Samgönguráðherra skipaði nýlega fulltrúa Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla, í Umferðarráð.
Sniglarnir hafa tilnefnt Dagrúnu Jónsdóttur sem fulltrúa sinn í ráðinu og er varamaður hennar James Alexandersson.
Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglarnir, hafa í gegnum tíðina unnið ötullega að fræðslu og áróðri í því skyni að fækka slysum og óhöppum þar sem bifhjólafólk kemur við sögu. Þetta starf hefur skilað sér í mikilli fækkun bifhjólaslysa. Á undanförnum árum hefur bifhjólaslysum fækkað hér á landi þrátt fyrir að bifhjólum hafi fjölgað sem og þeim dögum sem þau eru skráð. Árið 1992 voru skráð 113 bifhjólaslys, en árið 2001 var talan komin niður í 61.
Það sem af er árinu hafa 16 manns látist í umferðinni, þar af tveir bifhjólamenn. Þetta minnir okkur á að ekki má slá slöku við í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi.