Nýju hafnalögin eru tekin að hafa áhrif. Með yfirlýsingu um sameiningu Reykjavíkurhafnar, Grundartangahafnar, Akraneshafnar og Borgarnesshafnar er stigið tímamótaskref í þágu flutninga til og frá landinu og ekki síður í þágu flutninga innanlands.


Ný hafnalög leiða til aukinnar hagkvæmni

Forsendur þessara miklu breytinga eru m.a. ákvæði nýju hafnarlaganna sem heimila breytt rekstrarform og hvetja til sameiningar og aukinnar samkeppni milli hafna um leið og dregið er úr styrkjum ríkisins til þeirra hafna sem geta raunverulega keppt um viðskipti. Tilgangur breytinga á hafnalögum var að auka hagkvæmni við rekstur hafna og lækka kostnað í flutningakerfinu. Það á að geta gerst með samspili flutninga á landi og á sjó. Skipuleggja þarf uppbyggingu hafna og rekstur þeirra í samræmi við bættar samgöngur um vegi. Gott dæmi um það er sameining hafnanna við Faxaflóa. Til þess að skapa mótvægi ætti nú að sameina hafnirnar á suðursvæðinu. Að mínu áliti ætti að sameina rekstur og eignarhald á höfnunum í Hafnarfirði, Straumsvík, Reykjanesbæ, Sandgerðishöfn, Grindavíkurhöfn og Þorlákshöfn. Með því og með bættum samgöngum á Suðurnesjum gæti skapast mikilvægt mótvægi og aukin hagkvæmni.

Tenging hafnarsvæðanna með Sundabraut

Á fimm ára afmæli starfsemi Norðuráls á Grundartanga flutti ég ávarp. Benti ég á nauðsyn þess að auka hagkvæmni í hafnarrekstri við Faxaflóa og auka flutninga um Grundartangahöfn. Með því mætti létta á Sundahöfninni og þeirri umferð þungaflutninga sem þar fer um. Nú stefnir í þessa þróun með ákvörðunum hafnarstjórnanna fjögurra. Fagna ég því alveg sérstaklega. Til þess að hagkvæmni sameiningar verði nýtt til fullnustu er lagning Sundabrautar með ströndinni mikilvæg. Það blasir því við að þrýstingur mun aukast á lagningu Sundabrautar alla leið úr Grafarvogi og upp á Kjalarnes. Sú framkvæmd er einnig mikilvægt framtíðarverkefni vegna umferðaröryggis. Umferðarþungi mun aukast mikið um Mosfellsbæ og Kollafjörð ekki síst þegar flutningar aukast enn frekar með uppbyggingu og stækkun iðjuveranna á Grundartanga.