Víðtæk samstaða er um að lækka veggjald í Hvalfjarðargöng.

Eitt af meginmarkmiðum samgönguráðuneytisins er að samgöngur séu öruggar, greiðar og hagkvæmar.

Tilkoma Hvalfjarðarganga var liður í því að ná því markmiði. Hvalfjarðargöng hafa aukið öryggi vegfarenda svo ekki verður um villst. Og engan hef ég heyrt nefna annað en að Hvalfjarðargöng hafi gert samgöngur greiðari að miklum mun. Hvað hagkvæmnina varðar þá hefur, frá upphafi, verið stöðug umræða um upphæð veggjalda í göngin. Að því tilefni fór ég þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin gerði athugun á því hvort unnt væri að lækka veggjaldið í göngin. Niðurstaða ríkisendurskoðanda var sú að ná má fram verulegri kostnaðarlækkun við rekstur ganganna, með endurfjármögnun lána en vaxtakostnaður er megin útgjaldaliður Spalar sem rekur göngin.

Ég tala um víðtæka samstöðu þar sem Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti, á síðasta fundi sínum, ályktunartillögu þess efnis að leitað yrði hagkvæmustu leiða til að mögulegt verði að lækka verulega veggjald í Hvalfjarðargöngin.

Ég fagna útspili Borgarstjórnar Reykjavíkur og bind vonir við að stjórn Spalar nái því að endurfjármagna göngin og lækka vaxtakostnað sem er megin útgjalda liður við rekstur ganganna. Með því gæti veggjald í Hvalfjarðargöng lækkað.

Ályktunartillaga Borgarstjórnar Reykjavíkur frá 18.janúar er eftirfarandi:

„Atvinnu- og búsetuþróun síðustu ára hefur leitt til þess að höfuðborgarsvæðið nær nú yfir mun stærra landsvæði en áður, bæði til vesturs og austurs. Hvalfjarðargöngin gegna lykilhlutverki í frekari þróun svæðisins. Gjaldtakan í Hvalfjarðargöngunum gerði framkvæmdina mögulega en í ljósi þess hversu mikið umferð um göngin hefur aukist ætti að leita leiða til að lækka veggjaldið enn frekar en gert hefur verið.
Athugun Ríkisendurskoðunar, sem unnin var að beiðni samgönguráðherra og kynnt í nóvember 2004, leiddi í ljós að ná má fram verulegri kostnaðarlækkun við rekstur ganganna er varðar vaxtakostnað með endurfjármögnun lána, sem er megin útgjaldaliður Spalar sem rekur göngin.
Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á stjórn Spalar og samgönguráðherra að leita hagkvæmustu leiða til að mögulegt verði að lækka verulega veggjald í Hvalfjarðargöngunum.“