Samgönguráðherra gerði nýverið grein fyrir á Alþingi hvað áunnist hefur varðandi flutning starfa út á land á vegum ráðuneytisins og stofnana þess undanfarin misseri.
Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á þinginu sem var svohljóðandi:

,,Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, vöru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu. stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.”

Svar:

Samgönguráðherra setti fram í bréfi, dags. 26.september 1999, til undirstofnana og fyrirtækja er undir ráðuneytið heyra, þá skýru stefnu að leita skyldi leiða til að flytja störf út á landsbyggðina. Í bréfinu sagði m.a.:

“Eins og kunnugt er þá hefur búsetuþróunin í landinu verið landsbyggðinni mjög óhagstæð hin síðari ár. Ástæður þeirrar þróunar eru margvíslegar. Talið er að fjölgun atvinnutækifæra á vegum opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu eigi sinn þátt í þessari óæskilegu þróun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að með markvissum ráðstöfunum muni ríkisstjórnin beita sér fyrir því að undirstöður byggðar í landinu verði treystar. Liður í þeirri viðleytni er að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum og staðsetja stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem unnt er.

Með vísan til þessa, er hér með óskað eftir því við stofnanir ráðuneytisins að áður en nýtt starfsfólk er ráðið til starfa í ný verkefni eða starfsmenn færðir milli verkefna, verði kannað hvort unnt sé að vinna viðkomandi verk utan höfuðborgarsvæðisins, og þá helst á þeim svæðum þar sem atvinnulíf er einhæft.”

Brugðist hefur verið við þessu bréfi með ýmsum hætti. Helst ber að nefna:

Vegagerðin
Vegagerðin flutti skiptiborð og hluta af upplýsingaþjónustu við vegfarendur, alls fjögur stöðugildi, til Ísafjarðar árið 2001. Þar er nú aðal símsvörun Vegagerðarinnar og svarað í símanúmerið 1777 og veittar upplýsingar um færð og veður.

Ráðinn var tæknifræðingur í eitt starf á Sauðárkróki til undirbúnings og eftirlits með vegamálun og gagnagrunnsvinnu. Á Akureyri var ráðið í þrjú störf, sem öllum hafði áður verið sinnt að hluta til í Reykjavík, en um er að ræða háskólamenntaðan sérfræðing í starf er varðar jarðfræði, tæknifræðing í umferðarannsóknir og starfsmann til að sinna slitlagsmælingum.

Að ósk samgönguráðherra hefur Vegagerðin gert áætlun um eflingu starfsemi sinnar á landsbyggðinni. Er þar bæði um að ræða flutning verkefna frá Reykjavík út á land og staðsetningu nýrra starfa á landsbyggðinni. Vegagerðin lítur á þetta sem þróunarverkefni, sem standa muni yfir í allmörg ár. Þau störf sem um er að ræða, eru á sviði upplýsingaþjónustu, eftirlits af ýmsu tagi, gagnasöfnunar, gagnavinnslu, símsvörunar, umferðar- og umferðaröryggis og veghönnunar. Sum þessara starfa kerfjast tæknimenntunar en önnur byggja á almennri menntun. Umdæmisskrifstofur Vegagerðarinnar eru á Selfossi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Reyðarfirði og á þessum stöðum er þungi starfseminnar í hverju umdæmi. Miðað er við að hin nýju störf verði til á ofangreindum stöðum og þá einkum á þeim stöðum, sem fjær liggja höfuðborginni.

Vegagerðin kaupir mikið af þjónustu af einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Reynt verður að beina þessum kaupum frekar en verið hefur til aðila á landsbyggðinni. Jafnframt því, sem stefnan er ákveðin fyrir næstu ár, verður farið í athuganir og undirbúning að frekar eflingu starfsemi Vegagerðarinnar á landsbyggðinni.

Á árinu 2002 stefnir Vegagerðin að því að flytja fjögur til sex ný störf frá Reykjavík til landsbyggðarinnar.
Flugmálastjórn
Á árinu 2001 var undirritaður samningur milli Flugmálastjórnar og Akureyrarbæjar varðandi slökkvi- og björgunarþjónustu á Akureyrarflugvelli.

