Síðastliðinn föstudag afhenti Vottun hf. siglingamálastjóra gæðavottorð og samgönguráðherra og siglingamálastjóri undirrituðu árangursstjórnunarsamning til næstu fjögurra ára.

Gæðavottorðið staðfestir að stofnunin starfrækir gæðakerfi sem samræmist kröfum ÍST EN ISO 9001:2000 staðalsins um útgáfu áritunar og endurnýjunar alþjóðlegra atvinnuskírteina fyrir sjómenn.
Skírteinin veita réttindi til starfa á farþega- og flutningaskipum sem eru í alþjóðasiglingum, og eru skráð í ríkjum sem hafa að mati Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar uppfyllt ákvæði alþjóðasamþykktarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW-samþykktin).

Undanfarin ár hafa Slysavarnaskóli sjómanna, Fjöltækniskóli Íslands og Siglingastofnun Íslands unnið að því að taka upp gæðastjórnunarkerfi í starfi sínu og fá það vottað. Í byrjun þessa árs fengu bæði Fjöltækniskóli Íslands og Slysavarnaskóli sjómanna vottorð frá Vottun hf. sem staðfestingu þess að skólarnir uppfylli kröfur ISO-9001 og nú bætist Siglingastofnun í hópinn.

Við þetta tækifæri undirrituðu samgönguráðherra og siglingamálastjóri samning um árangursstjórnun til næstu fjögurra ára.

Í samningnum koma fram sameiginleg markmið Siglingastofnunar og ráðuneytisins og ákveðið samskiptaferli fest í sessi. Þá er kveðið á um gagnkvæmar skyldur stofnunarinnar og ráðuneytisins, meðal annars um skil á ársáætlun og ársskýrslu. Í ársáætlun skal meðal annars gerð grein fyrir því hvaða markmiðum stefnt er að á árinu og í ársskýrslu skal koma fram samanburður á þeim markmiðum sem stefnt var að í upphafi árs og þeim árangri sem náðist á árinu.
Samninginn er hægt að nálgast hér (WORD-32kb)
Sturla og Hermann Guðjónsson skrifa undir samning um árangur