Sturla Böðvarsson flutti hátíðarræðu dagsins á þjóðhátíð Dalamanna sem haldin var að Laugum í Sælingsdal. Ræða ráðherra fer hér á eftir.
Ágætu Dalamenn.

Gleðilega þjóðhátíð.

Í dag minnumst við þess að lýðveldi var stofnað á Íslandi 17. júní 1944. Gísli Sveinsson forseti þingsins lýsti yfir á fundi Alþingis á Þingvöllum að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands væri gengin í gildi, en Alþingi hafði samþykkt þá ályktun í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú saga verður ekki rakin frekar hér en hún má aldrei gleymast okkur Íslendingum.

Og við hljótum að minnast þess á þjóðhátíðardegi að þjóðin var lengst af undirokuð og afskekkt nýlenda sem réði ekki málum sínum, naut lítt afraksturs auðlinda sinna og átti undir högg að sækja.

Sjálfstæðisbaráttan var háð við erfiðar aðstæður af mönnum sem leituðu styrks í sögu, bókmenntum og sérstöðu tungunnar. Sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson sótti styrk í rómantíska þjóððerniskennd, en einnig til öflugra stuðningsmanna, sem vissu að með auknu frelsi vaknaði þjóðin til dáða. Stuðningsmenn Jóns Sigurðsssonar voru margir hér við Breiðafjörðinn. Það er vert að rifja upp hér á Laugum, og minnir á hversu mikilvægt það er að staðið sé þétt við bak þeirra forystumanna sem vinna að landsmálum.

Efnahagslegar framfarir á Íslandi í þágu almennings urðu einkum eftir að Íslendingar tóku stjórn landsmála í eigin hendur. Fyrst með heimastjórn og eftir að Ísland var viðurkennt sem fullvalda ríki. Síðar endanlega við lýðveldisstofnunina.

Með lýðveldisstofnun hófst framfaraskeið sem á síðustu tíu árum hefur risið hvað hæst. Á nær alla mælikvarða erum við í fremstu röð meðal þjóða heimsins. Við Íslendingar eigum mikla möguleika til þess að auka velmegun og hagsæld í landinu svo framarlega sem við missum ekki unga fólkið úr landi. Takist okkur að nýta auðlindir lands og sjávar á sjálfbæran hátt, takist okkur að nýta vaxandi menntun og þekkingu og takist okkur að byggja landið allt eigum við að geta búið hér við bestu aðstæður.

Til þess að byggja upp traustan efnahag þurfum við að ná sátt um nýtingu auðlindanna. Um virkjun fallvatna, um nýtingu fiskimiðanna, og um hálendið og perlur í náttúru landsins.

Öðru hvoru heyrast þær raddir að okkur væri betur borgið undir verndarvæng Evrópusambandsins, sem eitt af aðildarlöndunum þess. Umræður um undirbúning eða könnunarviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa orðið háværari. Um það eru vissulelga skiptar skoðanir. Þegar Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu voru deilur um þá ákvörðun. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur reynst vel og hann skerðir í engu sjálfstæði þjóðarinnr á borð við það sem yrði ef við gengjum í Evrópusambandið. Ekkert bendir til þess að aðild að Evrópusambandinu feli í sér þær hagsbætur sem réttlæti umsókn að óbreyttum aðstæðum. Ekki síst þegar litið er til þess að aðild að Evrópusambandinu mun hafa þær afleiðingar að við gætum ekki haft vald á sókn í fiskimiðin. Í þeim efnum getum við enga áhættu tekið.

Það er vissulega víða verk að vinna á Íslandi . Svo tryggð verði gróandi og framfarir í þjóðlífinu verður að sækja fram á öllum sviðum. Breytingar í atvinnuháttum og byggðaminstri setja mark sitt á umræður og viðfangsefni okkar í jaðarbyggðum þar sem landbúnaður er megin undirstaða.

Það er óhjákvæmilegt að taka tillit til þess að í landbúnaði er samdráttur af markaðsástæðum. Því verða að koma nýjar stoðir undir atvinnulífið. Ekki er undan því vikist að viðurkenna það í verki og bregðast við þeim breytingum sem fylgja. Að því er unnið þó hægt kunni að miða.

Uppbygging ferðaþjónustu hér á Laugum og á Eiríksstöðu í Haukadal er dæmi um mikilvæg viðbrögð við þessum breytingum sem eru óhjákvæmilegar. Menningartengd ferðaþjónusta er það sem gæti eflt byggðina hér í Dölum með öðru sem íbúarnir verða að þróa í takt við aðstæður.

