Í Fréttablaðinu birtist grein þar sem vitnað er í heimasíðu formanns Vélastjórafélagsins. Bregður formaðurinn ekki af vana sínum þegar hann rekur hornin í samgönguráðherra.

Ekki eru þau skrif málefnaleg frekar en fyrri daginn úr þeirri átt. Í frétt blaðsins segir:

„Reglugerð vinnur gegn öryggi“

,,Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, segir að ný reglugerð sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setti, leiði til þess að útgerðarmenn noti tækifærið og lækki laun vélstjóranna og slaki á réttindakröfum og þar með öryggi sjómanna. Helgi skellir skuldinni á samgönguráðherra.“(Fréttablaðið 31.01, bls. 6).

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort forysta útvegsmanna lætur þessu ósvarað. Um er að ræða ótrúlega aðdróttun að útgerðarmönnum og ekki síður skipstjórum viðkomandi skipa. Formaður Vélstjórafélagsins heldur því fram að skipstjórar viðkomandi skipa ógni öryggi skips og áhafnar með mönnun skipana. Umrædd reglugerð losar engan útgerðarmann eða skipstjóra frá því að gæta öryggis við mönnun. Hvorki þeir né útvegsmenn geta skotið sér á bak við ráðherra. Umrædd reglugerð var sett til þess að eyða óvissu og koma á skýrum reglum um afl aðalvéla skipa. Reglugerðin var sett að undangenginni vandaðri umfjöllun og yfirferð sérfræðinga Siglingastofnunar. Það er ótrúleg ósvífni að ætla ráðherra, embættismönnum ráðuneytis og sérfræðingum Siglingastofnunar að ganga einhverra erinda útvegsmanna í þeim eina tilgangi að skerða öryggi og kjör sjómanna. Vinnubrögð Helga Laxdal eru einstök og koma ekki á óvart. En þau eru jafn óvönduð og þau eru honum til skammar.

Sturla Böðvarsson