Skrifað fyrir eigendur Hótel Egilsens í Stykkishólmi í tilefni þess að hótelið var opnað.
Eins og fram kemur í Sögu Stykkishólms eftir sagnfræðingana Ólaf Ásgeirsson og Ásgeir Ásgeirsson sem kom út árið 1997 má rekja byggð og búsetu í Stykkishólmi til þess tíma er kaupmenn settust þar fyrst að árið 1596 og hófu verslunarrekstur. Þangað bárust menningaráhrif frá dönskum, þýskum og hollenskum kaupmönnum. Í upphafi byggðarinnar var það verslunin sem var aðal atvinnuvegur þeirra sem settust að í Stykkishólmi. Með vaxandi verslun og tengslum við hana hófst þilskipaútvegur frá Stykkishólmi og skaut þannig fleiri og sterkum stoðum undir þróun byggðarinnar sem var samt sem áður mjög tengd sveitunum á Snæfellsnesi, byggðinni við Breiðafjörð og eyjabúskapnum sem var sú gullkista sem skapaði auðlegðina í héraðinu.
Fjögurhundruð ára þróun byggðar sem er reist á danskri arfleifð |
Um aldamótin 1900 var Stykkishólmur fyrst og fremst verslunarstaður með hefðbundin embætti og nátengdur hinu danska samfélagi í gegnum viðskipti og verslunarrekstur. Stykkishólmur var jafnframt samgöngu- og þjónustumiðstöð byggðanna við Breiðafjörð og á Snæfellsnesi. Hólmurinn var vissulega miðstöð Vesturlands samkvæmt skilgreiningu þeirra sem litu til þjónustu og staðsetningar embættismanna. Þar var stjórnsýslumiðstöðin með sýslumanni og þar var heilbrigðisþjónustan með lækni og apóteki. Allt varð þetta til þess að skjóta stoðum undir þessa merkilegu byggð við eyjarnar þaðan sem út voru flutt hross á fæti, dúnn og ull í stórum stíl og afkoman við eyjabúskap var góð. Síðari hluta nítjándu aldarinnar og í byrjun þeirrar tuttugustu, þegar mikil sjálfstæðisvakning hafði skotið sterkum rótum meðal landsmanna og þá einkum fylgismanna Jóns Sigurðssonar forseta Alþingis, höfðu menn byggt allvel upp sín íbúðarhús í Stykkishólmi miðaða við það sem var á þessum árum á Íslandi og Stykkishólmur nýtur þess enn eins og sjá má á gömlu húsunum sem setja svip sinn á bæjarmyndina. Um aldamótin 1900 voru íbúarnir um þrjú hundruð og hafði fjölgað mjög frá árinu 1850 þegar þeir voru um eitt hundrað.
Stykkishólmur stendur þannig á gömlum merg. Þegar litið er til þróunar byggðarinnar í Stykkishólmi er ljóst að um miðjan áttunda áratug tuttugustu aldarinnar hófst mesta uppbyggingar skeið í sögu Stykkishólms. Margar ástæður liggja að baki þeirrar þróunar og verður reynt í þessari stuttu samantekt að rifja upp þennan tíma og draga fram mikilvæga áhrifaþætti sem breyttu samfélaginu vegna þess að á vegum bæjarins var tekið til við margskonar umbætur og uppbyggingu þjónustu og mikil áhersla lögð á bætt umhverfi og fegrun bæjarins. Efnahagur batnaði all verulega með veiðum og vinnslu á hörpudiski jafnframt auknum umsvifum við skípasmíðar og þjónustu við fiskiskipaflotann auk þess sem byggingariðnaðurinn varð mjög öflugur. Bæjarsjóður varð stór hluthafi í skipasmíðastöðinni Skipavík. Á þessu tíma var höfn byggð í Skipavík til þess að styrkja samkeppnisstöðu skipasmíðastöðvarinnar, bryggju bætt við í Stykkinu og gamla Hafskipabryggjan endurbyggð, byggð ferjuhöfn í Súgandisey, settar upp flotbryggjur fyrir smábáta, slippurinn endurbyggður, sjúkrahúsið stækkað með heilsugæslustöð, byggðar fjölmargar íbúðir á vegum bæjarins, reistur nýr skóli, íþróttahús, sundlaug og íþróttavöllur byggður upp, Félagsheimilið og Hótel Stykkishólmur byggt upp af bænum, hafin rekstur Dvalarheimilis fyrir aldraða, komið á heimaþjónustu fyrir aldraða og byggðar þjónustuíbúðir, lögð ný vatnsveita og allt lagnakerfi skólp og vatnsveitu endurnýjað, gatnakerfið endurbyggt og lagt bundnu slitlagi, lögð hitaveita í bænum, reistur nýr leikskóli, byggð ný kirkja á vegum safnaðarins og hafinn rekstur fjölbrautaskóla, bærinn keypti lóðir og húsakost Kaupfélags Stykkishólms og verslunarhúsinu var breytt i glæsilegt ráðhús.
