Samgönguráðherra verður í Ólafsvík í dag, þar sem hann mun flytja hátíðarræðu dagsins. Ræða ráðherra fer hér á eftir.
Ágætu hátíðargestir.

Á þjóðátíðardegi Íslendinga við aldahvörf minnumst við sögu okkar, rifjum upp frelsisbaráttu þjóðarinnar á 19. og 20. öldinni og hugum að framtíðinni á 21. öldinni.

Það var öðruvísi umhorfs hér í Ólafsvík í Neshreppi innan Ennis eins og sveitarfélagið hét þá árið 1896 þegar skáldið Jóhann Jónsson fæddist. Þjóðin var fátæk og hún hafði ekki hlotið sjálfstæði. Íslenska þjóðin var vissulega undirokuð á þeim tíma. Arðurinn af sjávarfanginu og vinnu landsmanna nýttist öðrum í fjarlægu landi og verslunin var á hendi útlendinga. Einokunarverslunin var hemill á allar framfarir eins og þær urðu á þeim tíma í Evrópu sem þá var að iðnvæðast.

Auðlegð þjóðarinnar lá á þeirri tíð einkum í sögu hennar og bókmenntum. Fátæk þjóð gat ekki nýtt sér þann auð sem menningin skóp. Menningin varð ekki í askana látin.

Skáldið Jóhann Jónsson fæddist á Staðarstað en ólst upp hér í Ólafsvík, lauk stúdentsprófi og fór síðan til háskólanáms í Þýskalandi þar sem hann dvaldist mestan partinn til dauðadags árið 1932. Hann var jarðsettur hér í Ólafsvíkurkirkjugarði. Hans má minnast meðal bestu sona og dætra byggðarinnar.

Jóhann Jónsson var ungur námsmaður þegar Ísland varð fullvalda þjóð árið 1918 og hann orti tregaþrungin ljóð sem fyrst voru metin að verðleikum að honum gengnum. En hann lifði ekki að sjá þjóð sína rísa úr öskustónni og standa jafnfætis Evrópuþjóðunum sem hann sótti menntun sína til. Hvernig sem við lítum á stöðu íslensku þjóðarinnar á 19. og 20. öldinni þá höfum við ávaxtað pund okkar allvel og nýtt okkur þann auð sem landið og hafið hefur að geyma.

Sjálfstæðisbarátta okkar, sem var grundvölluð á starfi Jóns Sigurðssonar forseta Alþingis og hugmyndafræði hans, færði okkur fram til þess sem síðar varð er lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 1944. Á þeim helga stað þar sem Alþingi var háð og kristni lögtekin fyrir þúsund árum.

Því rifja ég upp sögu skáldsins sem ólst upp í koti hér við Gilið að frá dögum hans hafa orðið þvílíkar breytingar jafnt hér í Snæfellsbæ sem og í landinu öllu að líkja má við byltingu á öllum sviðum þjóðlífsins.

Skáldið Jóhann Jónsson orti:

Gildir ei einu um hið liðna,
hvort grófu það ár eða eilífð?

Í orðum skáldsins blikar á vonleysi þess sem sá ekki fyrir sér bjarta framtíð. Auðvitað vissi skáldið að hið liðna var til að læra af því hvort sem liðið var ár eða eilífð.

Bylting framfaranna hefur einkum orðið hér á Íslandi á lýðveldistímanum. Eftir að við Íslendingar þurftum að bera ábyrgð á öllum okkar málum. Í dag er hagur okkar á öllum sviðum jafn því sem best gerist meðal auðugustu ríkja veraldar.

Og það er athyglisvert að hvatning Jóns Sigurðssonar forseta Alþingis um verslunarfrelsi okkur til handa í stað einokunar er sem meginstef í allri framvindu sem hefur orðið okkur til hagsældar. Og enn þann dag í dag er þörf á því að standa vörð um frelsi í viðskiptum svo komið verði í veg fyrir misnotkun einokunar og sölu á möðkuðu mjöli okkar tíðar.

Við höfum nýtt sjálfstæði okkar, og styrkt stöðuna á vettvangi þjóðanna. Það er verkefni dagsins að haga þannig málum okkar að við búum í haginn fyrir komandi kynslóðir sem erfa landið.

Á lýðveldistímanum höfum við náð að eiga slík samskipti við nágranna okkar í austri og vestri að við njótum virðingar á vettvangi þjóðanna. Aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur fært okkur styrka stöðu í pólitísku samstarfi og á viðskiptasviðinu.

Um þessar mundir er mikið rætt um hvort við eigum að undirbúa aðild að Evrópusambandinu. Evrópusambandið stækkar stöðugt og verður öflugra samband ríkja á meginlandi Evrópu og stefnir að því að verða ein efnahagsleg heild. Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt með Evrópusambandsríkjunum fara hagsmunir okkar ekki í öllu saman við Evrópusambandið. Að öllu óbreyttu er að mínu mati ekki ráðlegt að hefja viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að það væri mikið óráð að ganga inn í Evrópusambandið að óbreyttum reglum þess og afsala okkur þar með því fullveldi sem með mikilli baráttu var fengið 1918. Við myndum veikja lýðveldið með því að hleypa öðrum ríkjum inn til lítt heftrar nýtingar auðlinda okkar sem við höfum haft svo mikið fyrir að verja og nýta skynsamlega. Aðild að ESB kæmi sér trúlega verst fyrir sjávarbyggðirnar sem þyrftu að keppa um aðgang að auðlindum sjávar en þær mundu opnast fleirrum innan ESB.

