Forseti Alþingis með forseta orkudeildar MGIMO háskólans |
Rektor, deildarstjóri, nemendur og aðrir góðir gestir
Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir það tækifæri að fá að ávarpa orkudeild þessa virta háskóla. Ég er hér í Rússlandi, sem forseti Alþingis, þjóðþings Íslands, í opinberri heimsókn í boði Dúmunnar, ásamt sendinefnd þingmanna. Við höfum átt góða og gagnlega fundi með ráðamönnum, en ég fagna þessu tækifæri sérstaklega, að fá að ávarpa forsvarsmenn háskólans og nemendur.
Þing okkar var stofnað árið 930 og er því að samfelldum starfsaldri elsta þjóðþing heims. Á Alþingi sitja 63 þjóðkjörnir þingmenn og starfar þingið í einni málstofu. Fimm stjórnmálaflokkar eiga sæti á Alþingi og er núverandi ríkisstjórn samsteypustjórn þeirra tveggja stærstu. Íslendingar voru um aldabil undir stjórn Dana, en við fengum eigin stjórnarskrá árið 1874, fullveldi 1918 og lýðveldi árið 1944. Með innlendu framkvæmdarvaldi ráðherra árið 1904 lauk raunverulegum afskiptum Dana af innlendum málum. Við stöndum utan Evrópusambandsins, en við eigum gott samstarf við Evrópuþjóðir á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem gefur okkur aðgang að innri markaði ESB.
Velgengni okkar er ekki síst að þakka nýtingu okkar á orkulindum okkar, en umfjöllun um þær verður meginerindi þessa ávarps míns.
Orkumál verða eitt helsta viðfangsefni mannkyns á þessari nýbyrjuðu öld. Viðfangsefnið er hvernig útvega eigi orku handa jarðarbúum, ekki síst til að mæta sívaxandi og réttmætum þörfum þeirra fjölmennu þróunarlanda sem nú eru að sækja fram til bættra kjara. Orkumál og loftslagsmál verða heldur ekki aðskilin. Eigi að forðast það sem margir telja mestu ógn sem yfir okkur vofir, loftslagsbreytingar af mannavöldum, þarf að gerbreyta orkubúskapnum á allra næstu árum og áratugum. Mikilvægt er að vinna að lausn þessara mála með samvinnu þjóða þannig að ekki þurfi að koma til átaka, hvort sem það er aðeins á viðskiptasviði eða með valdbeitingu.
Við Íslendingar leggjum kapp á hlut endurnýjanlegrar orku í því sambandi, enda teljum við okkur hafa af mörgu að miðla eins og ég mun fjalla um nánar í þessu ávarpi mínu. En ljóst er að hlutur endurnýjanlegrar og kolefnisrýrrar orku verður ekki aukinn svo um munar nema á löngum tíma.
Því verður að nýta áfram jarðefnaeldsneytislindir, olíu og gas, sem m.a. ykkar mikla ríki, Rússland, er svo auðugt af. Um leið þarf að keppa að því að þróa leiðir til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda við brennslu þeirra. Hagnýtingu kjarnorku til orkuframleiðslu, sem fyrst hófst í heiminum á ykkar landsvæði fyrir um hálfri öld, verður líka að nýta en um leið að gera kröfu til þess að unninn sé bugur á vandamálum sem því fylgja, einkum losun geislavirks úrgangs. Síðast en ekki síst þarf að fara sparlega með orku, enda er bætt orkunýting e.t.v. skjótvirkasta úrræðið í orku- og loftslagsmálunum.
Allt fram á seinustu öld var Ísland vanþróað samfélag bænda og fiskimanna og vorum við með fátækari þjóðum Evrópu. Sjávarútvegur varð burðarás atvinnulífsins lengst af 20. öldinni og skiptir enn verulegu máli. En þróunin í orkumálum skipti ekki síður sköpum og það í sívaxandi mæli eftir því sem á öldina leið. Nýting vatnsorkunnar og jarðhitans hófst í smáum stíl, snemma á öldinni sem leið en það þurfti seinni heimsstyrjöldina til til að gerbreyta öllu. Við urðum auðug á fiskútflutningi til bandamanna í styrjöldinni og nýttum sjóði okkar til tæknilegra framfara strax að henni lokinni. Þá voru tekin ný og stærri skref en áður í að byggja vatnsorkuver til rafmagnsframleiðslu og jarðhiti nýttur til húshitunar.
