Sturla Böðvarsson skrifar um umferðaröryggi í tilefni af því að nú stendur yfir alþjóðleg umferðaröryggisvika, hin fyrsta í röðinni. Vikan stendur fram á helgina og er efnt til funda, sýninga og annarra dagskrárliða í tilefni vikunnar.

Alþjóðleg umferðaröryggisvika er tilefni til að íhuga hvernig við stöndum okkur í umferðinni. Stundum gengur vel og stundum miður. Slysin eru of mörg og yfirvöld og almenningur þurfa að leggja sitt að mörkum til að gera betur. Það á við um alla heimsbyggðina og þess vegna hafa Sameinuðu þjóðirnar haft forgöngu um að hvetja aðildarríki til aðgerða. Umferðarslys og afleiðingar þeirra eru eitt umfangsmesta heilbrigðisvandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

En hvað er hægt að gera? Þetta er sú spurning sem brennur á þeim sem fara með  umferðaröryggismál. Það hvílir mikil ábyrgð á ráðuneytinu, ábyrgð sem snýst um að búa svo um hnúta að umferðin í landinu sé örugg og slysin sem fæst. En þegar á hólminn er komið hvílir ábyrgðin auðvitað á ökumönnum.

Banaslys í umferðinni á Íslandi voru skelfilega mörg á síðasta ári. Merki voru líka um það að hraðakstur hefði aukist. Hvað eftir annað fengum við fréttir af vægast sagt ógnvekjandi hegðun ökumanna sem hikuðu ekki við að aka langt yfir leyfilegum hraðamörkum og skapa með því stórhættu. Sumir jafnvel oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Almenningur lét í ljós skoðun sína og fordæmdi þessa framkomu sem ekki er hægt að kalla annað en ofbeldi í umferðinni.

Þessi þróun varð meðal annars til þess að ég hef síðustu vikur og mánuði látið kanna margs konar úrræði sem verða mættu til að tryggja betur öryggi vegfarenda. Þessi vinna leiddi til nokkurra aðgerða sem eru meðal annars:

·        Breytingar á lögum og reglugerðum, sem hafa í för með sér aukin úrræði til að veita aðhald og veita mönnum ráðningu fyrir slíka hegðun. Viðurlög við umferðarlagabrotum eru hert og síbrotamenn geta vænst þess að bílar þeirra verði gerðir upptækir.

·        Aukið fjármagn er lagt í umferðaröryggisáætlun til að auka megi eftirlit lögreglunnar með hraðakstri og ölvunarakstri. Keyptar hafa verið fleiri eftirlitsmyndavélar til að nema hraðakstur og nýir öndunarsýnamælar til að greina ölvunarakstur. Þessar vélar eru í lögreglubílum og mótorhjólum og eftirlitsmyndavélarnar eru einnig settar upp á fjölförnustu þjóðvegunum.

·        Lögð verður aukin áhersla á fræðslu og áróður og tekin upp sú nýjung í ökukennslu að frá næstu áramótum verður þjálfun í ökugerði skilyrði fyrir fullnaðarökuskírteini ökunema sem þá hefja ökunám. Við viljum efla umferðarfræðslu í skólum og gera hana samfellda allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla.

·        Við bætum samgöngumannvirki, breikkum aðalvegi, fækkum einbreiðum brúm og aðskiljum akstursstefnur sem víðast á þjóðvegum.

Þessar aðgerðir eru bæði skammtímalausnir og langtímaaðgerðir. Ég segi skammtímalausnir af því að vonandi verða hert viðurlög til þess að við náum að útrýma hraðakstri og ölvunarakstri. Hertari viðurlög og meira eftirlit lögreglu beinist auðvitað aðeins að þeim sem eru brotamenn í umferðinni. Við væntum þess að sá hópur fari sífellt minnkandi enda hegða langflestir ökumenn sér vel. Við höfnum ofbeldi eða glæfraakstri. Aðrar aðgerðir eru langtímaverkefni og með þeim viljum við ala upp kynslóð ökumana og þátttakenda í umferðinni sem munu segja að það sé hallærislegt og óábyrgt að aka drukkinn, sýna glæfraakstur eða nota ekki bílbeltin.

Nú er sumarið framundan og við verðum eflaust enn meira á ferðinni en verið hefur síðustu mánuði. Er ekki rík ástæða til þess að setja sér það markmið að gera betur í umferðinni í dag en í gær?