Fyrrverandi og núverandi ritstjórar DV, Össur Skarphéðinsson og Óli Björn Kárason, beindu spjótum sínum að mér fyrr í vikunni. Tilefnið er að ég lýsti skoðunum mínum vegna sölu Landssíma Íslands. Vegna fjarveru minnar erlendis hefur mér ekki gefist tóm til að svara Össuri fyrr en nú. Málflutningi ritstjóra DV er ekki ástæða að svara umfram það sem fellur saman við svar mitt til Össurar.
Í viðtali við Morgunblaðið lýsti ég annarsvegar undrun vegna þess að stóru lífeyrissjóðirnir keyptu ekki hlutabréf í Símanum, og hinsvegar að ég teldi að Búnaðarbankanum hefði mistekist að hluta það verkefni að selja 24% hlutafjár Símans. Afstaða mín veldur þeim kumpánum heilabrotum og varð þeim tilefni til ótrúlegra stóryrða og prédikana.

Afstaða stóru lífeyrissjóðanna
Mikil ábyrgð hvílir á stjórnendum lífeyrissjóðanna. Annarsvegar gagnvart því að þeir tryggi trausta ávöxtun sjóðanna, og hinsvegar að þeir beiti afli þeirra fjármuna sem þeir hafa yfir að ráða í sjóðunum til að efla hið íslenska samfélag – í þágu sjóðfélaganna með þátttöku í öflugu atvinnulífi og sterkum þjónustufyrirtækjum eins og Símanum. Þegar ákveðið var að hefja sölu á hlutabréfum í Símanum var talið mjög líklegt að lífeyrissjóðirnir myndu kaupa af þeim 8% sem boðin yrðu fjárfestum. Það kom mér og fleirrum því mjög í opna skjöldu að allir stóru sjóðirnir ákváðu að kaupa ekki í Símanum. Hvort þeir hafi haft samráð um það skiptir ekki máli, heldur það að þeir skuli allir sem einn snúa baki við áformum stjórnvalda um þessa stærstu einkavæðingu í sögu þjóðarinnar. Yfir því hlakkar Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. Afstaða lífeyrissjóðanna er mér enn undrunarefni. Þessi afstaða nú lokar auðvitað ekki fyrir þann möguleika að lífeyrissjóðirnir kaupi í næstu áföngum. Allir þeir ráðgjafar sem ég ræddi við í aðdraganda sölunnar gerðu ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir mundu hafa áhuga á að kaupa hlutabréf í Símanum, þessu öfluga fyrirtæki, til að eiga í hlutabréfasöfnum sínum. Vert er að vekja athygli á því að minni lífeyrissjóðir sáu ástæðu til þess að kaupa hlut í Símanum – þrátt fyrir úrtölur vegna þess gengis sem miðað var við samkvæmt ráðgjöf framkvæmdanefndar um einkavæðingu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Formaður Samfylkingarinnar og Búnaðarbankinn
Formaður Samfylkingarinnar hefur síðustu daga tekið að sér að vera sérstakur fjölmiðlafulltrúi Búnaðarbankans. Ekki veit ég hvort það er bankanum mikill stuðningur. Hefur formaðurinn veist að mér vegna þess sem eftir mér hefur verið haft um að Búnaðarbanakanum hefði mistekist að nokkru við sölu hlutabréfanna. Bankastjóri Búnaðarbankans brást raunar við áliti mínu með þeirri undarlegu yfirlýsingu að undirritaður væri að skjóta sér undan ábyrgð með því að hafa skoðun á árangri bankans við söluna. Hvergi örlar á efasemdum bankans um árangurinn og öll athygli dregin að gengi hlutabréfanna sem bankinn hafði réttilega ekkert með að gera. Öllum ætti að vera ljóst að til þess að árangur verði við sölu þarf bæði verðið að vera sanngjarnt, kaupendur að fá góða ráðgjöf frá þeim sem sér um söluna og sölumenn að vera sannfærðir um að geta selt á því verði sem miðað er við.

Að undangengnu forvali var Búnaðarbankinn ráðinn til að vinna sölulýsingu og sjá um sölu á 24% hlutafjár til einstaklinga og fjárfesta í fyrsta áfanga sölunnar. Samið var við PriceWaterhouseCoopers um verðmat á Símanum og umsjón á sölu til kjölfestufjárfestis. Bæði þessi fyrirtæki njóta fyllsta trausts af minni hálfu en ég hlýt að hafa skoðun á því hvort mér þyki þau hafa náð þeim árangri sem að var stefnt. Öll vinna BÍ og PWC við undirbúninginn var vönduð og fagleg eins og átti að vera með þessa stóru sölu. Stóru lífeyrissjóðirnir komu hinsvegar ekki að “búðarborðinu” hjá Búnaðarbankanum. Hvort það var vegna þess að verðið var of hátt eða “sölumennina” hafi skort sannfæringarkraft er nokkuð sem um verður deilt – en er sjálfsagt að ræða. Afstaða mín er að verðið hafi verið sangjarnt og að ekki hafi komið til greina að selja Símann á útsöluverði þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður og mótlæti við söluna í fyrsta áfanga. Viðbrögð kjölfestufjárfesta eru vissulega traustvekjandi og Síminn mun standa fyrir sínu.

Montréal, 27. september,