Heimasíðan sturla.is hefur verið á vefnum frá árinu 1999. Eftir að ég tók við ráðuneyti samgöngumála hef ég nýtt heimasíðuna til þess að koma á framfæri helstu verkefnum sem ég hef unnið að og kynnt skoðanir mínar á málefnum líðandi stundar.
Auk þess hef ég birt á síðunni þær ræður mínar sem ég hef skrifað og flutt við ýmis tækifæri. Aðsókn að heimasíðunni hefur verið hvatning til þess að endurnýja hana og hefur hún nú fengið nýtt útlit og nokkrar endurbætur verið gerðar á henni. Ekki eru sérstök áform um að auka efnið sem fer inn á síðuna en ég vona samt að nægur tími gefist til skrifta og hið pólitíska umhverfi gefi tilefni til þess að fjölga pistlum og umfjöllun um einstök málefni enda þótt þau tengist ekki beint verkefnum mínum í ráðuneytinu. Vil ég þakka þeim ágætu starfsmönnum Nepal í Borgarnesi og Jónsson & Le´macs, sem annast viðhald og endurbætur á síðunni. Verk þeirra eru með miklum ágætum.
Breytingar á ríkisstjórninni
Fimmtánda september hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Það eru vissulega mikil tíðindi þegar nýr forsætisráðherra tekur við. Davíð Oddson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið um stjórnartaumana í forsætisráðuneytinu af mikilli festu og öryggi. Hann hefur setið sem forsætisráðherra í lengri tíma en nokkur annar hefur gert hér á landi og þó víðar væri leitað. Við þessi tímamót vil ég þakka honum mjög gott og traust samstarf um leið og ég óska honum góðs bata, eftir erfið veikindi, og góðra daga í utanríkisráðuneytinu. Halldór Ásgrímsson er mjög reyndur stjórnmálamaður sem ég hef átt gott samstarf við og óska ég honum velfarnaðar í mikilvægu embætti. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur tekið við umhverfisráðuneytinu. Sigríður Anna er samstarfsmaður minn til margra ára og fagna ég því sérstaklega að hún skuli taka sæti í ríkisstjórninni. Sigríður Anna er þekkt fyrir að hafa traust tök á öllum þeim verkefnum sem hún tekur að sér. Óska ég henni velfarnaðar í vandasömu starfi. Siv Friðleifsdóttir hverfur nú af vettvangi ríkisstjórnar eftir farsælan feril sem umhverfisráðherra. Ég hef átt mjög gott samstarf við hana í ríkisstjórn og sem þingmann og þakka henni frábært samstarf. Nú mun hún taka til hendi sem þingmaður og er ekki að efa að á Alþingi munu bíða hennar mikilvæg verkefni í hópi stjórnarþingmanna.
Sala Símans er á dagskrá
Einhverjir fjölmiðlamenn og stjórnarandstæðingar hafa gert tilraunir til þess að búa til ágreining innan stjórnarflokkanna um sölu Símans. Látið er að því liggja að framsóknarmenn leggi áherslu á að efla dreifikerfi Símans til hagsbóta fyrir hinar dreifðu byggðir. Ég efast ekki um það að þingmenn og ráðherrar Framsóknaflokksins hafa ríkan vilja til þess að tryggja sem best uppbyggingu grunnkerfis fjarskipta í landinu. En þeir eru ekki einir um það. Í viðtali við morgunútvarp RÚV gerði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra grein fyrir því að ég hafi lagt fram minnisblað í ríkisstjórninni um mikilvæg áhersluatriði sem vinna þurfi að fyrir sölu Símans. Til fróðleiks fyrir lesendur heimasíðunnar vil ég hér gera lauslega grein fyrir efni þessa minnisblaðs. Af því má sjá að ég hef lagt ríka áherslu á að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða landsins hvað varðar fjarskiptin. Viðræður hafa farið fram milli fulltrúa Símans og ráðuneytisins og er að því stefnt að niðurstaða náist sem fyrst og Framkvæmdanefnd um einkavæðingu geti fengið þær niðurstöður til meðferðar áður en gengið verður endanlega frá söluforsendum vegna sölu áhlutabréfum ríkisins í Símanum.
