Hátíðarsamkoma var haldin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga sunnudaginn 8. júní  vegna Green Globe  vottunar Snæfellsness. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis,  flutti við það tækfæri ræðu sem má lesa með því að smella á meira.

Forseti Íslands, sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi, aðrir góðir gestir og heimamenn.

Til hamingju með daginn. Ég þakka þann heiður að fá að ávarpa ykkur við þetta einstaka tilefni.

Ekkert land verður numið og nýtt til búsetu  án þess að það beri þess  einhver merki.
Tilfinning okkar Íslendinga fyrir landinu fyrir náttúrunni og raunar öllu okkar umhverfi hefur sem betur fer þroskast mikið samhliða stór auknu álagi af veru mannsins á þessu fallega landi okkar. Með löggjöf eru okkur settar skorður og kröfur einstaklinga um góða umgengni  og bætt umhverfi hafa vaxið.  
Árangurinn blasir við þar sem bláfáninn og grænfáninn hafa verið dregnir að húni við stofnanir sveitarfélaganna á Snæfellsnesi. Það er vissulega tákn um árangur.

Við sem höfum fæðst  og  vaxin upp hér á Snæfellsnesi líkt og burkninn í Búðahrauni og höfum nærst í frjósömu mannlífi undir Jökli, við Kirkjufellið og í námunda við Helgafell og Hafursfell þekkjum betur en margir aðrir hversu mikilvægt það er að verja náttúruna. Búa svo um hnútana að við getum gengið í takt við landið og lífríki hafsins varið  strendur landsins og ekki síst í hinum gjöfula Breiðafirði. Hvert sem litið er á Snæfellsnesi eru perlur í náttúrunni.

Það var mér því mikil hvatning þegar mér var falið að leiða vel skipaðan undirbúningshóp sem lagði grundvöllinn að stofnun þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Það má með sanni segja að þjóðgarðurinn og áhugi íbúanna á umhverfismálum  sé  megin forsendan fyrir því verkefni  að sveitarfélögin öll á Snæfellsnesi hljóti Green Globe vottun. Þjóðgarðurinn, friðlöndin hér á Nesinu og löggjöfin  um vernd Breiðafjarðar voru tímamóta verk og bera þess merki að á Alþingi er lögð áhersla á að tryggja með lögum stór aukna náttúruvernd.

Ferðaþjónustan á mikið undir því að náttúruverndin sé í heiðri höfð. Snæfellingar hafa lagt ríka áherslu á náttúrutengda og sögutengda ferðaþjónustu. Það er trúlega ekki síst ástæðan fyrir því hversu ferðaþjónustan hefur dafnað hér um slóðir í góðri sátt við aðrar atvinnugreinar sem leggja aukna áherslu á vottun sinnar framleiðslu á forsendum sjálfbærni.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að rifja upp kynni mín af upphafi á verkefnisins Green Globe vottun Snæfellsness.

Ég hafði ekki setið lengi í samgönguráðuneytinu, ráðuneyti ferðamála, árið 1999 þegar ég fékk heimsókn frá þeim hjónum Guðlaugi  og Guðrúnu Bergmann á Hellnum sem ráku ferðaþjónustu og sinntu ýmsu er varðaði mannrækt og  umhverfismál. Erindi þeirra í ráðuneytið  var að halda fyrirlestur yfir mér og ráðuneytisstjóranum um ferðaþjónustu og umhverfisvernd.

Ég átti von á því að sú heimsókn gæti dregist á langinn og var fundartíminn ákveðinn utan venjubundins viðtalstíma. Fyrirlestur þeirra Guðrúnar og Guðlaugs var bæði andríkur og sannfærandi. Hann fjallaði um ferðaþjónustu, umhverfismál í þess víðasta skilningi og umhverfisvottun sem var nýtt viðfangsefni.

Og heimsóknir þeirra í ráðuneytið áttu eftir að verða fleiri næstu misserin .
Upp úr þeim samtölum varð til ákvörðun í ráðuneytinu. Hún snérist  um að stofna vinnuhópa sem unnu stefnumörkun á nýjum forsendum. Þessi stefnumörkun   og verkefnaáætlun sem fylgdi henni fjallaði   um heilsutengdaferðaþjónustu, um menningartengdaferðaþjónustu og skýrsluna Auðlindin Ísland. Í henni var landið  kortlagt og lagður grunnur að  markaðsetningu  helstu þjónustustöðva og náttúruperla  landsins sem draga til sín ferðamenn sem ættu að geta  nýtt og notið  náttúru okkar á sjálfbærum forsendum. Áherslan í umhverfismálum á vegum Ferðamálastofu var stór aukin með auknum framlögum til úrbóta á fjölförnum ferðamannastöðum.

