Samgönguráðherra flaug í morgun til Gjögurs í Árneshreppi til viðræðna við heimamenn um flugsamgöngur.
Íbúar Árneshrepps sendu ráðherra nýverið undirskriftalista þar sem sett eru fram mótmæli um fyrirkomulag flugsamgangna til Gjögurs. Flugleiðin til Gjögurs er styrkt með framlagi úr ríkissjóði yfir vetrarmánuðina til að rjúfa einangrun, en landleiðinni er ekki haldið opinni. Vegna mótmæla heimamanna ákvað ráðherra að heimsækja Árneshrepp til að ræða málin frekar. Með í för eru ráðuneytismenn, flugmálastjóri og forsvarsmenn Leiguflugs Ísleifs Ottesens.