Samgönguráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til hafnalaga. Í frumvarpi þessu eru mörg nýmæli sé tekið mið af núgildandi hafnalögum. Þau helstu fara hér á eftir.
1. Gert er ráð fyrir að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra eða reglur um þjónustugjöld opinberra aðila eftir því sem við á.

2. Heimiluð eru fleiri rekstrarform hafna en áður m.a. hlutafélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

3. Gildissvið frumvarpsins tekur til allra hafna sem reknar eru í atvinnuskyni.

4. Ein af forsendum frumvarpsins er að rekstur hafna verði virðisaukaskattskyldur. Þetta málefni heyrir undir fjármálaráðuneytið og á verksviði þess að koma slíkri breytingu um kring.

5. Gert er ráð fyrir minni ríkisstyrkjum til hafnaframkvæmda og jafnframt eru ríkisafskipti almennt minnkuð. Áfram er þó gert ráð fyrir að endurbyggingar og viðhald á skjólgörðum sé greitt að hluta til úr ríkissjóði og heimildir eru til stofndýpkana þegar að fram líða stundir. Sjá jafnfr. 7. tl.

6. Sérstakt vörugjald er fellt niður frá árslokum 2002.

7. Framtíð minnstu hafnanna á landsbyggðinni er betur tryggð en í núgildandi lögum.

8. Önnur stjórnvaldsafskipti af höfnum eru betur skilgreind.

9. Breytt hlutverk Hafnabótasjóðs.