Þau svið sem mörgum eru hugleikin um þessar mundir og varða mjög framtíð okkar tengjast verkefnum mínum sem samgönguráðherra . Þar má nefna uppbyggingu vegakerfisins, eflingu ferðaþjónustu sem vaxandi atvinnugreinar og fjarskiptabyltingu sem tengir okkur um veröld alla og skapar aukna möguleika á menntun og viðskiptum óháð staðsetningu. Á þessi svið þarf að leggja ríka áherslu. Það er gert um þessar mundir og skiptir miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir.

Meiri fjármunum er nú varið til vegagerðar en nokkru sinni áður. Samkvæmt vegáætlun eru nú undirbúnar framkvæmdir sem munu valda byltingu í samögnukerfi landsins.

Ferðaþjónustan er næst stærsta atvinnugreinin þegar litið er til gjaldeyristekna atvinnuveganna, en um landið allt er vaxandi uppbygging í ferðaþjónustunni og sókn á mörkuðum sem birtist í æ fleirri ferðamönnum sem sækja landið heim.

Uppbygging háhraðanets símafyrirtækjanna skapar möguleika í viðskiptum, fjarvinnslu og skólastarfi vegna gagnaflutninga sem áður hafa verið óþekktir.

Þessi svið eiga að getað skapað skilyrði til þess að bæta hag þjóðarinnar, ekki síst hinna dreifðu byggða. Það auðveldar jafnframt að standast samkeppni við nágrannalöndin um vel menntað og þjálfað ungt fólk sem kemur á vinnumarkaðinn og gerir miklar kröfur um aðstæður og umhverfi í leik og í starfi.

Íslensk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir erfiðum málum á þessu vori. Það hefur verið og verður hluti af tilveru okkar stjórnmálamanna að þurfa að takast á við flókin úrlausnarefni.

En barátta stjórnmálamanna í dag er ólík þeirri frelsisbarátta sem háð var af Jóni Sigurðssyni og hans samstarfsmönnum fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Sjálfstæðisbarátta okkar er fólgin í því að tryggja sjálfstæði og fullveldi með efnahgslegum styrk sem byggi á verðmætasköpun úr auðlindum okkar, hugviti og þekkingu. Sjálfstæðisbarátta okkar er fólgin í samningum við aðrar þjóðir – án þess að afsala okkur frelsinu og sjálfsákvörðunarréttinum til að nýta auðlindir okkar á forsendum okkar, á forsendum Íslendinga sem eyþjóðar .

En eitt mikilvægasta viðfangsefni allrar þjóðarinnar í byrjun nýrrar aldar er að varðveita íslenska tungu. Íslensk tunga á mjög undir högg að sækja í alþjóða- og Netvæðingu samtíðar okkar þar sem enskan ræður ríkjum og sækir stöðugt á.

Ísland er vissulega smáþjóð á mælikvarða fólksfjöldans. En við höfum verið að styrkja stöðu okkur með öflugri þátttöku og samstarfi á vettvangi þjóðanna og kostum miklu til í þágu sjálfstæðis.

En mest og best styrkjumst við útávið og innávið með stöðugu og traustu stjórnarfari í landinu. Í upphafi nýrrar aldar getum við horft fram á veginn, til nýrrar aldar með reisn, í anda frelsis og hugsjóna Jóns Sigurðssonar.

Snæfellingurinn Steingrímur Thorsteinsson, sem hefur verið nefndur hirðskáld Jóns Sigurðssonar, segir í kvæðinu Vorkvöt sem er óður til sjálfstæðisbaráttunnar:

Þú, vorgyðja, svífur úr suðrænum geim.
Á sólgeisla vængjunum breiðum.
Til Íslands fannþökktu fjallanna heim.
Að fossum og dimmbláum heiðum.
Ég sé, hvar á skýjum þú brunar á braut.
Ó, ber þú mitt ljóð heim í ættjarðar skaut.

En bót er oss heitið, ef bilar ei dáð.
Af beisku hið sæta má spretta.
Af skaða vér nemum hin nýtustu ráð.
Oss neyðin skal kenna það rétta.
Og jafnvel úr hlekkjunum sjóða má sverð
í sanleiks og frelsisins þjónustugerð.

Ágætu Dalamenn.

Við Íslendingar höfum hrist af okkur hlekki erlendra yfirráða. Við njótum raunverulegs sjálfstæðis og ráðum auðlindum okkar til lands og sjávar. Langvinnri baráttu fyrir yfirráðum fiskimiðanna megum við ekki, og getum ekki fórnað fyrir óvisst skjól innan Evrópusambandsins. Við skulum smíða okkur sverð til sóknar og varnar í nafni frelsis og sjálfstæðis Íslendinga um ókomna tíð, í þágu íslenskrar hagsmuna.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar þjóðhátíðar og góðra sumardaga.