Fyrr í dag kom saman í Þjóðmenningarhúsinu samgönguráð til fyrsta fundar. Samgönguráðherra sat fyrsta fundinn og fór yfir aðdragandann að skipan samgönguráðs. En með samþykkt laga á Alþingi í vor um samgönguáætlun varð sú grundvallarbreyting á skipulagi samgöngumála að nú mun samræming allra áætlana, þ.e. vegáætlun, flugmálaáætlun og hafnaáætlun, fara fram í samgöngráði og það gera tillögu til ráðherra um samgönguáætlun sem síðan verður lögð fram á Alþingi sem slík.
Í nýsamþykktum lögum um samgönguáætlun segir að samgönguráð skuli hafa yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Í lögunum segir ennfremur: „Í samgönguáætlun skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Þá skal í samgönguáætlun meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.
Í samgönguáætlun skal gera ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:
a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,
c. að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins.“
Samgönguráð skipa Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður, Helgi Hallgrímsson, vegamálastjóri, Hermann Guðjónsson, siglingamálastjóri, og Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri.