Að undanförnu hefur orðið nokkur umræða um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2005-2008 sem Aþingi afgreiddi nú í vor. Í þessari grein vil ég fara nokkrum orðum um hvernig samgönguáætlun verður til. Mest hefur verið fjallað um þann hluta hennar sem snýr að vegakerfinu. Minna hefur verið rætt og deilt um flugmálin og siglingamálin. Hér mun ég einkum beina sjónum mínum að vegamálunum.

Margir kallaðir

Umræður um samgöngur eru af hinu góða enda skipta þær miklu máli um framvindu samfélagsins og eru mikilvægur lykill að hagsæld okkar. Eins og vænta má þá eru margir sem telja sig til þess best bæra að hafa vit fyrir öðrum og þá einkum þeim sem fara með það verkefni að móta stefnu í samgöngumálum þjóðarinnar og leggja til endanlegrar samþykktar þjóðkjörinna fulltrúa allra kjördæma á Alþingi. Í umræðunni á Alþingi og í fjölmiðlum hafa vegist á sjónarmið þeirra sem vilja fyrst og síðast tryggja hagsmuni sinna byggða, þeir sem tryggja vilja hagmuni sinna byggða í krafti fólksfjölda, þeir sem tefla fram þeim rökum einum að arðsemi fjármuna eigi að ráða og þeir sem telja nauðsynlegt að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi. Það er hlutverk samgönguráðherra að hafa landið allt undir í tillögugerð sinni, tryggja heildarhagsmuni, tryggja nýtingu fjármuna í þágu betri samgangna á landinu öllu og tryggja öryggi í samgöngum.

Lög um samgönguáætlun ráða för

Um þetta viðamikla verkefni gilda skýr lög um samgönguáælun nr. 71 frá árinu 2002. Sú löggjöf var sett eftir mikla vinnu við endurskoðun eldri laga og eftir mikla greiningu á samgöngukerfinu á vettvangi sérstaks stýrihóps, sem ég setti til þeirra verka, undir forystu hins þrautreynda sveitarstjórnarmanns Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með lögum um samgönguáætlun var tekið saman í einn lagabálk áætlanir um flugmál og flugöryggismál, siglingar, hafnamál og öryggismál sjófarenda, vegamál og þar með umferðaröryggismál. Með þessari sameiningu allra samgönguþátta er leitað heildar hagkvæmni og meiri yfirsýnar en áður var.
Samkvæmt lögum um samgönguáætlun er það samgönguráð sem hefur það verkefni að undirbúa tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun. Í lögum segir um skipan ráðsins og verkefni þess í 3. grein laganna:

….Samgönguráðherra skipar samgönguráð sem hefur yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Í samgönguráði sitja flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Auk þess situr þar fulltrúi samgönguráðherra sem jafnframt er formaður. Skipunartími fulltrúa samgönguráðherra er fjögur ár en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
Samgönguráð skal minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar. Til samgönguþings skal öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála boðið. Á samgönguþingi skal gera grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar. Samgönguráð skal hafa samráð við hagsmunaaðila eins og ástæða þykir til hverju sinni….

Fyrsti formaður samgönguráðs var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi en formaður samgönguráðs er núna Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts og fyrrverandi forstjóri Eimskipafélagsins og fyrrum bæjarstjóri á Akranesi og Garðabæ. Maður með mikla yfirsýn og reynslu.

Fagleg sjónarmið ráða við gerð samgönguáætlunar

Með þeirri skipan, sem tekin var upp með lögunum frá árinu 2002 og hér er lýst, var lögð á það áhersla að fagleg sjónarmið væru höfð að leiðarljósi við gerð samgönguáætlunar. Sveitarstjórnir og þingmenn hafa jafnan haft ríkar skoðanir á röð framkvæmda eins og eðlilegt er, svo miklu máli sem samgöngur skipta um þróun byggðarinnar.

Í 2.grein laganna er verkefnið skilgreint. Þar segir m.a.
……….. Í samgönguáætlun skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Þá skal í samgönguáætlun meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.
Í samgönguáætlun skal gera ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:
a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,
c. að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins.
Við gerð samgönguáætlunar skal taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir samgönguframkvæmdir í landinu í heild og í einstökum landshlutum………….

