Með tilkomu Hvalfjarðarganganna varð að veruleika ein mesta samgöngubót í landinu. Allar áætlanir um umferð hafa staðist og gott betur. Fjárhagsleg afkoma Spalar er góð þó að gengisþróunin hafi sett strik í reikninginn hvað varðar afkomu þessa árs. Ótalmargt bendir til þess að jákvæð áhrif ganganna séu veruleg, bæði á Vestur- og Norðurlandi.
Meginmarkmið ráðuneytisins er að tryggja áframhaldandi velgengni þessara ganga. Það verður einna helst gert með þrennum hætti þ.e. tryggja að gangagjaldið haldist innan eðlilegra marka, bæta umferðarstreymi og aðgengi og að lokum að gera allt sem mögulegt er til þess að viðhalda og helst bæta öryggi Hvalfjarðarganganna. Hér að neðan verður fjallað um það helsta sem nýtt getur talist og snýr að seinni atriðunum tveimur.

1. Bætt umferðarstreymi – klifurrein sunnan ganga.

Með vaxandi umferð hefur þörf á að auðvelda framúrakstur aukist þegar ekið er upp úr Hvalfjarðargöngum að sunnanverðu. Vegsýn er takmörkuð og hefur því verið hönnuð breikkun á veginum frá göngum upp fyrir vegamót Hvalfjarðarvegar. Áætlað er að kostnaður ásamt endurbótum á lýsingu vegarins sunnan gangamunnans geti verið um 50 m.kr. Mun Spölur ehf. bera meirihluta kostnaðar við framkvæmdina (40 m.kr.), en Vegagerðin það sem upp á vantar. Miðað er við að hlutur Spalar ehf. endurgreiðist af veggjöldum. Ákveðið er að bjóða verk þetta út snemma á næsta ári og ætti framkvæmdum að ljúka í sumar.

2. Öryggismál.

Í samningum ríkisins og Spalar sem samþykktir voru fyrir gerð Hvalfjarðarganga er m.a. vísað til öryggismála. Þar er skýrt kveðið á um hvaða staðla skuli miða við, bæði varðandi gerð og rekstur ganganna. Ekki er ágreiningur um að allar öryggiskröfur í þeim stöðlum eru uppfylltar. Nokkur dæmi eru um búnað sem settur hefur verið í göngin umfram kröfur staðlanna. Ekki eru þekkt dæmi erlendis frá um sambærileg göng þar sem krafist er meiri öryggisbúnaðar en finna má í Hvalfjarðargöngum. Eins og hjá öðrum þjóðum byggist gerð og umfang öryggisatriða einkum á umferðarmagni í göngum, þar eð bílafjöldinn segir mest til um áhættu vegfarenda.

Umferð í Hvalfjarðargöngum er mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi, og fer enn vaxandi. Ákveðinn hluti öryggismála hefur þegar verið endurskoðaður með tilliti til þess. Nýlega hefur Vegagerðin í samvinnu við Spöl ehf. ákveðið að endurskoða öryggismál ganganna í heild. Sem dæmi um verkefni sem vinna skal að má nefna:

· Endurskoðun viðbragðsáætlana
· Endurskoðun áhættumats m.t.t. bruna
· Yfirferð staðla og reglna um öryggismál
· Æfingar slökkviliða í Hvalfjarðargöngum
· Könnun á ástandi vöruflutningabíla.
· Eftirlit með farmi vörubíla og réttindum bílstjóra.

Við þessa vinnu verður leitað samvinnu við þá aðila sem að þessum málum þurfa að koma, svo sem Brunamálastofnun, slökkvilið beggja vegna Hvalfjarðar, lögregluna, Vinnueftirlit ríkisins o.fl. Stefnt er að því að ljúka endurskoðuninni í vetur. Gert er ráð fyrir að Helgi Hallgrímsson vegamálstjóri hafi forgöngu um að kalla þessa aðila saman.

Til viðbótar má nefna tvennt sem er á forræði annarra en samgönguráðuneytisins. Starfshópur skipaður af dómsmálaráðherra er að ljúka endurskoðun á reglum um flutning hættulegra efna um jarðgöng. Þá er að hefjast vinna á vegum umhverfisráðuneytisins við að setja reglugerð um brunavarnir í jarðgöngum samkvæmt nýjum lögum um brunavarnir.