Alþjóðlegur baráttudagur launþega var haldinn hátíðlegur 1. maí með hefðbundnum hætti. Að venju var ég heima í Stykkishólmi og sótti fund Verkalýðsfélagsins. Að þessu sinni var jafnframt haldið upp á 90 ára afmæli Verkalýðsfélags Stykkishólms sem var stofnað 1915. Mér veittist sá heiður að vera boðið að flytja hátíðarræðu ásamt forseta ASÍ, Grétari Þorsteinssyni. Það er trúlega ekki algengt að ráðherrar flytji ræður við hliðina á forseta ASÍ á þessum degi.
Ræður 1. maí eru að jafnaði notaðar til þess að senda stjórnvöldum tóninn ekki síður en að þétta fylkingar launþega að baki forystumanna verkalýðsfélaganna. Ræða forseta ASÍ var mjög öflug og málefnaleg og hæfði tilefninu. Verður að segjast að hún var með öðrum og málefnalegri brag en ræða sem Ögmundur Jónasson flutti á útifundi í Reykjavík og hefur verið í fréttum. Hátíðarfundurinn í Stykkishólmi var haldinn í kirkjunni og hófst með leik Lúðrasveitarinnar. Að loknum ræðum og kaffisamsæti var flutt brot úr söngleiknum Fiðlaranum á þakinu í flutningi Leikfélags Stykkishólms. Þessi samkoma var Verkalýðsfélagi Stykkishólms til sóma og var athyglisvert hversu margir mættu, bæði ungir sem eldri og fólk úr öllum stéttum samfélagsins. Er það til marks um þann stuðning sem félagar í verkalýðsfélaginu njóta í samfélaginu. Ræðan er eftirfarandi:
„Forseti Alþýðusambands Íslands, ágætu hátíðargestir.
Ég leyfi mér að óska okkur öllum til hamingju á alþjóðlegum baráttudegi launafólks sem haldinn er hátíðlegur.
Sérstaklega vil ég óska félögum í Verkalýðsfélagi Stykkishólms til hamingju með daginn. Það er virkilega ástæða til þess að færa ykkur hamingjuóskir á svo merkum tímamótum sem 90 ára afmæli félagsins er. Það eru breyttir tímar á Íslandi frá því sem var á stofndegi Verkalýðsfélags Stykkishólms.
Það má segja að á árdögum félagsins hafi bærinn verið að vaxa úr grasi á fyrstu árum heimastjórnar og stéttavitundin var að vakna sem aflgjafi framtaks og framfara og verkamenn stofnuðu verkalýðsfélag til að halda á rétti sínum.
Ef litið er á söguna og gluggað í annála frá þeirri tíð er verkalýðsfélagið var stofnað má greina framfarahug og bjartsýni hér í Stykkishólmi, ekki síður en í dag, þó aðstæður væru aðrar.
Árið 1909 var hafskipabryggjan vígð og hefur það verið mikil bylting í atvinnuháttum. Það var sagt að Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann okkar, hafi næstum tæmt landssjóðinn við að láta byggja bryggjuna í Stykkishólmi. Árið 1912 kom síminn í Hólminn og ári síðar var fyrsti slökkviliðsbílinn keyptur í bæinn.
Kaupfélag verkamanna var síðan stofnað 1918, svo nokkur tímamót séu nefnd. Það má því með sanni segja að á þessum árum hafi verið mikið um að vera í flestu tilliti.
Það hefur því væntanlega verið rík ástæða, fyrir verkamenn í Stykkishólmi, til þess að þétta raðir sínar og efla samtakamátt sinn og tryggja kjör og aðstæður í þessum bæ þar sem eyjabændur, kaupmenn og embættismenn voru áberandi og öflugir. En trúlega hefur bæjarbragurinn og atvinnuhættir skapað önnur viðhorf en voru víða í sjávarbyggðum á þeim tíma. Og ég trúi því að þær aðstæður hafi þróað það yfirvegaða andrúmsloft sem hér hefur jafnan ríkt í samskiptum milli forsvarsmanna verkalýðsfélagsins, atvinnurekenda og stjórnenda bæjarfélagsins.
Í nærri tvo áratugi átti ég, sem sveitar og bæjarstjóri, ánægjulegt samstarf við formann og stjórnarmenn verkalýðsfélagsins. Það var ekki eingöngu vegna kjaramála. Samskiptin voru á vettvangi atvinnumála, heilbrigðismála, öldrunarmála og hvers konar framfaramála, þar sem forsvarsmenn félagsins komu að í samstarfi við bæjarfélagið. Engan skugga bar á það samstarf.
Það var samt fjarri því að að allt gerðist átakalaust. Heilbrigð átök eru eðlileg og nauðsynleg og verða oft til þess að hreyfing kemst á hlutina ef deilur og átök fara ekki úr hófi. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka fyrir samstarfið, þar sem ég tel að framganga forustumanna verkalýðsfélagsins hafi verið bæjarfélaginu til heilla.
Í okkar lýðræðisþjóðfélagi þá er það hlutverk hagsmunasamtaka og þá sérstaklega samtaka á vinnumarkaði að veita okkur stjórnmálamönnum aðhald. Traust milli manna og gott samráð er hins vegar mikilvægt svo þeim markmiðum megi ná til að bæta hag almennings í landinu.