Skipulagsmál og húsafriðun |
Umræður og áhugi á húsafriðun var áberandi á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar. Þegar undirritaður tók við sem sveitarstjóri í Stykkishólmi voru mörg eldri hús bæjarins í slæmu ástandi og skorti viðhald. Ástæður eigenda til þess að sinna kostnaðarsömu viðhaldi voru mismunandi og stakk það víða í augu hversu mörg elstu húsin í bænum voru illa farin. Á fyrstu árum mínum í Hólminum var sagt við mig í tilefni umræðu um slakt viðhald húsa: „Sýndu af þér dug ungi sveitarstjóri og þín mun verða minnst ef þú lætur rífa alla gömlu kofana.“Mér var nokkuð brugðið við þessa hvatningu því ég hafði mikinn áhuga á verndun og endurgerð gamalla hús sem settu sterkan svip á byggðina. Ég fór því að gefa húsafriðunarmálum enn meiri gaum og var m.a. skipaður í Húsafriðunarnefnd ríkisins sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég hafði því góða aðstöðu til þess að fylgjast grannt með þróun þeirra mála. Sem lið í breyttri stefnu í húsverndarmálum samþykkti sveitarstjórnin að stuðla að endurgerð íðbúðarhússins við Aðalgötu 2, Egilsenshús, og var samið um kaup á eigninni og gerður samningur um endurbyggingu þess. Má segja að kaup og viðgerð Egilsenshúss, gerð húsakönnunar og endurgerð Norska hússins hafi markað tímamót við húsafriðun í Stykkishólmi. Með þeim aðgerðum var hrundið af stað þeirri byltingu við endurgerð húsa sem í dag er dásömuð og setur einstakan svip á bæinn.
Húsið sem Egill Egilson reisti
Egilsenshús heldur hrörlegt á meðan á viðgerð stóð |
Egilsenshús að lokinni viðgerð |
Egilsenshúsið var byggt árið árið 1867. Eigandi þess og húsbyggjandi var Egill Egilsson sonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors og skálds og fræðimanns. Fyrri kona Egils var Anna Thorlacius Egilsen. Hún dó ung en hann giftist yngri systur hennar Ólínu Ágústu, en Egill hafði verið kennari í Norskahúsinu þar sem þessar dætur Árna Thorlacius og Önnu Magdalenu bjuggu og höfðu alist upp við gott atlæti, en heimilið í Norskahúsinu var meðal efnaðri heimila í landinu á þeim tíma. Egill varð áhrifamaður í Stykkishólmi sem kaupmaður og þingmaður en bærinn var þá að vaxa úr grasi sem höfuðstaður við Breiðafjörð. Veggir Egilsenshúss hefðu því frá mörgu að segja úr fortíðinni ef þeir mættu mæla.
Þegar ég fluttist í Hólminn og varð sveitarstjóri var Egilsenshús i mikilli niðurníðslu. Taldist vart bæjarprýði. Var raunar til skammar fyrir ásýnd bæjarins eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Húsið gekk undir nafninu Settuhöll. Þar bjuggu tveir eldri menn auk þess sem bærinn átti þar íbúð á neðstu hæðinni og leigði ungum hjónum sem áttu kornung börn. Aðstæður í húsinu voru hinar hörmulegustu og var mér mjög brugðið þegar ég kom í heimsókn og hitti þar fyrir tvo öldunga í sitthvorri íbúðinni og ungu móðurina með börn sín á fyrstu hæðinni og fór ekki á milli mála að þar var í öllu tilliti búið við þröngan kost. Var mér hugsað til ljósmyndarinnar sem var tekin nærri hundrað árum áður af fjölskyldunni sem þá bjó í þessu fallega húsi. Á þeirri mynd er dúkað borð í garðinum við húsið og prúðbúið fólk að njóta veitinga. Allt var með öðrum brag í húsinu árið 1975 þegar ég byrjaði að fylgjast með þeim aðstæðum sem þar voru um þær mundir.
