmenn almennt sitja í einni nefnd en nokkrir þeirra þó í tveimur nefndum. Slíkt mun einfalda skipulag nefndastarfsins og leiða til betri nýtingar á fundartíma nefndanna. Sérstaklega mun þetta eiga við á nefndadögum. Æskilegt mun t.d. vera að nefndarmenn í fjárlaganefnd sitji ekki í öðrum nefndum.
    Í þriðja lagi munu breytingarnar leiða til þess að skipulag starfa á nefndasviði Aþingis verður einfaldara og aukið svigrúm gefst til þess að hver fastanefnd geti haft yfir að ráða öflugum hópi sérfræðinga og annars starfsfólks. Þannig verður hægt að veita hverri nefnd meiri aðstoð og betri þjónustu en nú er hægt að gera.
    Eftirlitshlutverk fastanefnda Alþingis mun aukast á næstu árum, og ljóst að með möguleika á opnum fundum mun það eftirlit verða opnara og öllum aðgengilegt, líkt og á þingfundum. Mikilvægt er að styrkja nefndastarfið, skipulag þess og starfsaðstöðu áður en þessi þróun fer af stað að marki.
    Reiknað er með að tímatafla með fundartímum nefndanna verði ákveðin fyrir fram, með nægilegu svigrúmi þó til aukafunda, þannig að enginn þingmaður sé settur í þá stöðu að vera á fundum á tveimur stöðum samtímis.
    Loks er þess að geta að flokkarnir eiga samkvæmt frumvarpinu að tilnefna varamenn í nefndum, allt að þeim fjölda sem þeir eiga af aðalmönnum. Þetta fyrirkomulag er einfaldara í sniðum en nú viðgengst með þá einu nefnd sem hefur fastákveðna varamenn, en formlegra en það fyrirkomulag staðgengla nefndarmanna sem unnið er eftir í öðrum nefndum, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa, þar sem þingflokki er heimilt að tilnefna varamann um stundarsakir í forföllum aðalmanns. Þetta auðveldar boðun funda í nefndum og er það fyrirkomulag sem tíðkast í nágrannaþingum.