Því verður ekki á móti mælt að lífskjör hafa batnað í landinu síðustu árin. Uppbygging og þar með hagvöxtur er mikill og því mikilvægt að búa í haginn til framtíðar. Og búa í haginn ef áföll verða á borð við það sem varð hér í Stykkishólmi þegar skelveiðar stöðvuðust. Við þær aðstæður skiptir miklu máli að atvinnurekendur sýni fyrirhyggju og bregðist við með hagsmuni samfélagsins í huga. Því verður ekki í móti mælt að okkur hefur tekist að spila betur úr þeim erfiðu spilum en margir óttuðust að hægt væri að gera. Og í dag er meri gróska í byggingariðnaði en hefur verið í langan tíma og ferðaþjónustan er að verða mikilvæg kjölfesta atvinnulífsins sem á eftir að aukast enn meira.
Það er fjölmargt sem skiptir máli í því samhengi að tryggja hagsmuni almennings. Góðar samgöngur auðvelda ekki einungis ferðalög heldur tryggja þær lægra vöruverð og gefa framleiðslu fyrirtækjunum svigrúm til þess að bæta kjör launþega. Stöðugt verðlag og lágir vextir skipta heimilin í landinu miklu máli og létta róðurinn hjá þeim, sem eru að stofna heimili og koma undir sig fótunum með því að eignast húsnæði eða fjárfesta í atvinnurekstri.
En það eru vissulega miklir umbrotatímar á Íslandi. Við Íslendingar erum á mörkum tveggja heima. Þess heims sem okkar rótgróna samfélag er og hins vegar hins harða viðskiptasamfélags sem við tengjumst í öðrum löndum.
Við fylgjumst með margháttuðum framförum. Atvinnuuppbyggingu í stóriðju, fjarskiptum, lyfjaiðnaði, ferðaþjónustu og jafnframt fylgjumst við með viðureign þeirra víkinga, sem stunda útrás í útlöndum á sviði viðskipta og glíma við ógnarsamninga, sem geta skapað meiri hagnað en venjulegur Íslendingur getur skynjað innan íslenska hagkerfisins. Við verðum að skapa sem mestan jöfnuð í landinu og gæta þess að hér verði ekki til tvær þjóðir í landinu. Við þurfum því að hvetja til þess að menn gæti hófs. Og við stjórnmálamenn eigum að ganga á undan með góðu fordæmi og veita þeim aðhald sem láta kné fylgja kviði í viðskiptalífinu með skýrum leikreglum. Við verðum að tryggja heiðarlegar leikreglur í samfélaginu og gæta þess að auðlegð okkar, menntun og reynsla nýtist til þess að gera þjóðfélagið betra fyrir alla, en ekki einungis fyrir suma.
Fyrir stuttu fékk ég í heimsókn til mín á Alþingi nemendur grunnskólans í Stykkishólmi, kennarar og foreldra. Einstaklega skemmtileg heimsókn. Þegar ég hafði kvatt hópinn snéri einn drengurinn úr hópnum sér að mér og spurði: ,,Hefur þú unnið með höndunum“. Ég hafði gaman af þessari spurningu og svaraði játandi. Ég hefði unnið í fiski, verið í sveit, væri lærður smiður og hefði því notað hendurnar þrátt fyrir að hafa unnið sem tæknifræðingur, verið bæjarstjóri, þingmaður og ráðherra mestan part minnar starfsævi. Myndin, sem ungi maðurinn hafði af starfi þingmannsins, var sú að hann hefði ekki tekið til höndum til ærlegra verka eins og stundum er sagt.
Það rifjaðist þá upp fyrir mér hversu miklar breytingar hafa orðið frá því að ég var að alast upp á sama aldri og þessir krakar eru eða á 11. ári. Fyrsta launaða starfið, sem ég tók að mér, var að vinna í saltfiski í tvo mánuði sumarið sem ég var á ellefta árinu. Vinnutíminn var frá kl. 7.20 til kl. 7 að kveldi. Á laugardögum var unnið fram að hádegi.
Í dag ganga unglingar ekki til slíkra starfa og þætti vinnutíminn væntanleg óforsvaranlegur þökk sé áhrifum verkalýðsfélaganna, sem hafa unnið að því að stytta vinnuvikuna. Og það mátti svo sannarlega breytast.
Verkalýðshreyfingin hefur víða verk að vinna í dag. Og ég fagna þeirri áherslu sem ASÍ leggur á að tryggja hagsmuni erlendra verkamanna, sem sækja hingað í atvinnuleit og eru víða burðarásar í fiskvinnslu, verktakastarfsemi og í margvíslegri þjónustu og umönnun sjúkra. Við eigum að bjóða innflytjendur velkomna, skapa þeim aðstæður til þess að aðlagast samfélagi okkar og tryggja hagsmuni þeirra á vinnumarkaði. Í sjötíu ár höfum við tengst öðrum menningarheimi með innflytjendum þar sem St.Franciksusysturnar okkar eru. Við Snæfellingar og þá sérstaklega Hólmarar getum borið þess vitni hversu jákvæð búseta og starf St.Franciskusystra hefur verið hér og hversu mikinn svip þær hafa sett á bæjarlífið. Við Hólmarar höfum vissulega búið í fjölmenningarsamféagi í jákvæðri merkingu þess nýyrðis og notið kosta þess. Við hljótum því að standa með verkalýðshreyfingunni við að tryggja hagsmuni erlendra starfsmanna, sem auðvitað verða að semja sig að íslensku umhverfi.
Ágætu hátíðargestir ég þakka þann heiður sem mér er sýndur með því að fá að ávarpa ykkur í dag. Ég óska launþegum í Stykkishólmi gleðilegs sumars og vona að við getum saman stuðlað að velferð, framförum og áframhaldandi uppbyggingu í okkar kæra bæ.“