Í dag flutti ég eftirfarandi fyrirspurn til iðnaðarráðherra um orkumál og öryggi raforkuflutninga á Vestfjörðum. Ennig er hér ræða sú er flutt var af því tilefni á Alþingi í dag.
Í ályktunum Fjórðungssambands Vestfjarða hafa komið fram óskir um hraðari endurnýjun og uppbyggingu á raforkukerfisins á Vestfjörðum í þeim tilgangi að auka öryggi og hagkvæmni í kerfinu sem síðan ætti að leiða til lægra raforkuverðs og aukins afhendingaröryggis.
Bæði Orkubú Vestfjarða og Landsnet hafa látið vinna áætlanir sem miða að því að auka orkuöryggi á Vestfjörðum með því að styrkja línur og orkuflutningsbúnað bæði á norður og suðurfjörðum Vestfjarða. Þær leiðir sem hafa verð skoðaðaðar eru annarsvegar hringtenging og aukin flutnigsgeta af landskerfinu eða frekari virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum samhliða styrkingu flutningskerfanna.
Á undanförnum misserum hefur Vesturverk á Ísafirði unnið að því að skoða kosti virkjunar vatnasviðs Hvalár í Ófeigsfirði. Jafnframt unnu verkfræðingar forathugun á virkjun Hvalár árið 2007 og var sú athugun var lögð fram í 2. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsorku og jarðvarma. Forathugunin byggði m.a.á rennslismælingum í Hvalá sem hófust 1976.
Forsvarsmenn Vestur Verks á Ísafirði hafa látið vinna fyrir sig frekari athuganir á hagkvæmni virkjunar Hvalár. Sömuleiðis hefur vatnamælingum og jarðfræðiathugunum verið fram haldið fyrir tilstuðlan félagsins. Virkjunarsvæðið er afskekkt og erfitt yfirferðar og Vestur Verk hefur átt náið samráð við landeigendur að finna leiðir til að lágmarka jarðrask vegna tækja sem eru nauðsynleg við rannsóknir upp á heiðinni. Í aðalskipulagi fyrir Árneshrepp sem hefur verið í vinnslu mun verða gert ráð fyrir Hvalárvirkjun. Þá hefur fyrirtækið sótt um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðuneytisins.
Það hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Landsnets að virkjun Hvalár mundi stór auka öryggi í orkusölu á Vestfjörðum og auk þess mundi slík virkjun skapa vinnu og skilyrði til enn frekari uppbyggingar vegakerfisins á Ströndum sem kæmi bæði íbúum og ferðamönnum að miklu gagni en vegurinn um Árneshrepp er lokaður mikinn hluta vetrar og vart fær öllum að sumri en um þetta svæði fara stöðugt fleiri ferðamenn.
Í ljósi þess að orkuöryggi er ekki viðunandi á Vestfjörðum, vegna aðstæðna á vinnumarkaði og efnahagsástandsins í landinu tel ég mikilvægt að allra leiða verði leitað til þess að hraða rannsóknum vegna virkjunar Hvalár. Með því mætti auðvelda þeim aðilum sem hug hafa á að fjárfesta í virkjunarkostum næstu skref í miklu framfara máli. Við megum engan tíma missa.
Því leyfi ég mér að að leggja svohljóðandi
.
Fyrirspurn
til iðnaðarráðherra um afhendingaröryggi raforku og virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum.
Frá Sturlu Böðvarssyni.
1. Hvaða áform eru uppi um aukið afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum?
2. Hvaða áform eru uppi af hálfu ráðuneytisins um virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum?
3. Hvenær hyggst ráðherra gefa út rannsóknarleyfi vegna virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á
Ströndum?