Ráðuneytinu hefur borist greinargerð Rannsóknarnefndar flugslysa (RNF), um björgunarþátt flugslyss, er flugvélin TF-GTI fórst í Skerjafirði þann 7. ágúst 2000.
Samgönguráðherra beindi tilmælum til RNF í ágúst 2001, að nefndin skoðaði frekar björgunarþátt slyssins. Nefndin varð við þeim tilmælum og kallaði tvo sérfræðinga til starfa með nefndinni samkvæmt ábendingu landlæknis, læknana Jón Baldursson og Sigurð Á. Kristinsson.
Nefndin telur að sú viðbótarskoðun, sem hún hafi gert á björgunarþætti slyssins, gefi ekki tilefni til endurupptöku rannsóknar á þeim þætti í skýrslu nefndarinnar sem fjallar um möguleika á að komast af. Með vísan til niðurstöðu hinna tilkvöddu sérfræðinga er það ennfremur álit RNF að viðbragðsaðilar hafi naumast getað staðið betur að því að auka möguleika hinna slösuðu á að komast af. Engar nýjar upplýsingar hafi komið fram við skoðunina sem breyti fyrri niðurstöðu RNF um líklega orsök slyssins eða gefa tilefni til frekari tillagna eða úrbóta en nefndin hefur þegar gert til þess að koma í veg fyrir svipuð eða sams konar slys.
Við skoðun nefndarinnar á börgunarþættinum komu hins vegar fram vísbendingar um nauðsyn á úrbótum varðandi viðbúnað og verklag á Reykjavíkurflugvelli, sem flugmálayfirvöld og yfirstjórn leitar og björgunar á hafinu og við strendur Íslands, ættu að taka til athugunar að mati nefndarinnar.
Samgönguráðuneytið hefur ritað Flugmálastjórn bréf og farið fram á að neyðaráætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll og samstarfssamningur við SHS verði endurskoðuð með tilliti til framkominna ábendinga RNF.
Ráðuneytið hefur einnig ritað Landhelgisgæslunni og yfirstjórn leitar og björgunar á hafinu og við strendur Íslands bréf, þar sem vakin er athygli á þeim atriðum sem RNF gerir athugasemdir við.
Nú eru til endurskoðunar reglur um leit og björgun og verður við þá vinnu horft til þeirra athugasemda sem fram hafa komið af hálfu RNF.