Síðasta vika var annasöm. Á þriðjudegi mælti ég fyrir Samgönguáætlun í þinginu og stóðu umræður fram á nótt. Morguninn eftir flaug ég ásamt starfsmönnum ráðuneytisins til Hamborgar til fundar á vegum Þýsk-íslenska verslunarráðsins. 
Flutti þar ræðu um ferðamál og mikilvægi þýska markaðarins fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Að morgni föstudagsins flaug ég til Ísafjarðar til að ávarpa ráðstefnu um ,,Náttúru Vestfjarða og ferðamennsku“. Síðar um daginn átti ég ágætan fund með stjórn og samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða vegna samgöngumála.

Um kvöldið mætti ég á skemmtun Sjálfstæðisfélaganna á Vestfjörðum þar sem við Hallgerður kona mín og Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins vorum heiðursgestir. Mjög ánægjuleg kvöldstund þar sem heimamenn skemmtu með söng- og hljóðfæraleik.

Laugardagurinn fór í að aka suður um Djúp með bæjarstjóranum Halldóri Halldórssyni. Var ánægjulegt að fara um Ísafjarðardjúpið undir leiðsögn Halldórs, sem þekkir þar hverja þúfu og hvern bæ. Var eins og vænta mátti rætt um vegamál á leiðinni. Bæði um næstu skrefin í að byggja upp veginn um Djúpið og einnig um vegabætur á Ströndum og um nýtt vegastæði um Arnkötludal. Voru það mjög gagnlegar viðræður eins og jafnan þegar við Halldór eigum tal saman um hagsmunamál Vestfirðinga. Við Hallgerður kvöddum þá Kjartan og Halldór í Borgarnesi og héldum heim í Stykkishólm. Vorum heimkomunni fegin eftir stranga daga og langa.

Í gær, sunnudag, sat ég síðan ágætan fund um samgöngumál á Bíldhóli á Skógarströnd á Snæfellsnesi. Til fundar var boðað af áhugamönnum um bættar samgöngur við svæðið. Einkum var rætt um að bæta Snæfellsnesveg um Skógarströnd og Heydalsveg. Einnig var nokkuð rætt um fjarskipti og nauðsyn þess að bæta farsímasambönd á þjóðvegum vegna þess öryggis sem það veitir vegfarendum að geta verið í sambandi einkum að vetri og einnig um nauðsyn þess að dreifbýlið geti notið háhraðatengingar við internetið. Til þessa fundar mættu fjörutíu gestir og tóku tuttugu þeirra til máls og mæltu fyrir úrbótum á vegum og fjarskiptakerfum og báru fram fyrirspurnir til ráðherra samgöngumála.

Að loknum fundinum þáðu fundarmenn veglegar veitingar hjá húsráðendum á Bíldhóli þeim Halldísi Hallsdóttur og Jóel Jónssyni. Minnist ég þess ekki að hafa setið jafn fjölmennan fund í heimahúsi. Í fundarlok var samgönguráðherra afhent ályktun fundarins sem hér fylgir ásamt skriflegri greinargerð frá eigendum Borga á Skógarströnd um nauðsyn vegabóta. Fundurinn var hinn ánægjulegasti.

Að loknum fundinum á Bíldhóli ók ég heim í Hólm, ræddi við nokkra vini mína og trausta stuðningsmenn og ók síðan undir nóttina suður á móti stöðugri umferð sem hefði mátt fara hægar. Menn gleyma sér gjarnan undir stýri og of margir fara yfir leyfilegan hámarks hraða oft með hörmulegum afleiðingum.