Í þessari grein laganna er skilgreint hvaða helstu sjónamið eru lögð til grundvallar við gerð samgöngu áætlunar. Það ættu þeir að hugleiða sem hafa gert kröfur til þess að skipta fjármunum til samgöngubóta eftir fjölda íbúa einstakra landshluta eða sveitarfélaga. Þeir sem fordæma samgönguáætlun, vegna þess að þeir telja að arðsemissjónarmiðin ein eigi að ráða, hafa augljóslega ekki kynnt sér lögin sem unnið er eftir. Þjóð sem leggur jafn mikið uppúr því að nýta auðlindir sjávar, orku fallvatna og byggja upp ferðaþjónustu sem eina af megin stoðum atvinnulífsins verður að byggja upp samgöngukerfið um landið allt. Það er sá grunnur sem samgögnuáætlun er byggð á auk þess sem aukið umferðaröryggi með úrbótum á hættulegum köflum vegakerfisins er mikilvægt leiðarljós þessa verkefnis. Og á þann þátt hef ég lagt ríka áherslu ekki síst vegna þess að samgönguráðuneytið fer nú með umferðaröryggismál og það fer ekki á milli mála að leggja verður meiri áherslu á þau málefni svo mörg og alvarleg slys sem slysin verða á þjóðvegum landsins.

Þekkingin nýtt

Það er mitt mat að það fyrirkomulag við gerð samgönguáætlunar sem valið var við setningu laga um samræmda samgönguáætlun er líklegt til að verða farsælt. Þar koma að verki, auk formanns samgögnuráðs, forstöðumenn Vegagerðar, Siglingastofnunar og Flugmálstjórnar, sem þekkja betur til samgöngumála en aðrir. Með þeim starfa sérfræðingar í öllum þáttum samgöngumálanna auk embættismanna ráðuneytis. Ráðuneyti samgöngumála er nánast í daglegu sambandi við þingmenn, sveitarstjórnarmenn og forsvarsmenn þeirra atvinnugreina sem tengjast samgöngumálum. Í samgönguráðuneyti og stofnunum ráðuneytisins liggja jafnan fyrir erindi og gögn sem varða þarfir í samgöngumálum þjóðarinnar og hafa borist jafnt frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, sveitarstjórnum og erlendum stofnunum. Einnig er ráðuneytið í samstarfi við evrópsku samgöngustofnunina CEMT þar sem samgönguráðherrar allra Evrópuríkja eiga samstarfsvettvang og bera saman bækur árlega, auk þess sem embættismenn eiga gott samstarf um margvísleg málefni sem nýtast okkur í þeim vandasömu störfum að skipuleggja uppbyggingu samgangna.

Tillaga ráðherra um samgönguáælun.

Samgönguráð leggur mikla vinnu í að meta aðstæður um landið allt, hvað varðar samgöngukerfið, og vinna tillögu sína um framkvæmdir og rekstur flugmála, siglingamála og vegamála. Auðvitað er gott samstarf milli ráðherra og formanns samgönguráðs, sem er sérstakur trúnaðarmaður ráðherra í samgönguráði og þeirra embættismanna sem að verkinu koma enda er vinna ráðsins á ábyrgð ráðherra.
Þegar samgönguráðherra hefur fengið tillögur samgönguráðs fullmótaðar er það á hans ábyrgð hvort hann gerir breytingar um einstaka liði eða leggur tillögurnar óbreyttar fyrir ríkisstjórn. Eftir afgreiðslu í ríkisstjórn verður tillagan stjórnartillaga sem er lögð fyrir Alþingi eftir að þingflokkar stjórnarflokkanna hafa afgreitt hana. Sú samgönguáætlun, sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina í vetur, var óbreytt tillaga samgönguráðsins. Í ríkisstjórn voru engar breytingar gerðar á henni. Í þingflokkum stjórnarflokkanna hlaut hún mikla umræðu eins og búist var við, ekki síst vegna þess að hún gerði ráð fyrir því að minni fjármunir færu til samgöngumála á árunum 2005 og 2006 en gert hafði verið ráð fyrir í eldri tillögu. Hins vegar var gert ráð fyrir að hækka framlögin á tveimur síðari árum áætlunarinnar. Það urðu því miklar umræður innan þingflokkanna, sem enduðu með minniháttar breytingum á tillögunni. Þannig var hún endanlega afgreidd sem tillaga Alþingis eftir að samgöngunefndin hafði fjallað um áætlunina og skipt þeim liðum, sem venja er að samgöngunefnd afgreiði m.a. eftir tillögum frá þingmönnum einstakra kjördæma. Vert er að geta þess að enginn ágreiningur var gerður innan þingmannahópanna, sem bendir til þess að þingmenn hafi í raun verið sæmilega sáttir við tillöguna miðað við þá fjármuni sem voru til skiptanna. Auðvitað lýstu þingmenn, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, yfir nauðsyn þess að hraða framkvæmdum og að leggja ætti meiri fjármuni til samgöngumála. Enginn veit betur um nauðsyn þess að auka vegafé en undirritaður og mætti skrifa langa grein um það. Það mun verða að bíða betri tíma.