Við eigum að nota þjóðhátíðardaginn til þess að efla þjóðerniskennd okkar og leggja á ráðin um að auka á samheldni þjóðarinar. Það verður ekki gert með því að ganga í Evrópubandalagið og treysta á opinn faðm stórabróður sem mun gleypa okkur ef að líkum lætur. Fámennt ríki á borð við Ísland verður að velja sér leið sem tryggir rétt okkar í stað þess að afsala okkur öllu frumkvæði til Evrópuþingsins og kommissara í Brussel. Það er eftirtektarvert að það fólk sem á að vera að standa varðstöðu fyrir okkur í Brussel skuli margt verða í hópi áköfustu talsmanna þess að ganga inn í Evrópusambandið. Það er ólíkt þeirri varðstöðu sem Jón Sigurðsson stóð í Kaupmannahöfn þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst. Létta leiðin ljúfa hefði verið þá að fórna menningu okkar og reisn sem sjálfstæð þjóð með því að ganga í skjól hins danska valds. Falla frá endurreisn Alþingis og stofnun sjálfstæðs þjóðríkis. Það varð gæfa íslensku þjóðarinnar að velja sálfstæðið.

Ágætu þjóðhátíðargestir, við þurfum einnig að líta okkur nær Snæfellingar á þessum degi. Við verðum að huga að velferð okkar og hagsmunum héraðsins. Hvernig verður hagsmunum okkar best borgið innan nýs kjördæmis – Norðvesturkjördæmisins? Er það með auknu samstarfi sveitarfélaga, stofnana og atvinnufyrirtækja eða jafnvel með því að sveitarfélögin á Snæfellsnesi verði sameinuð? Um þessa kosti þarf að ræða án þess að hrapa að hlutunum óræddum og meta kosti og galla.

Með breytingum á kjördæmaskipuninni er ljóst að mikil umskipti eru fyrirsjáanleg. Héruðin þurfa að leggja á ráðin um hvernig best verður á hagsmunum þeirra haldið.

Á nýrri öld og árþúsundi þurfum við Snæfellingar að taka forystu um nýtingu þeirra auðlinda lands og sjávar sem næst byggðinni er og búa í haginn fyrir kynslóðirnar.

Nú þegar við stöndum frammi fyrir samdrætti í þorskveiðunum hljótum við að þurfa að bæta umgengni um fiskimiðin. Við verðum að gera þá kröfu til sjómanna að allur afli komi á land. Umræður um að afla sé hent er sem svartur blettur á nýtingu auðlindanna . Það skapar tortryggni og gerir fiskifræðingum erfitt að meta raunverulegt veiðiþol. Við verðum að muna það öll að fiskimiðin er sú gullkista sem ekki má tæmast og við verðum að tryggja vöxt og viðgang fiskistofnanna.

Það er ástæða til þess að fagna þeirri bjartsýni sem nú er einkennandi hér á Snæfellsnesi. Hún birtist í uppbyggingu og nýjum atvinnutækifærum sem skapa okkur aukna hagsæld og tryggja verðgildi eigna einstaklinga og samfélagsins alls.

Bjartsýnin og trúin á samfélagið okkar dregur að ungt fólk sem vill leggja hönd á plóginn og snúa við þeirri óheillaþróun landflóttans sem er mesti óvinur okkar Íslendinga um þessar mundir. En við verðum einnig að minnst ábyrgðar okkar gagnvart unga fólkinu. Börnunum sem þurfa leiðsögn og uppeldi í anda kristinna lífsviðhorfa og þeirra gilda sem við viljum í heiðri halda.

Það er vissulega ánægjulegt að vera þátttakandi í uppbyggingu sem vekur bjartsýni íbúanna hér í Snæfellsbæ. Það verður með öflugri menntastofnunum, uppbyggingu íþróttamannvirkja, nýjum hitaveitum, betri fjarskiptum og tölvutækni, bættri hafnaraðstöðu sjávarbyggðanna, með miklum framkvæmdum við vegagerð sem nú er hafin hér á Snæfellsnesi og mun marka þáttaskil fyrir byggðina og með eflingu ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er orðinn næst stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og skapar fjölbreyttni og gefur ungu vel menntuðu fólki tækifæri til þess að hverfa til starfa í heimabyggð að loknu námi og starfsþjálfun .

Þessa er vert að minnast á þjóðhátíðardeginum og hvetja til samstöðu og átaks í þágu byggðanna í hinum unga Snæfellsbæ og á landinu öllu. Með samstöðu, sóknarhug og trú á landið og byggðina mun okkur vel farnast á nýrri öld.

Gleðilega þjóðhátíð.