Fyrsta heildstæða löggjöfin um rannsóknarnefnd umferðarslysa tekur gildi 1. september næstkomandi og hefur samgönguráðherra skipað Ágúst Mogensen í embætti forstöðumanns frá sama tíma.

Samkvæmt lögunum er markmiðið með störfum rannsóknarnefndarinnar að leiða í ljós orsakir umferðarslysa og koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og stuðla með því að auknu öryggi í umferðinni hér á landi.
 
Rannsóknir umferðarslysa ná bæði til rannsókna einstakra slysa svo og til flokka umferðarslysa eða slysa sem teljast af sama tagi. Með flokki umferðarslysa er átt við afmarkaðar tegundir slysa, sem hafa tiltekin einkenni, svo sem banaslys. En með slysum af sama tagi er hins vegarátt við öll slys sem verða til dæmis á tilteknum gatnamótum eða tiltekinni tegund gatnamóta á ákveðnu tímabili.
 
Lögin kveða á um að RNU gefi út heildarskýrslu um störf sín ár hvert, þar sem meðal annars skal vera yfirlit yfir helstu störf nefndarinnar á yfirstandandi starfsári, tölfræðilegar samantektir auk almennra tillagna um öryggisúrbætur á sviði umferðarmála. Nefndin skal skipuð þremur mönnum, auk sérstaks forstöðumanns, sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn.

Samgönguráðherra afhendir Ágústi Mogensen skipunarbréfið

Ágúst Mogensen er skipaður í stöðuna frá 1. september 2005 til 31. ágúst 2010. Ágúst hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar umferðarslysa undanfarin fimm ár og hefur því víðtæka reynslu sem nýtist í starfi forstöðumanns.

Ágúst hefur lokið MSc. prófi í afbrotafræði frá Lougborought University í Englandi og er nú að leggja lokahönd á doktorsverkefni sem fjallar um ölvunarakstur á Íslandi.

Sem framkvæmdastjóri nefndarinnar hefur hann annast daglegan rekstur, fjármál, útgáfustarfsemi, vefsíðu og kynningastarf. Auk þess hefur hann kennt rannsóknir umferðarslysa í Lögregluskóla ríkisins.

Sjá heimasíðu nefndarinnar http://www.rnu.is