Hér á eftir fer grein samgönguráðherra sem hann birti í Fréttum í Vestmannaeyjum í dag í tilefni útboðsins á rekstri Herjólfs.
Að undanförnu hafa risið deilur vegna útboðs á rekstri Herjólfs. Spjótum hefur verið beint gegn mér. Hefur mátt lesa í Fréttum harkalegri viðbrögð en efni standa til og í raun hreinar árásir. Hafa hin breiðu spjót ekki verið spöruð. Af því tilefni vil ég gefa lesendum Frétta stutt yfirlit um staðreyndir málsins.
1. Árið 1993 fól þáverandi samgönguráðherra Vegagerðinni að sjá um rekstur ferja og leita hagkvæmustu leiða við rekstur þeirra, þar á meðal með útboði. Rekstur Grímseyjarferjunnar Sæfara var boðinn út þegar í framhaldi þessarar ákvörðunar. Með útboði þeirrar ferju lækkaði kostnaður ríkisins verulega. Hefur rekstur Sæfara gengið með ágætum, og ánægja ríkt með þjónustu ferjunnar. Á þessum tíma kom ekki til útboðs á rekstri Herjólfs og Baldurs vegna andstöðu forsvarsmanna Herjólfs. Útboði var því frestað. Í stað þess var gerður samningur um rekstur Herjólfs sem gilti til ársloka 1999. Í grundvallaratriðum var eins staðið að málum gagnvart Baldri. Öllum mátti vera ljóst að stefnt var að útboði rekstursins að samningstímanum loknum. Enda verður að telja með öllu óeðlilegt að enginn hvati sé til rekstrarhagræðingar hjá fyrirtækjum sem njóta jafnhárra styrkja úr ríkissjóði og ferjufyrirtækin hafa gert.
2. Þegar ég tók við ráðuneyti samgöngumála lá fyrir að undirbúa útboðið. Var sá undirbúningur settur af stað um mitt sumar 1999. Eftir viðræður við forsvarsmenn Herjólfs var þeim gefinn enn lengri aðlögunartími sem nam einu ári og var ákveðið að útboðið miðaði við að samningur á grundvelli útboðs tæki gildi í ársbyrjun 2001. Ákveðið var að láta sama gilda um Breiðafjarðarferjuna Baldur.
3. Rekstur ferjusiglinga í Ísafjarðardjúpi var boðinn út án þess að athugasemdir væru gerðar. Hvað varðar Hríseyjarferjuna þá var ákveðið að fresta áformum um útboð hennar uns nýja ferjan hefði hafið rekstur. Smíði hennar og afhendingu seinkaði mikið og verulegar framkvæmdir þurfti í höfnunum svo rekstur væri tryggður. Nú er unnið að undirbúningi á útboði Sævars.
4. Vegna undirbúnings útboðs á rekstri Herjólfs var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2000 heimild til að ráðstafa hlut ríkisins í Herjólfi hf. Engar athugasemdir komu fram í þinginu við afgreiðslu þeirrar heimildar. Að fengnu lögfræðilegu áliti var ákveðið að stjórn Herjólfs mætti gera tilboð í ferjusiglingar þrátt fyrir eignarhlut ríkisins, enda lá fyrir eindreginn vilji forsvarsmanna Herjólfs til þess. Sama gilti um Baldur.
5. Við gerð útboðslýsingar var leitað umsagnar bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum. Leitast var við að tryggja sem best hagsmuni Eyjamanna. Gengu bæði Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri, og Árni Johnsen, alþingismaður, mjög hart fram í því að tryggja það – svo sem eðlilegt er. Aðrir þingmenn en Árni Johnsen höfðu engin afskipti af málinu gagnvart ráðuneytinu. Um útboð á vegum ríksins gilda skýrar reglur og lög. Samkvæmt útboðsreglum verður ekki undan því vikist að taka lægsta tilboði svo fremi að tilboðið sé metið fullnægjandi. Tilboð lægstbjóðenda, Samskipa hf., var metið gilt og fullnægjandi.
6. Eftir að tilboð voru opnuð gerðu talsmenn Herjólfs hf. harða hríð að Vegagerðinni og töldu kostnaðarmat hennar óraunhæft og að tilboð lægstbjóðenda gæti ekki staðist. Á fundi sem ég átti með talsmönnum Herjólfs gerði ég þeim ljóst að ekki yrði undan því vikist að taka lægsta tilboði og semja við Samskip. Ef þeir efuðust um útboðið og mat á tilboðum gætu þeir leitað álits Kærunefndar útboðsmála. Engin loforð voru gefin af minni hálfu. Ég taldi hinsvegar miðað við aðstæður mjög mikilvægt að Kærunefnd útboðsmála fengi færi á að gefa álit svo fyrir lægi hvort gengið hefði verið á rétt Eyjamanna við gerð útboðsgagna og við mat á tilboðunum.
