Svar samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um rekstur vöruhótela.

 „1.       Hafa möguleikar til reksturs fleiri vöruhótela en nú eru í rekstri verið kannaðir og kemur til greina að hið opinbera taki þátt í stofnun eða hvetji til reksturs slíkrar starfsemi í þeim tilgangi að hafa áhrif á vörudreifingu með þungaflutningum um landið?“


Með vöruhótelum á fyrirspyrjandi væntanlega við samsvarandi og þau tvö vöruhótel á vegum Samskips og Eimskips sem starfrækt eru í Reykjavík.
Ekki hefur verið kannað af hálfu ríkisins hvort hagkvæmt væri að stofna fleiri hótel en þegar eru rekin og hefur ekki verið um það rætt að ríkið taki þátt í stofnun slíkra vöruhótela. Lögmál markaðarins, samkeppnin, framboð og eftirspurn mun leiða til þess að hagkvæmasta lausnin í flutningum verður ofan á á hverjum tíma.

„2.       Ef svo er ekki, er ráðherra þá tilbúinn að láta kanna hagkvæmni slíks reksturs og áhrif hans á þungaflutninga á vegum landsins?“

Það hefur verið skoðun mín sem ráðherra að slíkur rekstur eigi best heima hjá einkaaðilum og í samkeppni. Er það í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað, þ.e. að ríkið hefur sem mest losaði sig úr rekstri þar sem eðlilegt er að samkeppni sé.  Auðvitað getað komið fram t.d. umhverfissjónarmið sem krefjast betri nýtingar flutningatækjanna. Ég held að skilaboðum um slíkt sé hægt að koma til markaðarins með ýmsum hætti öðrum en beinni aðkomu ríkisins að fyrirtækjunum. 
Þær aðferðir sem ríkið getur haft í frammi til þess að auka hagkvæmni í flutningastarfsemi á sjó og landi er góð hafnaraðstaða, afkastamikið vegakerfi og jafnræði í skattlagningu flutningamáta.