Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti samgönguráðherra minnisblað um hafnarframkvæmdir á Árskógssandi. Minnisblaðið fer hér á eftir.
Í framhaldi af fundi þann 19. janúar s.l. í samgönguráðuneytinu með fulltrúum Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar, er lagt til að unnið verði að endurbótum á hafnaraðstöðu á Árskógssandi sem bæti aðstöðu Hríseyjarferjunnar og útgerðarmanna þar. Hafnaraðstaða fyrir ferjuna hefur verið erfið vegna ókyrrðar í höfninni, og má búast við auknum vandræðum með tilkomu nýju ferjunnar, þar sem hún er stærri en núverandi ferja og ristir dýpra. Er því æskilegt að þessum framkvæmdum verði lokið áður en nýja ferjan kemur. Umsaminn afhendingardagur er nú 15. júní.
Siglingastofnun hefur gert frumtillögur að lengingu á hafnargarði og skjólgarði fyrir ferjubryggju á Árskógssandi, dags. í október 1999. Kostnaðaráætlun fyrir verk unnið samkvæmt þeirri tillögu er 35 m.kr. Ennfremur hefur verið gert ráð fyrir að þörf sé á dýpkun og lengingu bryggju í Hrísey, sem muni kosta um 5 m. kr. Frekari hönnun verður nauðsynleg áður en útboð getur farið fram.

Þar sem Hafnasamlag Eyjafjarðar hefur engar tekjur af ferjurekstri, þá hefur stjórn þess lýst því yfir að hún telji að greiða eigi kostnað vegna aðstöðu fyrir ferjuna úr ríkissjóði. Líta verður svo á að þetta sé sanngjarnt sjónarmið í ljósi þess að ekki hafa verið uppi nein áform um að bæta kyrrð í höfninni á Árskógssandi hjá stjórn Hafnasamlagsins. Bátar þaðan hafa farið inn á Dalvík í verstu veðrum og það var talið ásættanlegt af notendum, þó ekki væru allir sáttir við þær aðstæður.
Mögulegt er að Vegagerðin leggi út fyrir kostnaði við verkið, en gert er ráð fyrir að endanlegri kostnaðarskiptingu verði þannig háttað, að ríkishluti kostnaðar verði greiddur að 75% sbr. 21. gr. hafnalaga nr 23/1994 og kæmi fjárveiting vegna þess hluta á fjáraukalögum 2000 eða í fjárlögum 2001. Vegagerðin greiði 25% sbr. 23 gr. vegalaga nr. 45/1994.
Lagt er til að ríkisstjórnin samþykki framangreint verklag.