Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, átti fund með stjórn Torfu-samtakanna þann 17. september í Alþingishúsinu um skipulag á Alþingisreitnum og endurbyggingu húsa Alþingis en samtökin sendu inn ýmsar athugasemdir við deiliskipulagstillögu um Alþingisreitinn sem nú er til lokameðferðar hjá Reykjavíkurborg. Unnið er með athugasemdir sem hafa borist og þess að vænta að niðurstaða liggi fyrir innan skamms. Fyrir hönd Torfusamtakanna sóttu Snorri Hilmarsson, Guðjón Friðriksson og Áshildur Haraldsdóttir fundinn. Fundinn sat einnig skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson. Alþingisreiturinn markast af Kirkjustræti, Templarasundi, Vonarstræti og Tjarnargötu, ef frá er talið Vonarstræti 10, sem er í eigu Oddfellow-reglunnar.