7. Hér var komið að þeim kafla í þessu máli sem hefur orðið talsmönnum Herjólfs og fleiri sjálfskipuðum sérfræðingum málsins tilefni til stórfelldra árása á mig. Vegna þess að tilboðsfrestur var að renna út var það skylda mín að fela Vegagerðinni að standa þannig að málum að allar reglur væru í heiðri hafðar og að hagsmunum ríksins væri ekki fórnað eða stefnt í óvissu vegna þess að tilboðsfresturinn var að renna út. Væri ekki gengið frá samningi eða samkomulagi við Samskip áður en útboðsfrestur rynni út var lægstbjóðandi laus allra mála og Vegagerðin þannig ber að því að gæta ekki hagsmuna ríkissjóðs. Ég gaf því þau fyrirmæli til Vegagerðarinnar að þannig yrði staðið að málum að stjórn Herjólfs gæfist færi á því að kæra til Kærunefndar útboðsmála en hagsmunir ríkissjóðs jafnframt tryggðir með því að fara að útboðsreglum. Til þess að tryggja alla þætti var gert skriflegt samkomulag við Samskip um að fyrirtækið stæði við sitt tilboð en undirritun samningsins væri frestað vegna kæru stjórnar Herjólfs svo álit Kærunefndar fengist og athugasemdum stjórnar Herjólfs hnekkt eða fengin staðfesting á að gagnrýni á útboðið væri réttmæt. Niðurstaða Kærunefndar útboðsmála varð sú að útboðið og mat á tilboðum var í alla staði rétt af hálfu Vegagerðarinnar. Kærunefndin gerði engar athugasemdir við vinnu Vegagerðarinnar. Ekkert kemur fram í áliti Kærunefndarinnar þess efnis að skort hafi upplýsingar frá stjórn Herjólfs svo nefndin gæti tekið afstöðu til kærunnar frá stjórn Herjólfs.
8. Eins og lesendum Frétta er væntanlega ljóst dró stjórn Herjólfs kæru sína til baka og ætlaði þannig að koma í veg fyrir að fjallað væri um útboðið af Kærunefnd útboðsmála. Allt bendir til þess að stjórn Herjólfs hafi brugðið á það ráð þegar hún áttaði sig á því að málsstaðurinn var vonlaus og ekkert annað uppúr því að hafa en kostnað sem því fylgdi að hafa lögmenn á launum við að skrifa greinargerð um mál sem fyrirfram var tapað vegna þess að Vegagerðin hafði farið að öllum reglum og lögum. Hefði þeim verið alvara þá hefðu þeir látið vinna í málinu í stað þess að kalla eftir fresti fjórum dögum eftir að þeir höfðu átt að skila inn greinargerð til nefndarinnar. Allur málatilbúnaður og framganga stjórnar Herjólfs gagnvart Vegagerðinni og ráðuneytinu er stjórn og framkvæmdastjóra Herjólfs hf. til vansa.
9. Með samkomulaginu sem gert var milli Vegagerðarinnar og Samskipa var tryggt að Kærunefnd útboðsmála fengi tækifæri til að gefa álit sitt áður en skrifað væri undir samninginn. Það var því eðlilegt að vegamálastjóri óskaði eftir áliti Kærunefndar útboðsmála þegar stjórn Herjólfs hafði kallað aftur sína kæru. Vegamálastjóri og hans starfsmenn höfðu legið undir árásum og áttu því mikið undir því að fá staðfest að þeir hefðu unnið eðlilega að útboðinu. Eins og fram hefur komið af minni hálfu þá hefði samningur við Samskip sem lægstbjóðenda verið í uppnámi hefði Kærunefndin gert alvarlegar athugasemdir við útboðið. Þegar álit Kærunefndar útboðsmála lá fyrir sendi fjármálaráðuneytið álitið til Vegagerðarinnar og þá fyrst var gengið frá undirritun samnings. Það og fleira virðist hafa farið framhjá talsmönum Herjólfs í tilraunum sínum til að ófrægja Vegagerðina og samgönguráðherra. Vegagerðin og ekki síður samgönguráðherra virðist hafa átt að þeirra mati að víkja til hliðar öllum reglum og vönduðum vinnubrögðum sem settar eru í þágu ríkissjóðs, þeirra sem gera tilboð og um leið í þágu þeirra sem eiga að njóta þjónustu ferjunnar Herjólfs í þessu tilviki. Til slíkra vinnubragða munu þeir ágætu menn ekki þvinga mig.
Þegar rekstur Herjólfs og annarra ferja var settur undir Vegagerðina var staðfest að ferjuleiðin milli lands og Eyja væri hluti af þjóðvegakerfinu. Allri óvissu var eytt hvað það varðaði. Var það gert í þágu íbúa Vestmannaeyja. Bygging vega og brúa er í dag boðin út. Þjónusta og viðhald vegakerfisins er jafnframt í vaxandi mæli boðin út. Sem dæmi má nefna að öll þjónusta og viðhald vegakerfisins í Rangárvallasýslu er veitt af verktaka sem bauð í það verk sem var áður unnið af starfsmönnum Vegagerðarinnar. Þingmenn Suðurlands hafa sætt sig við þá skipan og hún hefur gefist vel. Þjónusta Herjólfs er tryggð, og það er von mín að hún muni jafnvel aukast. Með hagkvæmu tilboði gefst tækifæri til þess að kosta aukna og betri þjónustu, m.a. í Vestmannaeyjum. Það er hlutverk mitt og eindreginn vilji sem samgönguráðherra að stuðla að því að svo verði. Skipta þar engu máli árásir einstakra manna í minn garð. Ég tek þær sumar auðvitað nærri mér, en verð við þær að búa eins og hverja aðra ágjöf sem yfir ríður. Mikilvægast er að stefnan er rétt og land er fyrir stafni. Gengið verður hart eftir því að nýr rekstararaðili Herjólfs þjóni Eyjamönnum svo sem best má verða.
Að lokum þetta. Það er von mín að þessu deilumáli sé lokið. Ríkið hefur nú eignast öll hlutabréfin í Herjólfi hf. Var gengið til samninga um kaupin og verður að telja þann samning hagstæðan fyrir Vestmannaeyjabæ. Nutu Eyjamenn þar sem fyrr afburða dugnaðar og útsjónarsemi bæjarstjórans Guðjóns Hjörleifssonar.