Í umræðum um byggðakjarna á Íslandi í tengslum við byggðaáætlun hefur verið talað um að þrír meginkjarnar væru skilgreindir á landsbyggðinni til mótvægis við höfuðborgarsvæðið.
Þar er um að ræða Eyjafjarðarsvæðið með Akureyri sem meginkjarna, miðausturland og Ísafjörð.
Þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa fjallað um stöðu atvinnu- og byggðamála á Vestfjörðum að undanförnu. Í bréfi, sem ég ritaði fyrir hönd þingmanna, til bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar, var lögð á það áhersla að við frekari vinnu við skilgreiningu á hugtakinu byggðakjarni, væri gert ráð fyrir því að öll sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum næðu þeirri skilgreiningu. Þessi afstaða þingmanna hefur orðið bæjarstjórn Ísafjarðarkaupsstaðar tilefni til ályktunar. Þar er því andmælt að ekki sé miðað við Ísafjörð einan sem byggðakjarna. Í þessari samþykkt bæjarstjórnar felst mikill misskilningur. Afstaða mín til þessa máls er byggð á því að ég tel að sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum, þ.e.a.s. Ísafjarðarkaupstaður, Bolungavíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur, eigi að sameinast um að takast á við þetta hlutverk að byggja upp byggðakjarna. Byggðakjarnahugtakið getur ekki miðast við það að allt gerist á ,,eyrinni“ á Ísafirði. Byggðakjarnahugsunin á að byggjast á því að innan þessa svæðis verði bættar samgöngur og þjónustan og atvinnulífið svo öflugt að það skapi mótvægi við aðra landshluta og dragi til sín íbúa, sem velja að búa við góðar aðstæður í byggðakjarnanum. Það má ekki og getur ekki allt verið við ,,ráðhústorgið“. Byggðakjarni höfuðborgarsvæðisins er ekki einungis Reykjavík og byggðakjarninn norðan heiða er Eyjafjarðarsvæðið en ekki einungis Akureyri þó að Akureyringar vilji leggja alla áherslu á þann nafla sem þeir telja Akureyri vera. Með sama hætti styður hver hinna þriggja byggða á norðanverðum Vestfjörðum aðra og eflir byggðakjarnann. Á Ísafirði verða eftir sem áður stærstu þjónustustofnanir svæðisins og þar verður megin segullinn fyrir fólkið, sem vill festa rætur í kjarnanum, vegna kosta svæðisins sem heildar. Á það má einnig benda að ef til þess kæmi að önnur stór og sambærileg sameining sveitarfélaga yrði á þessu svæði, líkt og varð með sameiningu núverandi Ísafjarðarkaupstaðar, yrði eitt sveitarfélag á öllum norðanverðum Vestfjörðum. Með því væri svæðið einn samfelldur byggðakjarni, sem stæði sameinaður og sterkari til sóknar og varnar. Í því ljósi m.a. tel ég eðlilegt að beina því til bæjaryfirvalda á Ísafirði að byggðakjarna-skilgreiningin verði sú sem þingmenn benda á. Á hitt er að líta að þingmenn gefa engin fyrirmæli og þeir ráða þessu ekki. Það gera sveitarstjórnirnar á svæðinu. Þær þurfa að ná saman ef byggðin á að dafna og verða að gæta þess að daga ekki uppi í hrepparíg, sem getur verið ágætur til að efla heilbrigða samkeppni milli byggða, en getur einnig verið til skaða.