Eftirfarandi fer munnlegt svar samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um veggjöld.

131. löggjafarþing 2004–2005.

Þskj. 149 — 149. mál.

Fyrirspurn:


  1. Hvenær kemur til framkvæmda boðuð lækkun virðisaukaskatts á veggjald í Hvalfjarðargöngum og hvaða aðgerðir hefur ráðherrann í undirbúningi til að lækka gjaldið eða fella það niður?


    Svar:
    Lækkun á virðisaukaskatti á gjöldum í Hvalfjarðargöngum kemur til skoðunar samfara endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu í samræmi við stjórnarsáttmálann.
    Það er ljóst, að ekki verður tekin sérstök ákvörðun um lækkun virðisauka á gangnagjaldið eitt og sér, heldur verður það í samhengi við almenna breytingu virðisaukaskattskerfisins.

    Vert er að minna á það að Spölur er hlutafélag sem er í eigu margra aðila og er sjálfstæður samningsaðili sem hefur formlegt leyfi stjórnvalda til þess að reka göngin. Vert er að halda því til haga að í samningnum um göngin var virðisaukaskattur endurgreiddur gegn því að skatttur yrði lagður á gjaldið.

    Fyrirspurn:


  2. Hverjar eru niðurstöður stefnumörkunar um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja, þ. e. veggjöld, sem ráðherra sagði í vor að mundi liggja fyrir á þessu ári?

Svar:
Starfshópur um gjaldtöku af umferð á vegum var stofnaður í október 2003. Hópurinn hefur metið kostnað við uppbyggingu vegakerfisins á grundvelli samgönguáætlunar og líklega þróun þeirra tekjustofna sem ætlað er að standa undir vegaframkvæmdum samkvæmt henni. Hópurinn hefur skoðað þá möguleika, sem eru til sérstakrar tekjuöflunar með veggjöldum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og líklegar tekjur af þeim. Þá hefur verið leitað upplýsinga um stöðu og stefnu í þessum málum í Evrópu. Ýmsir fleiri þættir hafa verið skoðaðir og verður gerð grein fyrir þeim þegar hópurinn skilar niðurstöðum sínum. Þær liggja ekki fyrir enn, en gert er ráð fyrir að svo verði fljótlega.

Það var mitt mat að nauðsynlegt væri að þessi stefnumörkun tengdist þeirri vinnu sem er í gangi við endurskoðun samgönguáætlunar. Þar sem gjaldtaka hefur verið tekin upp vegna notkunar umferðarmannvirkja er það oftast gert til þess að hraða framkvæmdum. Það er ljóst að ákvörðun um stofnun Spalar og gerð Hvalfjarðarganga varð til þess að hrinda því verki af stað sem ekki var á áætlun. Þeir fjármunir, sem hefðu verið nýttir til endurbyggingar vegar fyrir Hvalfjörð, voru nýttir í aðra vegi m.a. í Borgarfirði.

Göngunum hafa fylgt miklar hagsbætur, einkum fyrir íbúa Akraness og Borgarfjarðar, eins og kemur fram í nýlegri skýrslu sem kynnt var fyrir stuttu.

Í viðræðum við stjórn Spalar hefur ráðuneytið lagt áherslu á það að allra leiða verði leitað til að lækka gjaldið og gera notkun ganganna hagkvæmari. Í því skini var starfandi vinnuhópur á vegum ráðuneytisins og Vegagerðarinnar sem kannaði möguleika þess að lækka gjaldið.

Leiðirnar til lækkunar gjaldsins eru ekki margar:



  •  



















  • *


  • Endurfjármögnun og hagræðing í rekstri, sem er á valdi Spalar.
*

  • Lækkun virðisaukaskatts.
*

  • Ríkið tæki að sér tryggingar á göngunum
*

  • Yfirtaka ríkisins á skuldum Spalar og greiðslur lána úr Vegasjóði.



  • Með ákvörðun um yfirtöku ríkisins væri verið að girða fyrir frekari framkvæmdir í vegagerð á forsendum einkaframkvæmdar. Ég er talsmaður þess að nýta möguleika einkaframkvæmdar við gerð samgöngumannvirkja þar sem það á við og vil vinna að lækkun gjaldsins í Hvalfjarðargöngum í því ljósi.

Í samningi milli samgönguráðuneytisins og Spalar um vegtengingu við utanverðan Hvalfjörð er heimild til þess að Ríkisendurskoðun yfirfari bókhald félagsins. Þann 19.mars s.l. óskaði ég eftir því að Ríkisendurskoðun nýtti þessa heimild, í því skyni að finna leiðir til þess að ná niður kostnaði og lækka gjaldið. Hefur Ríkisendurskoðandi gert ráðuneytinu grein fyrir athugun sinni á rekstri Spalar.

Í bréfi Ríkisendurskoðunar kemur fram það álit að athugun stofnunarinnar sýni að meðal annars megi ná fram kostnaðarlækkun er varðar vaxtakostnað með endurfjármögnun.

Telur Ríkisendurskoðun eftirfarandi koma til greina:













  • *



  • Að skuldbreyta innlendum lánum sem gæti sparað í raunvaxtakostnaði um 50 milljónir á ári.

*




  • Að endurfjármagna erlend lána með það að markmiði að lækka vaxtakostnað. Ef tekið er mið af vaxtastigi erlendra lána í dag þá gæti slík endurfjármögnun skilað verulega lægri vaxtakostnaði til lengri tíma, þrátt fyrir nokkuð háan uppgreiðslukostnað sem bundinn er í núverandi samningum við erlendu lánadrottnana.

Hvað varðar annan rekstrarkostnað er eftirfarandi:
















  • *



  • Hjá fyrirtækinu hefur farið fram athugun á kostnaði vegna trygginga og gæti hann lækkað um 10 m.kr. á ári.

*

Að breytingar á mannahaldi kæmi til greina ef tekið yrði í notkun sjálfvirk innheimta veggjalds.

*


Ekki er talið að sú aðkeypta þjónusta og aðstaða sem fyrirtækið greiðir til Íslenska Járnblendifélagsins og Sementsverksmiðjunnar sé óeðlilega há.

Samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar er ekkert því til fyrirstöðu að Spölur geti gert þær breytingar sem ættu að geta leitt til þess að veruleg lækkun gæti orðið á gjaldinu með þeim breytingum sem Ríkisendurskoðun bendir á.