Árið 1976 var hafist handa við að endurskoða aðal og deiliskipulag bæjarins. Liður í þeirri vinnu var að taka ákvörðun um hvort rífa ætti einhver hús til þess að rýma fyrir nýjum byggingum í gamla bænum, breikka göturnar og leggja gangstéttar við gatnakerfi bæjarins sem var allt endurbyggt á þessum árum eins og fyrr var getið um. Liður í þessum skipulags ferli var að Húskönnun var gerð í samstarfi Stykkishólmsbæjar, Skipulagsstjóra ríkisins og Húsafriðunarnefndar í góðri samvinnu við þáverandi þjóðminjavörð. Var ákveðið með samþykkt hreppsnefndar að stuðla að endurbyggingu gömlu húsanna í bænum og var gerð sérstök samþykkt um það. Þar með var teningnum kastað og það varð mitt hlutverk sem sveitarstjóra að lokka eigendur húsa og þar með Egilsenshúss til þess að endurgera húsið í stað þess að rífa það. Um þetta leyti bjó einn gamall maður Eyjólfur Bjarnason í húsinu og átti meirihluta þess. Hann sagði að sér lið vel í húsinu með þeim fjölmörgu sem þar væru búsettir að jafnaði og engin þörf væri á endurbótum þess. Samkvæmt íbúaskránni voru ekki aðrir með lögheimili í Egilsenshúsi á þessum tíma en Eyjólfur. Fór ekki á milli mála að hann taldi sig hafa fullt umboð þeirra sem þar hefðu búið í gegnum árin og voru fluttir á annað tilveru stig, en höfðu viðkomu í húsinu og virtust vera í sambandi við Eyjólf gamla. Var ekki á mínu valdi að efast um það samband sem hann hafði við hina framliðnu íbúa og það voru ýmsir vissir um, að hann sæi það sem aðrir sáu ekki í okkar daglega lifi. Menn deildu því ekki við Eyjólf um þessa hluti og hann fór sínu fram. Í fyrstu heimsóknum mínum til hans stóð hann í gættinni og ég á stigaskörinni á meðan við ræddum saman. Stiginn var bæði brattur og þröngur, sjaldan pera í ljósastæðinu og þar var geymslustaður fyrir byggingarefni, tjöru sem átti að bera á húsið þegar hann taldi þörf á og matvæli af ýmsu tagi. Ég fór margar ferðir til hans, drakk kaffi í lítra tali, hlustaði, deildi ekki við hann og varð góður vinur hans með tímanum. Hann hafði í fyrstu miklar efasemdir um áhuga minn á húsinu. Svo fór hinsvegar að lokum að ég gerði samning við hann um að bærinn keypti hlut hans í húsinu. Skilyrði voru nokkur. Þau helstu voru að hann fengi pláss á Dvalarheimilinu og fengi þar „ætan og íslenskan mat“, hann fengi að hafa með sér handverkfæri til smíða og að ég sæi um að húsgögnin hans, innanstokksmunir og ýmiss stærri verkfæri nýttust bænum. Engu mátti henda. Einn stól átti ég persónulega að fá til eignar en ég hafði jafnan setið á honum í heimsóknum mínum eftir að ég fékk að koma inn til hans. Hann kom heim til mín til þess að kanna aðstæður fyrir stólinn. Um var að ræða borðstofustól með renndum löppum og pírálum í baki allt úr beyki viði. Snotur stóll sem er í svefnherbergi okkar hjóna enn þann dag í dag og minnir mig hvern dag á þennan látna vin minn. Hann er væntanlega gestur í Egilsenshúsinu þegar hann á leið um á því tilverustigi, sem hann er á í dag. Þegar við höfðum losað húsið af veraldlegum eigum Eyjólfs Bjarnasonar hófst viðgerð þess í samstarfi við Húsafriðunarnefnd og með styrk frá Húsafriðunarsjóði. Samið var við ungt og bjartsýnt fólk sem tók að sér að gera við húsið. Það voru þau Pétur Ágústsson, Svanborgu Siggeirsdóttur, Karl V Dyrving og Bryndísi Guðbjartsdóttur. Hreppurinn lagði til efni til viðgerðar, en þau sáu um alla vinnuna við endurgerðina. Að launum eignuðust þau hlut í húsinu. Það er skemmst frá því að segja að húsið varð strax bæjarprýði og hvatti útlit þess aðra til þess að taka til hendi við að endurbyggja húsin í bænum. Og í dag vildu allir Lilju kveðið hafa og Stykkishólmsbær hefur fengið sérstök Evrópsk verðlaun fyrir umhverfismál og endurgerð gamalla húsa.
Það er enginn vafi í mínum huga að við sem stóðum fyrir endurgerð hússins á sínum tíma höfum fengið það margfalt „endurgoldið“ í formi stuðnings hinna fjölmörgu sem hafa búið í húsinu og kunna að meta það framtak og þá virðingu sem fyrri íbúar og eigendur hafa hlotið með því að gera Egilsenshús að bæjarprýði að nýju. Hvort þeir hafi bæst á kjörskránna skal ósagt látið, en í það minnsta hafa þeir í gengum tíðina og til skamms tíma gefið þann kraft á kjördag sem hefur dugað til þess að bæjarfélaginu var stýrt framhjá öllum blindskerjum sem á leið stjórnenda bæjarins hafa verið.
Í ljósi sögunnar er það sérstaklega ánægjulegt að Egilsenshús skulu enn ganga í endurnýjun lífdaga þegar það er byggt upp sem hótel. Núverandi eigendur þess eru líklegir til þess að skapa þann brag sem þarf til þess að hinir góðu andar sem húsinu hafa fylgt taki vel á móti þeim fjölmörgu sem vonandi eiga eftir að gista í Hótel Egilsens. Gangi húsráðendum þessa heims og annarra heima allt í haginn við rekstur hótelsins í þessu sögufræga húsi.