Mér var bent á það að í Morgunblaðinu hafi birst grein eftir einn af frambjóðendum Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem hafi haldið því fram að ég hafi verið á móti gerð Hvalfjarðarganganna. Þegar að var gáð er Guðbjartur Hannesson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, höfundur þessa dæmalausa texa.  Hann virðist hafa valið sér óvin í komandi kosningabaráttu.  Óvinurinn og skotmarkið er samgönguráðherrann Sturla Böðvarsson.  Frambjóðandinn virðist ætla að tileinka sér aðferðina að tilgangurinn helgi meðalið.
Í grein, sem Guðbjartur Hannesson skrifar, um gerð Hvalfjarðarganga heldur hann því fram blákalt að ég hafi verið á móti gerð ganganna.  Þessi fullyrðing skólastjórans er röng og ótrúlega óskammfeilin.  Hann getur hvergi fundið þessari fullyrðingu stað.  Hann fer með fleipur.  Hann ber það jafnframt á borð að ég beri ábyrgð á því að Spölur hafi leyfi til þess að innheimta gjald af umferðinni um göngin. 
Hið sanna er að fyrrum flokksbróðir hans, Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi samgönguráðherra mótaði þá stefnu  sem notuð var við að fjármagna og reka Hvalfjarðargöngin.   Með sérstökum lögum frá  árinu 1990 var ríkisstjórninni  veitt leyfi til þess að fela hlutafélagi að grafa og reka jarðgöng undir Hvalfjörð og innheimta gjald til þess að endurgreiða framkvæmdina og kosta rekstur þeirra. Með sérstökum samningi var síðan Speli afhent verkið. Það kom hins vegar í hlut ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að ganga frá málinu og koma því í verk og tryggja framgang og fjármuni til þeirra framkvæmda sem féllu í hlut Vegagerðarinnar m.a. tengingar og vegalagningu að göngunum.   Í blaðinu Feykir, sem gefið er út á Sauðárkróki, segir Guðbjartur Hannesson í viðtali að hann hafi, sem bæjarfulltrúi, tekið þátt í því að gera Hvalfjarðargöngin að veruleika!   Það kann að vera rétt.  Ég tel mig ekki hafa verið síðri áhugamann um gerð þeirra en Guðbjartur telur sig hafa verið. Á undirbúningstímanum tók ég virkan þátt í umræðu um þetta verkefni. Fyrst  sem bæjarstjóri, síðar sem fyrsti þingmaður Vesturlandskjördæmis og einnig sem stjórnarmaður í Íslenska járnblendifélaginu.  En það voru þeir Jón Sigurðsson forstjóri og Stefán Reynir Kristinsson, síðar framkvæmdastjóri Spalar, og ekki síst Gylfi Þórðarson forstjóri Sementsverksmiðjunnar og núverandi framkvæmdastjóri Spalar, sem voru mestu hvatamenn að gerð jarðganganna. 
Í aðdraganda að gerð Hvalfjarðarganga var öll umræða á Vesturlandi mjög á þann veg að herða ætti á framkvæmdum við vegagerð ekki síður en er í dag.  Umræður, sem ég tók þátt í, voru jákvæðar og engar áhrifamiklar úrtöluraddir heyrðust svo ég muni sérstaklega eftir um gjaldtökuna. Mikil áhersla var lögð á það af hálfu sveitarstjórna á Vesturlandi að bæta samgöngurnar við höfuðborgarsvæðið og það án þess að nær allar aðrar framkvæmdir í kjördæminu stöðvuðust eins og gerðist þegar Borgarfjarðarbrúin var reist.    Allir töldu samgöngur um Hvalfjarðargöng svo mikið framfaraspor að þær þóttu beinlínis ,,sturlaðar” svo notað sé orðfæri Samfylkingarinnar í auglýsingum gegn jarðgöngunum í dag.
Það skýtur því skökku við þegar Samfylkingin, undir forystu Guðbjarts Hannessonar skólastjóra, auglýsir í fjölmiðlum og dreifir bæklingum  um allt Norðvesturkjördæmi með hvatningunni ,,burt með sturlaðar samgöngur.”
Steingrímur J. Sigfússon, með dyggum stuðningi Guðbjarts Hannessonar, að því að hann sjálfur segir, mótaði þá stefnu að selja aðgang að Hvalfjarðargöngum í 25 ár.  Það er ómerkilegt ,,kosningatrix” þegar Guðbjartur Hannesson boðar nú að hann vilji burt með þessa gjaldtöku og burt með ,,sturlaðar samgöngur”.

Slíkur málflutningur er ekki boðlegur og enn síður skröksagan um að Sturla Böðvarsson hafi verið á móti Hvalfjarðargöngunum. Ég vil leyfa mér að gera þá kröfu til frambjóðenda að þeir dreifi ekki slíkum málflutningi. Það er ekki í þágu kjördæmisins okkar sem vissulega þarf á jákvæðri og málefnalegri málafylgju að halda.