Um þessar mundir er ég heimavinnandi.

Við „skrifborðið“ heima

Ástæðan er sú að langvarandi bakverkir leiddu til þess að ekki varð undan því vikist, að mati læknis, að ég gengist undir aðgerð vegna brjóskloss og fleiri veikleika í baki. Ég hef því orðið að draga mig í hlé um stundar sakir og gæta þess að bakinu verði ekki ofgert svo sem ég virðist hafa gert of lengi. Framundan er sem sagt að taka lífinu með ró og hefja síðan skipulega þjálfun eftir að hafa tapað mætti í vinstri fæti. Fyrst um sinn get ég ekki setið. Verð því á stöðugum gönguferðum innan húss og utan auk þess að viðhafa einhverjar þær fettur og brettur sem eiga að styrkja bakið og vinstri fótinn sem er fremur dapur til átaka. Tölvuborðið hefur því verið hækkað svo ég geti staðið við það og skrifað og verið í sambandi við ráðuneytið um netið og símann sem fylgir mér sem skuggi. Rúmið er þvi minn griðarstaður og skjól um þessar mundir. En ég les meira en oft áður af skemmtilegu efni. Þessa stundina er ég að glíma við bækur um Jón Arason Hólabiskup svo sem Öxina og jörðina og ævisögu Jóns Arasonar eftir Þórhall Guttormsson, en þar á undan las ég bók Lýðs Björnssonar um Skúla fógeta. Ég sé að ég á enn nokkuð ólesið af þeim hluta bóka heimilisins sem eru staðsettar í hillum hér syðra.

Sjúkrasögur eru að jafnaði ekki skemmtiefni til lestrar. Til fróðleiks vil ég samt rifja upp viðureign mína við bakverkina. Bakvandamál mín get ég rakið nokkuð mörg ár aftur í tímann. Fyrstu alvarlegu einkenni brjóskloss komu fram sumarið 1978.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar það vor fór ég í fríi með fjölskylduna til Frakklands. Það var eftir mín fyrstu fjögur ár á stóli bæjarstjóra í Stykkishólmi og bætti D-listinn við sig manni eftir frækilegt kjörtímabil. Fengum fimm af sjö fulltrúum.
Í Frakklandi fór ég í reiðhjólaferð með krökkunum mínum, Gunnari og Elínborgu, sem hafði þær afleiðingar að ég lá í rúminu það sem eftir var þriggja vikna dvalar í því gósen landi Frakklandi. Franskur læknir úrskurðaði mig með brjósklos. Hann gaf mér þau ráð að liggja á hörðu fleti uns brjóskið gengi til baka.

Þegar heim var komið var sett upp æfingaprógramm fyrir mig af héraðlækninum Pálma Frímannssyni og var þannig haldið aftur af krankleikanum um tíma. Var ég bestur þegar ég gat riðið sem mest út á gæðingum sem ég átti. Var það ekki amarleg afsökun fyrir tíðum hestaferðum og útreiðum. Járningar og skít mokstur áttu hinsvegar ver við bakið svo ekki væri talað um langar bílferðir og fundasetu. Þessa reynslu þekkja margir.

Í einni hestaferðinni kom brjósklosið samt aftur og af meira afli en áður. Þá uppákomu má raunar flokka undir slys. Það atvikaðist þannig að ég var einn á ferð að hausti til á leið suður yfir Kerlingaskarð frá Stykkishólmi þeirra erinda að skila hesti að Hjarðarfelli sem ég hafði verið með í láni frá tengdaföður mínum. Ég var vel ríðandi með þrjá til reiðar. Tvo af mínum bestu hestum teymdi ég en reið gæðingi af Kolkuósskyni sem tengdafaðir minn átti. Jarpur var undan Herði frá Kolkuósi. Ég reið troðninga og gamlar götur í fögru veðri með útsýnið yfir Breiðafjörðinnn eins og það getur best orðið. Þegar ég nálgaðist Kerlingarfjallið kom ég að læk þar sem voru nokkuð háir bakkar. Skipti það engum togum að gæðungurinn jarpi, sem bjó yfir óþægilega mikilli skaphörku sem erfitt var að hemja, stökk yfir lækinn án þess að hika. Mínir hestar tveir sem ég teymdi stóðu sem fastast á bakkanum. Knapinn hrökk aftur af reiðhestinum, gjörð og reiði brustu og ég sat í hnakknum á lækjarbakkanum og horfði á eftir þeim jarpa á stökki upp brekkurnar í átt til fjalla. Mér varð fljótlega ljóst þar sem ég lá á lækjarbakkanum og horfði til himins að þessi hnykkur hafði komið illilega við hryggsúluna í mér. Eftir að hafa hnoðað saman gjörðinni við illan leik, lagt á annan hesta minna, staulast á bak og náð Harðarsyninum aftur, reið ég til baka. Sú fimmtán kílómetra ferð heim í Hólm var ekki sérstök skemmtiferð. Hef stundum hugsað til þess að gaman hefði verið að eiga þennan reiðtúr á myndbandi.

