Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lýsti ánægju sinni með tvo nýja samninga milli samgönguyfirvalda og tveggja flugfélaga um áætlunarflug til nokkurra staða á landinu sem gengið var frá í dag. Annar er langtímasamningur við Flugfélagið Erni um flug milli Reykjavíkur og Bíldudals, Gjögurs, Hafnar og Sauðárkróks og hinn skammtímasamningur við Flugfélag Íslands um flug til Vestmannaeyja.

,,Ég tel sérstaklega mikilvægt að tryggja með þessu áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja,” segir Sturla Böðvarsson. ,,Þannig er áfram rennt tryggum stoðum undir ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum auk þess sem íbúar Vestmannaeyja og aðrir landsmenn búa við fleiri kosti í samgöngum milli lands og Eyja.”

Samningurinn við Flugfélag Íslands er gerður í framhaldi af því að Landsflug hætti áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja 25. september. Ljóst þótti að slíku flugi yrði ekki haldið uppi án aðkomu ríkisvaldsins og því ákvað samgönguráðherra að leita samninga til skamms tíma um slíkt flug og í framhaldinu var ákveðið í ríkisstjórn að tillögu samgönguráðherra að bjóða út flugleiðina með langtímasamning í huga.

Samningurinn er milli Flugfélags Íslands og Vegagerðarinnar fyrir hönd samgönguyfirvalda. Gildir hann frá 16. október næstkomandi í 10 mánuði. Gert er ráð fyrir að farnar verði tvær ferðir á dag alla daga nema laugardaga þegar ein ferð er í boði. Notaðar verða ýmist Dash 8 eða Fokker 50 flugvélar. Kostnaður ríkisins við samninginn nemur kringum 58 milljónum króna.

Hinn samningurinn er við Flugfélagið Erni um áætlunarflug frá Reykjavík til Bíldudals, Gjögurs, Hafnar og Sauðárkróks. Gildir hann frá næstu áramótum í þrjú ár og er kostnaður við hann alls um 350 milljónir króna. Ernir hafa til umráða fjórar flugvélar sem taka 5 til 9 farþega.

,,Það er þýðingarmikið að fá traustan flugrekanda í langtímasamning um áætlunarflugið til áðurnefndra staða á landinu en Flugfélagið Ernir hefur langa reynslu af innanlandsflugi.  Áætlunarflugið er lykillinn að samgöngum í þessum byggðarlögum, ekki síst þeim stöðum sem búa við erfiða færð að vetri.”