Málfundir um öryggismál sjómanna verða haldnir víða um land á árinu. Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig öryggi sjómanna varða eru hvattir til að mæta og koma sjónarmiðum sínum að.

Fyrsti fundurinn verður haldinn í húsnæði björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík mánudaginn 31. mars næstkomandi kl. 20:00-22:30. Fundarstjóri verður Sævar Gunnarsson formaður Sjómannasambands Íslands.

Á fundunum verða eftirtalin erindi:


  1. Hvers vegna áætlun um öryggismál sjófarenda? Siglingastofnun Íslands.
    Farið verður yfir forsendur og verkefni langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda árin 2001-2003.


  2. Eru sjóslys óumflýjanleg? Slysavarnaskóli sjómanna.
    Fjallað verður um slysatíðni til sjós og mögulegar leiðir til að minnka hana.

  3. Tilkynningarskylda íslenskra skipa.
    Kynning verður á starfsemi STK og frætt verður um notkun STK-tækis um borð í skipum.

  4. Leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur. Landhelgisgæsla Íslands.
    Farið verður yfir áherslur og framtíðarsýn Landhelgisgæslunnar á fyrirkomulagi leitar- og björgunarþjónustu við sjófarendur.

  5. Jákvætt viðmót til öryggismála. Landssamband smábátaeigenda.
    Fjallað verður um öryggi smábátasjómanna.

  6. Hver er mín skoðun á öryggismálum sjómanna?

Staðkunnur einstaklingur segir frá skoðunum og áherslum sínum á öryggismálum sjómanna.

Á fundunum er gert ráð fyrir tíma í fyrirspurnir til fyrirlesara og í umræður að erindum loknum.

Næstu fundir eru áætlaðir:

– á Snæfellsnesi í apríl
– á Ísafirði í maí
– á Akureyri, Eskifirði og í Vestmannaeyjum í haust
Málfundirnir verða auglýstir nánar síðar.

Fundirnir eru haldnir í tengslum við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda og að þeim standa: Samgönguráðuneyti, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Landssamband íslenskra útvegsmanna.