Eftir þessa ferð lá leiðin á læknastofur, í ótal æfingatíma hjá sjúkraþjálfurum, uns bæklunarlæknir á Landsspítalanum taldi best að skera burt brjósklos sem hann staðsetti eftir myndatöku. Ekki tókst betur til en svo að áður en hann taldi sig hafa fundið hið rétta brjósklos hafði hann skorið og brotist inn á milli hryggjaliða á þremur stöðum með tilheyrandi verkfærum og vandræðum síðar meir. Eftir nærri þriggja vikna legu á Landspítlanum veturinn 1982 var ég sendur á sjúkrabörum með flugi heim í Hólm eins og hver annar póstpoki. Þar hélt ég áfram að liggja í rúminu, að læknisráði, uns fór að vora. Í byrjun maí mánaðar ákvað ég að rífa mig upp og fara til vinnu á skrifstofu bæjarins enda kosningar framundan og margt að starfa á þeim vettvangi. Auk þess stóðum við hjónin í þeim stórræðum að byggja nýtt hús. Var fjölskyldan að keppast við að flytja í nýja húsið fyrir Hvítasunnu en þá átti að ferma núverandi sóknarprest í Grundarfirði, sem gekk til spurninga og undirbjó sig vel fyrir ferminguna og þótti ílla horfa með föðurinn í rúminu, sem átti að mála herbergið hennar í nýja fína húsinu. Það var því í mörg hornin að líta. Allt gekk upp. D-listinn vann kosningarnar eins og vant var, við fluttum inn í fullbúið húsið og unglingurinn var tekinn í fullorðinna manna tölu við fermingu á hátíðlegri stundu í gömlu kirkjunni í Stykkishólmi þar sem hún síðan messaði á dönskum dögum s.l. sumar.

Allar götur síðan hefur bakið mitt verið til vandræða. Að vísu hefur það verið í óstandi með hléum eftir að Jósef Blöndal, sjúkrahússlæknir í Stykkishólmi, tók mig taki á St.Franciskusspítlanum og kenndi mér æfingar sem héldu mér gangandi þar til í vetur og á þessu vori þar til þær dugðu ekki lengur. Nú er bara að vona að betur hafi tekist til en á Landspítalanum í febrúar 1982. Og að mér takist að ganga út í sumarið og styrkja þá vöðva sem hafa slappast við allt þetta at. Það bendir allt til þess, enda naut ég þess að eiga í þetta skipti aðgang að frábærum taugaskurðlækni sem fylgist með framvindu mála og leggur mér línur um framhaldið.

Ég stefni að því að komast heim í Hólm um aðra helgi. Þar ætla ég mér að ganga um holt og hæðir, eftir því sem kraftar leyfa, og styrkja mig og njóta náttúrunnar og nálægðar við vini og góða nágranna.

Á meðan vinnur mitt góða samstarfsfólk í ráðuneytinu við fjölmörg verkefni sem eru á verkefna áætlun minni fyrir seinni hluta kjörtímabilsins og við að koma í framkvæmd þeim fjölmörgu málum sem voru afgreidd í vetur sem lög og þingsályktunartillögur frá Alþingi. Þar var um að ræða hvert tímamótamálið af öðru. Samgönguáætlun, Fjarskiptaáætlun og ný fjarskiptalög, breytingar á lögum um ferðaþjónustu, stefnumörkun í ferðamálum í formi þingsályktunartillögu, lög um úthlutun leyfa vegna þriðju kynslóðar farsíma, lög um loftferðir sem varðar mjög flugöryggi og fyrstu löggjöfina um rannsóknir umferðarslysa. Þessi málafjöldi leiddi til þess að mér voru tryggð flest mínusstig hjá svokallaðri frelsisdeild SUS sem veitir þeim lægsta einkun sem kemur mestu í verk á Alþingi af framfara málum. Ég get vissulega vel við unað með þá mælingu. En um það mætti margt segja og skrifa.

Ég læt þetta duga að sinni og ætla að ganga einn hring um næsta nágrennið hér í Vestubænum.