Í minnisblaðinu segir m.a.:
Landssíminn hefur fram til þessa gegnt lykilhlutverki í fjarskiptaþjónustu við landsmenn alla og hefur til skamms tíma framkvæmt stefnu stjórnvalda í fjarskiptamálum. Þar sem áformað er að selja hlutabréf ríkisins í Landssímanum á næsta ári er ástæða til þess að fara yfir þau málefni fyrirtækisins er varða stefnu stjórnvalda á þessu sviði.
Lögð er áhersla á að ráðist verði í eftirfarandi verkefni við þessi tímamót:
1. Að samningurinn, sem gerður var 16. mars 2001 milli Landssímans og samgönguráðuneytisins um jöfnun gagnaflutningskostnaðar yfir ATM net fyrirtækisins, verði endurnýjaður.
2. Flug- og skipafjarskiptaþjónustan í Gufunesi verði aðskilin frá rekstri Landssímans og færð til ríkisins. (þessum hluta er lokið með því að Flugmálastjórn hefur tekið við eignum og rekstri fjarskiptamiðstöðvarinnar í Gufunesi, sem sinnir fjarskiptum við siglingar og flug).
3. Samningur milli utanríkiráðuneytisins, samgönguráðuneytisins og Landssímans hf. um NATO strengina gildi áfram óbreyttur. Samkvæmt honum tekur Landssíminn hf. að sér að reka og viðhalda þremur ljósleiðaraþráðum í eigu íslenska ríkisins sem eru eingöngu notaðir af NATO. Samningurinn gildir svo lengi sem ljósleiðarinn er nýttur eða meðan varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 er í gildi.
4. Rekstur NMT kerfisins verði tryggður áfram með núverandi útbreiðslu. Samkvæmt leyfisbréfinu má segja því upp með 2ja ára uppsagnarfresti frá 1. janúar 2004. Stjórnvöld geta krafist þess að samningurinn verði framlengdur um 2 ár til viðbótar. Samningurinn verði endurskoðaður með það fyrir augum að framlengja núverandi uppsagnarfrest og tryggja betur rekstur kerfisins til framtíðar.
5. Uppbyggingu breiðbandsins verði fram haldið og landsmönnum boðið a.m.k. 2Mb/s samband óháð búsetu.
6. Gerður verði samningur um áframhaldandi uppbyggingar GSM kerfisins í dreifbýli og á fjölförnum ferðamannastöðum.
- 7. Athugað verði hvort breyta þurfi fjarskiptalögum.
Lagt er til að samgönguráðherra taki upp viðræður við stjórn Landssímans um framangreind atriði að höfðu samráði við Framkvæmdanefnd um einkavæðingu.
Efni þessa minnisblaðs var, eins og að framan er getið, lagt fyrir ríkisstjórnina og hefur verið unnið í samræmi við þá stefnumörkun sem það felur í sér.
Fjarskiptaáætlun undirbúin
Jafnframt viðræðum við fulltrúa Símans um bætt og ódýr fjarskipti er á vegum samgönguráðuneytisins og undir formennsku forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar unnið að gerð Fjarskiptaáætlunar. Í þeirri áætlun verði mörkuð stefna stjórnvalda á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Með þeirri vinnu er stefnt að þeim skýru markmiðum að á Íslandi verði aðstæður á borð við það besta í veröldinni á sviði upplýsingatækni og fjarskipta. Við þær aðstæður eigum við að geta nýtt fjarskiptin og upplýsingatæknina í þágu menntastofnana, atvinnulífsins og öflugrar byggðaþróunar til hagsældar fyrir þjóðina. Það er og hefur verið stefna mín sem samgönguráðherra að fjarskiptin ættu að vera ódýr, örugg og aðgengileg. Þeirri stefnu verður fylgt fast eftir í fjarskiptaáætlun.