Í tengslum við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda eru nú haldnir fundir vítt og breytt um landið um öryggismál. Fundirnir eru haldnir á vegum; Samgönguráðuneytisins, Siglingastofnunar Íslands, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambands smábátaeigenda, Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra sjómanna.

Fundurinn í Ólafsvík var haldinn þriðjudaginn 15. apríl í félagsheimilinu Klifi og var aðsókn að fundinum góð og fundurinn í alla staði vel heppnaður. Mikið var um fyrirspurnir á fundinum enda mönnum á svæðinu í fersku minni hörmulegt slys sem þar átti sér nýlega stað.

Þær breytingar sem eru að eiga sér stað í öryggismálum munu hafa veruleg áhrif til bóta og voru fundarmenn sammála um það, en betur má ef duga skal. Samgönguráðherra hefur gengið fram fyrir skjöldu og barist einarðlega fyrir auknum rannsóknum og úrbótum í öryggismálum í ráðherratíð sinni.