Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, var í opinberri heimsókn í Georgíu, ásamt þingforsetum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, dagana 24.-25. september sl. Ferðin var hluti af sameiginlegu verkefni þingforseta landanna og var markmið hennar að styðja við lýðræðisþróunina í Georgíu.







Á myndinni eru þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna ásamt Nino Burjanadze forseti þingsins í Georgíu og Ilia II. patríarki georgísku rétttrúnaðarkirkjunnar.

Þingforsetarnir áttu m.a. fundi með Saakashvili, forseta Georgíu, Burjanadze, forseta Georgíuþings, Noghaideli, forsætisráðherra og Ilia II. partíarka georgísku réttrúnaðarkirkjunnar. Einnig átti sendinefndin fundi með öðrum ráðamönnum og fulltrúm stjórnarandstöðu.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem þingforsetarnir gáfu eftir viðræðurnar kemur m.a. fram að gagnkvæm ánægja er með það skref sem stigið hefur verið til að styrkja tengslin við Georgíu. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að þing þessara landa haldi áfram að styðja við lýðræðisþróunina í Georgíu enda er árangur þeirrar þróunar forsenda aukinnar þátttöku landsins í alþjóðlegu samstarfi lýðræðisþjóða.

Þá er í yfirlýsingunni lögð áhersla á mikilvægi þess að ná friðsamlegri lausn á átökum í Suður-Ossetíu og Abkasíu og rétt Georgíustjórnar til að stjórna öllu því landsvæði ríkisins sem viðurkennt hefur verið af alþjóðasamfélaginu sem hluti af Georgíu. Þingforsetar lögðu einnig áherslu á hið mikilvæga hlutverk sem Georgía hlýtur að gegna í þróun Suður-Kákasussvæðisins.

Í viðræðum sínum við ráðmenn í Georgíu lagði sendinefndin áherslu á mikilvægi þess að vel takist til um framkvæmd forseta- og þingkosninga í landinu á næsta ári þar sem slíkt er forsenda fyrir áframhaldandi þátttöku Georgíu í samstarfi lýðræðisþjóða. Vakin er sérstök athygli á framlagi Georgíu til fjölþjóðlegra verkefna, t.a.m. á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, sem hefur verið margþætt og ljóst er að vilji Georgíu stendur til nánara samstarfs á vettvangi NATO og ESB. Í yfirlýsingunni er hins vegar bent á að áframhaldandi endurbætur í efnahag og stjórnsýslu eru forsenda slíks samstarfs. Lýstu þingforsetar yfir stuðningi við þær stjórnmálalegu og efnahagslegu endurbætur sem nú eiga sér stað í landinu.

Þingforsetarnir tóku þátt í tveimur pallborðsumræðum meðan á heimsókninni stóð, en þær umræðurnar sóttu þingmenn og fulltrúar ýmissa félagasamtaka, ásamt fjölmiðlafólki. Í fyrri pallborðsumræðunum var fjallað um mikilvægi þess hlutverk s sem stjórnarnastaða gegnir í lýðræðissamfélagi. Í síðari pallborðsumræðunum var fjallað um ferðaþjónustu og þýðingu hennar í efnahagskerfinu, en Georgía hefur mikla möguleika í þeim efnum.