Samgönguráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu
um framkvæmd siglingamála samkvæmt samgönguáætlun á árinu 2003. Er þar um að ræða fyrsta árið sem unnið er eftir nýjum lögum frá því í maí 2002 um samgönguáætlun er nær til allra samgönguþátta.

Samkvæmt fjárlögum 2003 var til ráðstöfunar kr. 1.857,7 milljónir til rekstrar og stofnkostnaðar.

Stofnkostnaður við hafnargerð nemur um það bil 1,2 milljarði kr. og náðust mikilvægir áfangar við uppbyggingu hafna landsins. Þá var fest í sessi starfsemi vaktstöðvar siglinga og unnið samkvæmt áætlun um öryggismál sjófarenda.

Tvö ráð starfa á vettvangi hafnarmála og siglingamála. Það eru Hafnarráð undir formennsku Sigríðar Finsen, hagfræðings og bæjarfulltrúa og Siglingaráð undir formennsku Daða Jóhannessonar, lögfræðings, sem jafnframt er með skipstjórnarréttindi og starfaði sem stýrimaður. Þessi ráð veita umsagnir um frumvörp og reglugerðir og eru ráðherra til ráðuneytis við stefnumörkun á sviði siglingamála.

Skýrslan um siglingaáætlun gefur ágæta mynd af því mikilvæga starfi sem fram fer á vettvangi Siglingastofnunar og samgönguráðuneytisins.