Samningurinn felur í sér að Slökkvilið Akureyrar tekur að sér að annast slökkvi- og björgunarstörf og verkefni sem lúta að öryggismálum á Akureyrarflugvelli, sem Slökkvilið Akureyrarflugvallar á vegum Flugmálastjórnar hefur sinnt til þessa. Að auki mun Slökkvilið Akureyrar taka að sér faglega umsjón og þjálfun með slökkvi- og brunavarnarmálum á landsbyggðarflugvöllum Flugmálastjórnar, þ.e. öllum völlum öðrum en í Reykjavík og Keflavík. Þessi þjálfun hefur fram að þessu farið fram í Reykjavík en um er að ræða eitt stöðugildi. Með tilkomu samningsins fjölgar stöðugildum á Akureyri úr fjórum í sjö og hálft vegna aukinnar og bættrar þjónustu á Akureyrarflugvelli.

Með þessum samningi hefur Flugmálastjórn haldið áfram á þeirri braut að fela sveitarfélögum rekstur flugvallarslökkviliða. Stofnunin hefur gert sams konar samning við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. um slökkvi- og björgunarþjónustu á Reykjajvíkurflugvelli.

Á árinu 2001 var ráðið í nýja stöðu flugvallarvarðar á Egilsstaðaflugvelli vegna aukins viðbúnaðar. Heimild hefur fengist fyrir nýjum stöðum á flugvöllunum á Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum en ekki hefur verið ráðið í þær stöður. Flugmálastjóra hefur verið falið að undirbúa frekari samninga á þessu sviði.

Á vegum Flugmálastjórnar er í auknum mæli keypt hönnunarvinna utan höfuðborgarsvæðisins, svo og ýmiskonar viðhaldsþjónusta.
Rannsóknarnefnd sjóslysa
Rannsóknarnefnd sjóslysa var flutt frá Reykjavík til Stykkishólms í lok árs 2001 og hefur aðsetur í flugstöðinni á Stykkishólmsflugvelli. Hjá nefndinni starfa framkvæmdastjóri auk annars starfsmanns.
Landssími Íslands hf.
Svarað er í upplýsingasíma Landssímans 118, á fjórum stöðum á landinu, þ.e. í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Á síðasta ári flutti Landssíminn 11 störf út á land, öll vegna uppbyggingar á þjónustusíma 118 á Egilsstöðum.
Íslandspóstur hf.
Íslandspóstur hefur á árinu 2001 flutt eftirfarandi störf út á land:
Fjögur störf til Akureyrar vegna flutnings þjónustuvers fyrirtækisins fyrir einstaklinga.
Rekstrarvörulager hefur verið fluttur til Blönduóss en þar er um tvö störf að ræða.
Pökkun frímerkja til frímerkjasafnara hefur verið flutt út á land og viðheldur það tveimur störfum á landsbyggðinni, en ákveðið er með tilliti til verkefnastöðu hvar pökkunin er framkvæmd hverju sinni.
Þá er rétt að geta þess að árið 2000 var aðalskiptiborð Íslandspósts flutt til Akureyrar, sem fól í sér flutning á tveimur störfum, pökkun fyrsta dags umslaga, sem er eitt starf, var flutt til Ísafjarðar og tvö störf við afgreiðslu og vörslu frímerkjalagers fyrirtækisins voru flutt til Borgarness.
Þjónustuver í Snæfellsbæ
Samgönguráðuneytið, Vegagerðin, Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands og Snæfellsbær gerðu með sér samning árið 2001 um rekstur þjónustuvers samgöngumála í Snæfellsbæ fyrir Snæfellsbæ og Snæfellsnes. Tilgangur samstarfs þessa er að þróa starfsaðferðir til að bæta þjónustu samningsaðila á svæðinu, samnýta tækjakost og starfskrafta eins og unnt er og tryggja öryggi þjónustunnar. Staðsetning þjónustunnar verður í húsnæði Vegagerðarinnar í Ólafsvík.

Ákveðið hefur verið að ráðinn verði forstöðumaður fyrir þjónustuverið, sem hafi yfirumsjón með starfseminni, sé ábyrgur fyrir að framfylgja því þjónustustigi sem skilgreint verður, stjórni starfsmönnum samningsaðila og beri fjárhagslega ábyrgð gagnvart samningsaðilum. Samningsaðilar eru sammála um að verkefni þetta sé tilrauna- og þróunarverkefni, þar sem taka getur þurft ákvarðanir um breytingar með stuttum fyrirvara. Við þessa breytingu verður til eitt nýtt starf. Jafnframt er til skoðunar að opna samskonar þjónustuver á fleiri stöðum á landsbyggðinni.