Það var áhrifamikið að koma til Kosovo 31.mars s.l. og taka þátt í þeim viðburði er rekstur flugvallarins í Pristína var færður frá KFOR, sem er fjölþjóðalið NATO, til UNMIK, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna
Aðstæður í Kosovo eru ólýsanlegar. Samfélagið er nánast í rúst og mikil spenna er á milli Serba og Albana. Ferð mín til Kosovo var gerð til þess að undirrita samning vegna verkefna Flugmálastjórnar Íslands við flugvöllinn í Pristína. Hallgrímur Sigurðsson, flugumferðarstjóri og starfsmaður Flugmálastjórnar, hefur stýrt vinnu við endurreisn flugvallarins. Tók hann á móti okkur og skipulagði fundi mína með Holger Kammerhoff, yfirhershöfðingja NATO (KFOR) í Kosovo, með forsetanum Ibrahim Rugova og Bajram Rexhepi forsætisráðherra. Auk þess áttum við fund með Harri Holkeri, fulltrúa UNMIK stofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem undirritaði samninginn um verkefni íslensku Flugmálastjórnarinnar. Það kom skýrt fram að störf Íslendinganna eru vel metin og vegur íslensku starfamannanna og íslenskra flugmálayfirvalda hefur vaxið mjög með störfum okkar manna. Er ekki að efa að við eigum að geta tekið við verkefnum fyrir alþjóðastofnanir við endurreisn og rekstur flugvalla og flugumsjónar.
Verkefni Flugmálastjórnar
Verkefni Flugmálastjórnar vegna flugvallarins í Pristína felst í meginatriðum í að aðstoða UNMIK við að taka við flugvellinum úr hendi KFOR og breyta honum í borgaralegan flugvöll. Sem herflugvöllur hefur hann í raun ekki þurft að uppfylla þær kröfur sem ICAO gerir til slíkra flugvalla þótt flugfélögin, sem þangað hafa flogið, hafi vafalaust þurft að fullvissa flugmálayfirvöld (og tryggingarfélög) í sínu heimalandi um að flug þangað væri innan öryggismarka.
Verkefni Flugmálastjórnar er þríþætt, það er að:
- 1. Tryggja að flugvöllurinn uppfylli staðla og reglur ICAO eins og þær eru settar fram í viðeigandi viðaukum í náinni samvinnu við flugeftirlitsskrifstofu UNMIK, sem nefnist CARO og er stjórnað af Grétari Óskarssyni.
- 2. Gefa út skírteini til flugumferðarstjóra, sem hafa verið þjálfaðir á okkar vegum á sl. ári og eru í frekari þjálfun.
- 3. Aðstoða við að veita tiltekna þjónustu á sviði flugupplýsinga- og veðurþjónustu.
UNMIK var frá upphafi gert grein fyrir því að ekki væri um að ræða að votta flugvöllinn, a.m.k. ekki á þessu stigi. FMS mundi hins vegar gera úttektir til að ganga úr skugga um að flugvöllurinn og rekstur hans væru í viðunandi ástandi og í samræmi við framangreinda staðla og verklagsreglur ICAO. Slík úttekt á flugvellinum hefur nú verið gerð af þriggja manna hópi undir forystu flugöryggissviðs með þátttöku finnsks og dansks sérfræðings. Á grundvelli hennar var gefin út yfirlýsing um að flugvöllurinn teljist uppfylla öryggiskröfur til borgaralegs flugs. Að sjálfsögðu eru fjölmörg atriði sem þarf að lagfæra en um það hefur verið gerð áætlun og skuldbinding af hálfu flugvallarins um að koma þessum atriðum í framkvæmd.
Fyrsti liðurinn felur í raun í sér fleira en að gera viðeigandi úttektir. Flugmálastjórn er með lykilfólk í starfi á flugvellinum til að tryggja að reksturinn gangi upp eins og til er ætlast. Hér er t.d. um að ræða gæðastjóra, slökkviliðsstjóra, vélaverkstjóra og yfirflugumferðarstjóra, sem munu starfa á flugvellinum samfellt út tímabilið ef að líkum lætur. Þetta er mikilvægt til að tryggja að reksturinn sé í samræmi við reglur og handbækur. Íslenskur yfirflugumferðarstjóri verður t.d. á hverri vakt og fylgist með því að allt gangi upp. Þá verða verkefnisstjórar reglulega í heimsóknum á flugvöllunum til að tryggja að þeirra verkefnum sé sinnt með eðlilegum hætti. Formlegar úttektir verða svo gerðar reglubundið. T.d. er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði aftur tekinn út eftir 6 mánuði.
Mikil vinna hefur farið fram til að hægt sé að gefa út skírteini til flugumferðarstjóra og hafa tveir menn verið í Pristína um skeið í þessu skyni. Gerðar hafa verið nauðsynlegar læknisskoðanir auk þess sem farið hefur verið yfir allan feril, menntun og reynslu þeirra einstaklinga sem um er að ræða. Hér skiptir miklu að íslenskir flugumferðarstjórar hafa verið á staðnum í meira en ár og þeir gjörþekkja því aðstæður og einstaklingana sem um er að ræða.
Ísland hefur undanfarið ár séð um dreifingu flugupplýsinga fyrir Pristína flugvöll og verður þessari þjónustu haldið áfram. Þetta er gert úr flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík auk þess sem Gufunesstöðin hefur hér stóru hlutverki að gegna.
Auk framangreinds munu verktakar á okkar vegum sinna ýmsum mikilvægum verkefnum einkum er varðar útreikninga á aðflugi og gerð aðflugskorta og annarra flugupplýsinga. Hugsanlega verður gerð úttekt á vegum Flugmálastjórnar á staðsetningu nýrrar ratsjár sem búið er að festa kaup á fyrir flugvöllinn. Þá hefur Flugmálastjórn haft milligöngu um að útvega flugvellinum tryggingar bæði fyrir flugvöllinn sjálfan og flugumferðarþjónustuna. Vafalaust munu fleiri verkefni verða skilgreind þegar lengra líður.
Ástæða er að leggja áherslu á að íslensk stjórnvöld eru ekki að taka að sér rekstur Pristína flugvallar eins og stundum virðist vera álitið. Flugmálastjórn er fyrst og fremst að styðja við UNMIK, þannig að Kosovo Trust Agency, sem er umráðandi flugvallarins, geti tekið við rekstrinum og UNMIK geti í gengum CARO séð til þess að þessi rekstur sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur. Ísland er fyrst og fremst að koma inn sem aðildarríki ICAO, þar sem CARO getur ekki innt af hendi ýmis hlutverk sem eru aðeins á færi aðildarríkja ICAO.
Verkefnin í Kosovo eru mjög krefjandi. Það er mikill heiður fyrir íslensk flugmálayfirvöld að fá slíkt tækifæri sem verkefnin í Kosovo fela í sér. Þau ættu að geta orðið til þess að styrkja starfsemi Flugmálastjórnar í því mikilvæga starfi sem henni er ætlað í nafni samgönguráðuneytisins .