Orkukreppurnar á sjöunda og áttunda áratuginum ýttu undir jarðhitavæðingu til húshitunar. Til að gera langa sögu stutta þá er nú svo komið að 90% allra húsa á Íslandi eru hituð á ódýran hátt með jarðhita. Þau 10% sem njóta ekki jarðhita eru aðallega í dreifðum sveitum landsins þar sem lagning fjarvarmaleiðslna borgar sig ekki. Í þess stað er þá hitað með raforku sem framleidd er með vistvænni, endurnýjanlegri orku. Því má segja að nær 100% allrar húshitunarorku á Íslandi séu kolefnislaus. En við notum jarðhitann ekki aðeins til að hita hús, heldur t.d. líka í stórum stíl í gróðurhúsum og í hlutfallslega miklum mæli í sundlaugar sem eru okkur mikil og vinsæl heilsulind.
Rafvæðingu landsins lauk upp úr miðri síðustu öld og allt síðan þá hefur svo til allt rafmagn verið framleitt með hinum innlendu orkugjöfum; vatnsorku og í vaxandi mæli jarðvarma. En almennar þarfir heimila og atvinnulífs fyrir raforku nema vart nema 5% af þeim miklu möguleikum sem við höfum til raforkuvinnslu. Leið okkar til að nýta orkulindirnar enn frekar hefur því falist í því að nota raforkuna til nýs orkufreks iðnaðar, einkum álbræðslu. Svo er komið að raforkuvinnsla okkar Íslendinga er sú mesta í heiminum á hvern íbúa. Við framleiðum nú um 50.000 kílóvattstundir á ári á hvern íbúa, sem er um áttfalt meðaltalið í hinum iðnvædda heimi en sjöföld samsvarandi tala fyrir Rússland.
Megnið, eða yfir 80%, af þessari raforkuframleiðslu fer í áliðnaðinn og annan skyldan stóriðnað. Nú er áliðnaðurinn og kísilmálmiðnaðurinn orðinn ámóta stoð undir útflutningstekjum okkar og sjávarútvegurinn sem hefur fært okkur megnið af okkar erlendu tekjum í heila öld. Auk þess sem þjóðarbúið nýtur góðs af áliðnaðnum teljum við okkur vera að leggja mikið fram til hnattrænnar baráttu við að hemja losun gróðurhúsalofttegunda. Við orkuvinnslu okkar reynum við að hlífa náttúrunni eftir föngum og höfum stranga löggjöf um umhverfismál í því skyni.
Þrátt fyrir þessa hlutfallslega miklu raforkuvinnslu höfum við aðeins nýtt um þriðjung þeirra raforkukosta sem við teljum að sé hagkvæmt og vistvænt að vinna. Við teljum að við höfum af umtalsverðri reynslu og þekkingu að miðla í þessum efnum, einkum á sviði jarðvarma. Í nýtingu jarðhitans erum við meðal efsta tugar þjóða hvernig svo sem mælt er og höfum um margt nýjustu reynsluna. Þannig hefur okkur tekist að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu með tilkostnaði sem er langt undir alþjóðlegum reynslutölum og gerir jarðhitarafmagnið hjá okkur með ódýrasta raforkukosti sem völ er á.
Við höfum miðlað þessari þekkingu með ýmsum hætti. Fyrst vil ég nefna að við höfum um 30 ára skeið rekið Jarðhitaskóla sem er útibú frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna og veitt hefur um 400 stúdentum, einkum frá þróunarlöndunum, viðbótarnám á sviði jarðhitafræða af ýmsu tagi, auk meistaranáms í samvinnu við Háskóla Íslands. Þar á meðal hefur verið um tugur nema frá Rússlandi, einkum frá austasta hluta ríkisins, Kamtsjatka, þar sem jarðhiti er í ríkum mæli. Að mínu mati hefur þetta verið fjarskalega árangursrík aðstoð, en fé til reksturs skólans og styrkir til nemenda hans koma nær alfarið frá íslenska ríkinu.
Í öðru lagi höfum við flutt jarðhitaþekkinguna beint út í formi ráðgjafar. Þetta erum við búin að gera í nær hálfa öld vítt og breitt um heiminn, í tugum landa í Ameríku, Asíu og Afríku. Í þriðja lagi erum nýlega farin að hasla okkur völl sem fjárfestar í beislun jarðhita, svo sem í Kína en líka í þróuðum ríkjum eins og Bandaríkjum Norður-Ameríku. Að lokum má nefna að háskólar okkar hafa verið að eflast á sviði orkumála og nú stundar dágóður hópur erlendra stúdenta nám í ýmsu því sem lýtur að endurnýjanlegri orku og nýtingu hennar.
