Samgönguráðherra dvaldi í Kaupmannahöfn dagana 18-21 júlí, þar sem hann fundaði með aðilum í ferðaþjónustu. Með honum í för var Magnús Oddsson ferðamálastjóri.
Í upphafi heimsóknar var fundað með starfsfólki Flugleiða þar sem farið var yfir ástand og horfur í ferðamálum og þar með markaðsmál á Norðurlöndunum, en skrifstofa Flugleiða í Kaupmannahöfn hefur umsjón með öllum Norðurlöndunum. Einnig var framvinda samstarfs í markaðs- og landkynningarverkefnum rædd.

Ráðherra átti fund með stjórnarformanni Brygge sem hefur umsjón með endurbyggingu á Norðurbryggjuhúsi (Den Nordatlantiske Brygge), en í húsinu mun Ferðamálaráð opna skrifstofu í nóvember næst komandi. Ferðamálaráð mun reka þar sjálfstæða skrifstofu hliðstæða þeim sem reknar eru í Frankfurt og New York. Jafnframt mun Ferðamálaráð vera í samstarfi við Færeyinga og Grænlendinga með upplýsingagjöf. Þá átti ráðherra fund með sendiherra Íslands í Danmörku, Þorsteini Pálssyni, þar sem ferðamál voru eitt aðal umræðuefnið.