Sturla Böðvarsson var á ferðinni á Vestfjörðum í dag og heimsótti meðal annars Flateyri og átti hádegisfund með sjálfstæðismönnum á Ísafirði. Jafnframt ráðgerði hann að vera viðstaddur undirritun samnings um vegagerð í Mjóafirði og ávarpa síðan aðalfund Ferðamálasamtaka Íslands.
Á Flateyri heimsótti Sturla Grunnskóla Önundarfjarðar og ræddi við kennara og nemendur. Þá kynnti ráðherrann sér atvinnulífið á Flateyri og heimsótti Sparisjóð Vestfirðinga á Flateyri og síðan Fiskiðjuna Kamb.