Sturla Böðvarsson skrifar um fjarskiptamál:

Greinin birtist í heild sinni í Morgunblaðinu 6. apríl 2008.

Þessa dagana auglýsa símafyrirtækin mikið. Þau keppa einkum um hylli farsímanotenda og þeirra sem vilja geta notað símann sinn um allt land; jafnt í byggð, í óbyggðum, á þjóðvegakerfinu og á fiskimiðunum við strendur landsins. Þau segja sum frá því að þau séu með ,,stærsta dreifikerfið“ og ánægða viðskiptavini. Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi fyrir notendur fjarskiptanna og ég vona að ánægja viðskiptavinanna fari vaxandi, bæði með útbreiðsluna og verðið. En hvað er hér á ferðinni?

Samkeppnin á fjarskiptamarkaði er að aukast


Það sem er að gerast er mjög ör tækniþróun og aukin samkeppni á fjarskiptamarkaði. Með ákvæðum í fjarskiptalögum og aðgerðum Fjarskiptasjóðs hefur tekist að efla samkeppni milli símafyrirtækjanna, sem kemur neytendum til góða. Samkeppnin nær ekki einungis til þeirra sem eru á þéttbýlissvæðunum heldur eru símafyrirtækin nú að keppast um að veita þjónustu um landið allt og einnig við sjófarendur. Þessi staða sýnir að ákvæði fjarskiptalaga, samþykkt fjarskiptaáætlunar og stofnun Fjarskiptasjóðs voru þær aðgerðir sem tryggja best hagsmuni neytenda um allt land. Raunveruleg samkeppni er besta tryggingin fyrir notendur fjarskiptaþjónustunnar. Það eru fjarskiptafyrirtækin nú að sýna með aukinni og bættri þjónustu. En allt hefur sinn tíma.

Ríkisrekstur í fjarskiptum er liðin tíð


Til eru stjórnmálamenn sem enn tala um nauðsyn þess að endurreisa ríkisrekstur í fjarskipum. Það er mikill misskilningur að ríkisrekstur í fjarskiptaþjónustu tryggi best hagsmuni neytenda, eins og þingmenn Vinstri grænna hafa haldið fram og þingmenn Samfylkingarinnar héldu fram til skamms tíma. Þeir sem halda því fram eiga að vita að ríkisstuðningur í samkeppnisumhverfi á sviði fjarskiptanna er ekki heimill á hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég leyfi mér að óska símafyrirtækjunum til hamingju með hagfellda þróun. Símafyrirtækið Vodafone er að ná ótrúlega góðum árangri við að byggja upp sín GSM-kerfi í dreifbýlinu í harðri samkeppni við Símann sem hefur auðvitað verið að gera góða hluti, enda byggir hann á gömlum merg og nýtur þess forskots sem hann hafði. Þá er ástæða til þess að minna á að það eru fleiri símafyrirtæki sem eru að veita ágæta þjónustu í samkeppni við stóru fyrirtækin og hafa náð ótrúlega góðum árangri en starfa einkum í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins.

Útboð háhraðakerfa í dreifbýli


Nú hefur Fjarskiptasjóður boðið út uppbyggingu háhraðakerfa í dreifbýlinu þar sem þjónusta verður ekki byggð upp á viðskiptalegum forsendum. Það verkefni fer af stað vonum síðar. Vonandi tekst símafyrirtækjunum að halda áfram uppbyggingu um landið allt, ekki síst á sviði háhraðaþjónustu en eftirspurnin eftir henni er mikil og það er mikilvægt að stjórnvöldum takist að láta vinna að þeirri uppbyggingu í samræmi við Fjarskiptaáætlunina sem var samþykkt á Alþingi árið 2005. Forsendur þeirrar áætlunar eru að fjarskiptafyrirtækin standi sig við að byggja upp þjónustuna og að Fjarskiptasjóður nýti þá fjármuni sem teknir voru frá vegna sölu Símans. Uppbygging GSM-kerfanna lofar góðu með þjónustu símafyrirtækjanna við háhraðakerfi í dreifbýlinu þar sem beðið er eftir að komast í viðunandi samband. Þar reynir ekki einungis á fjármuni Fjarskiptasjóðs heldur ekki síður vilja símafyrirtækjanna til þess að veita góða þjónustu um landið allt.