Sturla Böðvarsson skrifar
ORKUPAKKAR OG ÁÆTLUN UM ORKUMÁL

Um þessar mundir er rætt um fyrirsjáanlegan orkuskort á Íslandi og það blasir við að raforkudreifikerfið þarfnast uppbyggingar. Dreifikerfið tryggir ekki næga flutningsgetu og nauðsynlegt öryggi í öllum landshlutum. En sem betur fer er mjög víða er hægt að virkja og framleiða raforku.

Fyrirsjáanleg þróun orkumála
Í þessu ljósi og vegna mjög harkalegrar umræðu um svokallaðan þriðja orkupakka, hefur rifjast upp fyrir mér sú mikla vinna sem fór fram til þess að tryggja uppbyggingu og framfarir á sviði fjarskipta um leið og Síminn var seldur og samkeppni á sviði fjarskipta hófst fyrir alvöru.
Þau átta ár sem ég fór með samgöngumálin í ríkisstjórn árin 1999 til 2007 var rík áhersla lögð á áætlanagerð og löggjöf sem tryggði uppbyggingu í takt við þá miklu framþróun sem var á sviði upplýsingatækni, samgangna og ferðaþjónustu. Þegar þessi verkefni voru sett af stað fór ekki á milli mála að ég naut öflugs stuðnings Davíðs Oddssonar forsætisráðherra enda þekkti hann vel sem fyrrverandi borgarstjóri að framkvæmdir eru forsenda framþróunar. Sett voru sérstök lög um fjarskiptaáætlun þar sem kveðið var á um fjarskiptasjóð, samþykkt löggjöf um um samgönguáætlun og um ferðamálaáætlun. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi sterka áhersla á ítarlegar áætlanir til langs tíma hafa reynst vel og orðið til þess að uppbygging var tryggð á forsendum vandaðra vinnubragða. Um þetta vinnulag má lesa í skýrslunni Verkefnaáætlun samgönguráðuneytis 2003 til 2007 sem gefin var út og er á netinu undir þessum tengli;
https://www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/Skyrsla/verkefnatlunin10082004.pdf

Ísland altengt
Sérstök lög um fjarskipti tóku gildi 25. júlí árið 2003 og í kjölfarið var samþykkt á Alþingi Fjarskiptaáætlun 2005-2010 og Fjarskiptasjóður var stofnaður með tryggri fjármögnun til þess að byggja upp fjarskiptakerfið milli landshluta. Með þeirri lagasetningu var stefnt að því að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti og efla samkeppni. Í kjölfar þessarar vinnu fór ég sem ráðherra fjarskiptamála um allt land og efndi til um 30 kynningarfunda þar sem farið var yfir áætlunina ÍSLAND ALTENGT sem byggði á áformum í Fjarskiptaáætlun og verkefnum sem Fjarskiptasjóði var ætlað að fjármagna. Þessi tæki stjórnvalda Fjarskiptaáætlun og Fjarskiptasjóður eru enn í fullu gildi og vinna sitt verk og eiga að tryggja uppbyggingu dreifikerfisins og tengingu ljóðsleiðara um allt land. Auðvitaða hefðum við viljað að það verk gengi hraðar en það stefnir í rétta átt, þökk sé ríkum vilja þeirra sem með þau verkefni hafa farið og öflugri samkeppni á fjarskiptamarkaði.
Tryggjum dreifing raforku um allt land
Því nefni ég þetta að ég tel að með sama hætti eigi í ljósi þess að orkumálin eru í brennidepli og allt stefnir í að svokallaður orkupakki verði samþykktur og sæstrengur lagður í framtíðinni, eigi með sama hætti að setja upp áætlun á sviði orkumálanna og gert var á sviði upplýsingatækni og fjarskipta. Sæstrengur mun væntanlega verða lagður. Áður en það verður eigum við að tryggja hagsmuni okkar með því að stilla upp áætlun miðað við það og setja okkur það takmark að orkukaup heimilanna verði, svo sem fjarskiptaþjónustan er, seld á sama verði um allt land. Jafnframt verði tryggt að arðurinn af orkunýtingu hvort sem það verður nýting jarðvarma, vatnsorku, vindorku eða virkjun sjávarfalla tryggi hagsmuni landsmanna en gangi ekki til þeirra sem kaupa orku á grundvelli regluverks sem við ráðum engu um og er jafnvel þröngvað uppá okkur. Það hafa ekki komið fram skýr svör um hvað verði þegar orkusalan hefst um sæstreng. Til þess að fást við Brusselvaldið í orkumálunum treysti ég engum betur en formanni Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benediktssyni. Vegna þeirrar stöðu sem uppi er í orkumálum þurfum við sjálfstæðismenn að móta okkur nýja og skýra stefnu og hefja þá umræðu á flokksráðsfundinum sem framundan er í haust. Ég hvet núverandi og fyrrverandi forystumenn flokksins til þess að leggjast á árar og skapa grundvöll samstöðu um orkumálin. Okkar bestu fjölmiðlar verða að vinna með stjórnvöldum við að skapa nauðsynlega samstöðu í þjóðar þágu með upplýsandi umræðu. Höfnum ruglinu í Viðreisnarliðinu sem sveik okkur sjálfstæðismenn. Þau reyna sjáanlega að halda þeirri iðju áfram á leið sinni til Brussel.

Höfundur er fv.bæjarstjóri, alþingismaður, samgönguráðherra og forseti Alþingis.