Fern lög voru samþykkt á nýafstöðnu haustþingi (128. löggjafarþing), en þau eru eftirfarandi:


  1. Vitamál. Lögum um vitamál var breytt í þeim tilgangi að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar frá því að upphæð gjaldsins var sett í lög í árið 1999 með lögum um vitamál, nr. 132/1999. Frá og með 12. desember síðastliðnum varð vitagjald kr. 78,20 kr. á hvert brúttótonn, sem er 14% hækkun og lágmarksgjald hækkaði í 3.500 kr. Í lögunum er auk þess kveðið á um að Siglingastofnun Íslands veiti umsögn, og þegar við á samþykki, fyrir legu og merkingu sæstrengja, neðansjávarleiðslna og hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó.
  2. Póstþjónusta. Lögum um póstþjónustu nr 19/2002 var breytt á þann veg að íslenska ríkið hefur frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa, sem eru allt að 100 g í stað 250 g, og frá og með 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa sem eru 50 g. Jafnframt eru í frumvarpinu sett inn nokkur atriði sem skerpa á réttindum viðskiptavina póstrekenda.

Skipamælingar. Tilgangur með breytingu laga um skipamælingar var að samræma gjaldskrárákvæði í lögum sem kveða á um siglingar og gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands. Miðað er að því að gjaldtakan standi undir beinum kostnaði við veitta þjónustu. Einnig er lagt til að gjald fyrir mælingu skipa skuli miðast við brúttótonn en ekki brúttórúmlestir. Lögin tóku gildi 12. desember 2002, en þá féllu jafnframt lög úr gildi um skipamælingar, nr. 50 frá 12. maí 1970.


  1. Ferðamálasjóður lagður niður. Ferðamálasjóður var lagður niður 1. janúar 2003 í þáverandi mynd. Frá þeim degi voru eignir og skuldir sjóðsins yfirteknar af ríkissjóði og umboð stjórnar Ferðamálasjóðs fellt niður. Stuðningur við verkefni á sviði ferðaþjónustu verður áfram veittur í formi samstarfs Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar. Verkefnin verða annars vegar fjármögnuð með styrkjum af hálfu ferðamálayfirvalda og hins vegar með lánum frá Byggðastofnun. Jafnframt verða aðrar lánastofnanir hvattar til að sinna þessari vaxandi atvinnugrein betur en nú er.

Til að skoða nánar mál samgönguráðherra á Alþingi, er hægt að fara á heimasíðu Alþingis.


Frumvörp sem lögð voru fram á Alþingi af hálfu samgönguráðherra, á nýliðnu haustþingi voru eftirfarandi:


  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa
  2. Frumvarp til laga um skipamælingar
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál
  5. Frumvarp til laga um eftirlit með skipum
  6. Frumvarp til laga um vaktstöð siglinga
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum varðandi vinnutíma sjómanna
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála
  9. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003-2014