Í aldarfjórðung eða svo keyptum við nær allar olíuvörur frá ykkar landsvæði á grundvelli tvíhliða viðskiptasamninga. Þá hafa rússnesk véla- og verktakafyrirtæki margsinnis komið að byggingu vatnsaflsvirkjana og lagningu háspennulína á Íslandi. Við höfum einnig veitt ráðgjöf í jarðhitamálum bæði í Kamtsjatka og Tsjúkotska. Áform voru um að íslensk fyrirtæki fjárfestu í jarðhitavirkjun í Kamtsjatka en af því varð ekki þá, hvað svo sem síðar verður.
Nýlega hófst samstarf á sviði orkumála milli RES, orkuháskólans á Norður-Íslandi, og orkudeildar háskóla ykkar. Bindum við væntingar við að það samstarf skili árangri. Þá var það mikill heiður íslenskum rannsóknum á sviði vetnis og vetnistækni þegar hin viðurkenndu alheimsorkuverðlaun, Global Energy Prize, voru veitt íslenska prófessornum og frumkvöðlinum Þorsteini Inga Sigfússyni fyrir rösku ári úr hendi forseta Rússlands. Tilnefning til verðlaunanna var gerð af meðlimum Rússnesku vísindaakademíunnar.
Við Íslendingar getum og eigum efalaust eftir að koma frekar við sögu í nýtingu jarðhita í austurhéruðum Rússlands. Enda þótt fyrsta tilraun til beinnar þátttöku í jarðhitaorkuverum þar hafi ekki skilað fullum árangri eiga aðrar eftir að koma. Á sviði jarðhitans er einnig unnt að vinna eldsneyti úr gasinu sem losnar úr jörðu við jarðboranir og er mér kunnugt um áhuga íslenskra og rússneskra vísindamanna á að vinna áfram að þessu merka sviði tækniþróunar.
Með sama hætti kynnu fyrirtæki í ykkar landi að hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi, svo sem í orkufrekum iðnaði, álbræðslu og því um líku. Í því sambandi vil ég jafnframt vekja athygli á því að við erum að fara af stað með útboð á leitar- og vinnsluleyfum fyrir olíu og gas á okkar hafsvæði, nánar tiltekið á svokölluðu Drekasvæði milli Íslands og norsku eyjarinnar Jan Mayen. Þarna kynnu að vera tækifæri fyrir hin öflugu olíufyrirtæki ykkar sem búa yfir mikilli færni og reynslu.
Á vísindasviðinu kemur fjölmargt til greina, svo sem efling þess samstarfs sem þegar er með RES og MGIMO eða aukin samskipti um orku- og loftslagsmál á heimskautasvæðinu á vettvangi Norðurheimskautsráðsins. Þá vil ég nefna sérstaklega áhuga okkar á því að þróa og prófa tækni til að nota endurnýjanlega orku í samgöngum á sjó og á landi. Ég hef hér á undan nefnt vetni í þeim efnum, en aðrar leiðir koma og til álita. Einkum bein nýting rafmagns með þeirri bættu rafhlöðutækni sem er nú að ryðja sér til rúms. Ég þykist vita að hið öfluga rannsóknarumhverfi Rússlands láti þennan málaflokk ekki fram hjá sér fara. Okkar áhugi lýtur að því að geta nýtt hinar vistvænu raforkulindir líka til að knýja bíla okkar og fiskiskipin með það langtímamarkmið að geta sem mest búið við innlenda orku í hvívetna. Þá má nefna áhuga á virkjun sjávarfalla.
Heimsbúskapurinn er knúinn áfram af orku. Án hagkvæmrar og vistvænnar orku getum við ekki búið jarðarbúum þau lífskjör sem kallað er eftir. Í þeim efnum eru blikur á lofti, ekki síst loftlagsbreytingarnar. Það er samt engin ástæða til að leggja árar í bát. Viðfangsefnin á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, eru leysanleg með hyggjuviti mannsins og góðum vilja í samvinnu stórra og smárra, t.d. Rússlands og Íslands. Ég hef fulla trú á því að báðar þjóðir geti lært af hvor annari, þið með ykkar miklu þekkingu á olíuleit og –vinnslu, og við með þekkingu á nýtingu jarðhita og vatnsfalla. Ég vona að þessi orð mín hafi varpað einhverju ljósi á orkumál á Íslandi og mögulega samvinnu landa okkar.