Það varð raunveruleg stefnubreyting. Næstu árin á eftir og allt fram á síðasta ár fjölgaði erlendum ferðamönnum um 5-13% á ári og flestir komu til þess að skoða náttúruna og kynnast menningu og sögu okkar.  . Í þessu umhverfi samþykkti síðan Alþingi ferðamálaáætlun sem er í gildi fram til ársins 2015 og leggur mikla áherslu á gæði og umhverfismál.
Markaðssetning landsins hafði tekist betur en nokkru sinni fyrr. Og í  þeim anda sem  mótaðist hér á Snæfellsnesi með áherslu á menningartengda ferðaþjónustu  og umhverfismál.
Í þeim anda  var   gerður samningur árið 2003 milli sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og samgönguráðuneytisins um að ráðuneytið legði  til 8.5 milljón króna  á því ári til þess verkefnis sem við fögnum í dag. Samkvæmt þeim samningi áttu auk þess  Ferðamálastofa og Vegagerðin að leggja sitt að mörkum til viðbótar í þágu Green Globe verkefnisins.

Þetta vil ég rifja hér upp vegna þess að hlutur frumkvöðlanna vill stundum gleymast.

Green Globe vottun Snæfellsness með öllum þeim jákvæðu hlutum sem því fylgir hefði ekki orðið að veruleika nema fyrir framsýni og  eldmóð þeirra Guðrúnar og Guðlaugs Bergmann. Aðrir sem að þessu hafa komið eru auðvitað mikilvægir þátttakendur í þessum einstaka veruleika að íbúar allra sveitarfélanna á Snæfellsnesi taka  höndum saman við  að tryggja hér búsetu í sátt við landið. Gera byggðir Snæfellsness að öllu leyti aðlaðandi til búsetu, til hvers konar atvinnustarfsemi og auðlindanýtingar og sem áfangastað ferðamanna í vottuðu umhverfi .

Sveitarstjórnirnar á Snæfellsnesihafa sýnt mikla framsýni, dirfsku og stefnufestu við að tryggja framgang þessa verkefnis. Er rík  ástæða til þess að óska þeim til hamingju og hvetja aðra landshluta til dáða í sama anda.

Það er síðan deginum ljósara að Alþingi Íslendinga verður að leggja sitt að mörkum með skinsamlegri löggjöf  í skipulags–og umhverfismálum og eðlilegum stuðningi við þetta verkefni sem og önnur sem munu bætast við ef að líkum lætur.

Að lokum vil ég, um leið og ég óska umhverfisráðherra til hamingju með opnun Vatnajökulsþjóðgarðs,  nota tækifærið og minna á nauðsyn þess að   ljúka  þeim  framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í þjóðgarðinum  okkar á Snæfellsnesi . Við Snæfellingar munum ekki sætta okkur við að nær allir fjármunir þjóðgarða gangi til þess landshluta þar sem mest hefur verið fjárfest   að undanförnu  á sviði atvinnumála og uppbyggingu innviða. Sú ábyrgð hvílir á stjórnvöldum að forgangsraða í samræmi við þau áform að efla umverfisvernd í þágu gróandi þjóðlífs.

Fjárfestingar ríkisins innan marka vottunarsvæðisins á Snæfellsnesi getur orðið  ein mikilvægasta mótvægisaðgerðin vegna gífulegs samdráttar í sjávarútvegi á meðan unnið verður að því að efla atvinnulífið að nýju á  traustum  forsendum í þágu  þess unga fólks sem er að alast upp og er menntað í þessum glæsilegu sölum Fjölbrautaskóla Snæfellinga og vill væntanlega snúa heim að frekara námi loknu.

Að svo mæltu óska ég forsvarmönnum verkefnisins alls hins besta og minni á það sem Nóbelsskáldið okkar segir í Alþýðubókinni. ,, Í hverju úngu íslensku brjósti ríkir yndislegur grunur þess að mikið sé í vændum“. 

Við skulum trúa því að mikið sé í vændum á Snæfellsnesi  að liðnum þessum degi.