Ásgeir Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið þann 24. mars s.l. sem ber yfirskriftina Gjábakkavegur – hvað er að gerast? Ég vil þakka Ásgeiri fyrir ágæta grein og þann áhuga sem hann sýnir þessari mikilvægu vegalagningu sem hefur verið undirbúin af mikilli kostgæfni. 
 
Vegna umræddrar greinar vil ég biðja Morgunblaðið fyrir þetta greinarkorn mitt í þeim tilgangi að upplýsa Ásgeir og aðra lesendur blaðsins lesendur um stöðu málsins. Rétt er að minna á að vegurinn liggur að þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem er á heimsminjaskrá. Því er óhjákvæmilegt að vanda þessa vegagerð vel og taka tillit til aðstæðna í þjóðgarðinum.
 
Nýr vegur um Lyngdalsheiði (Gjábakkavegur 365) kemur fyrst fram í langtímaáætlun í vegagerð 1999-2010 og var þá gert ráð fyrir fjárveitingum til verksins á öðru og þriðja tímabili þeirrar áætlunar, þ.e. á árunum 2003-2010.
Vegagerðin fór formlega af stað með vinnu við frumdrög í ársbyrjun 2002 og var skýrsla tilbúin í mars 2003. Í kjölfarið hófst svo vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Áður hafði Vegagerðin skoðað nokkra veglínukosti vegna vinnu við aðalskipulag Laugardalshrepps, en gert er ráð fyrir nýjum vegi þar.
Matsskýrsla ráðgjafa Vegagerðarinnar, vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, var send til skipulagsstofnunar í júlí á sl. ári og felldi skipulagsstjóri úrskurð sinn í nóvember sl. Hafði vinna við skýrsluna tekið nokkuð lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi og munaði þar mestu um að í millitíðinni hafði íslenska ríkið sótt um að Þingvellir yrðu settir á alheimsminjaskrá UNESCO og með því ljóst að viðkvæmara yrði að fá leyfi til nýframkvæmda innan þjóðgarðsins. Leiddi það til þeirrar niðurstöðu að Vegagerðin lagði til að vegurinn tengdist Þingvallavegi á mót við Miðfell og yrði nýr vegur því alfarið utan stækkaðs þjóðgarðs. Skv. úrskurði skipulagsstjóra var fallist í meginatriðum á framkvæmdaáform Vegagerðarinnar en nokkrir aðilar kærðu úrskurðinn hins vegar til umhverfisráðherra og er að vænta úrskurðar hans nú mjög fljótlega. Verði hann jákvæður verður hægt að hefja lokahönnun og undirbúa útboð.
 
Við lokavinnslu samgönguáætlunar 2003-2006 ákvað ríkisstjórnin að setja viðbótarfjármagn til ýmissa vegagerðarverkefna og var m.a. ákveðið að veita 150 m.kr. til Gjábakkavegar. Í núgildandi samgönguáætlun 2003 -2006 er svo gert ráð fyrir samtals 115 m.kr. á árunum 2005 og 2006 til viðbótar þeim 150 m.kr. sem áður voru komnar. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er nú áætlaður um 575 m.kr. Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um Samgönguáætlun fyrir tímabilið 2005 -2008 er gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdinni á árinu 2007 og er gert ráð fyrir fjármögnun verksins að fullu á því ári. Þetta skýrist síðan við afgreiðslu Samgönguáætlunar nú í vor.
Vegagerðin hefur miðað við að hægt yrði að bjóða út framkvæmdir við veginn næsta haust en verklok og hugsanleg áfangaskil eru endanlega háð ákvörðun í Samgönguáætlun, sem verður til meðferðar á Alþingi á þessu vori eins og fyrr er getið. Að öllu óbreyttu verður Gjábakkavegur því opnaður fyrir umferð fullgerður á árinu 2007.