Sturla Böðvarsson svarar Ragnari Önundarsyni: „Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur í Garðabæ, ritar grein í Morgunblaðið síðastliðinn mánudag og fjallar þar um fyrirhugaðar framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar í Garðabæ. Hann veitist þar að undirrituðum með sérkennilegum hætti.“

Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur í Garðabæ, ritar grein í Morgunblaðið síðastliðinn mánudag og fjallar þar um fyrirhugaðar framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar í Garðabæ. Hann veitist þar að undirrituðum með sérkennilegum hætti. Það spaugilega við greinina er að hann kvartar sáran undan því að mér hafi tekist sérlega vel til við uppbyggingu vegakerfisins. Og að samgönguráðherra sé ,,dillað“ fyrir miklar framkvæmdir sem hann kallar ,,gæluverkefni“ og sendir með því tóninn til þeirra sem njóta umferðarmannvirkjanna. Gallinn virðist vera sá að þau umferðarmannvirki, sem ég hef staðið fyrir að láta gera, gagnast honum ekki. Ég vil leyfa mér að benda Ragnari Önundarsyni á að í minni ráðherratíð hefur Reykjanesbrautin verið tvöfölduð í nágrenni við hann og mislæg gatnamót byggð sem hann nýtir væntanlega daglega. Í minni tíð, sem samgönguráðherra, hefur verið varið meiri fjármunum til framkvæmda við umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu en í annan tíma. Það er jafnframt ljóst að ég hef ekkert dregið af mér við að tryggja vegabætur um landið allt. Það hefur ríkt sátt um það á Alþingi að bæta samgöngukerfið í landinu og vinna hratt að þeim verkefnum svo sem kostur er.

 

Ragnar kynnir sig sem sjálfstæðismann í Garðabæ. Vissulega er það ánægjulegt að hann skuli gera lesendum grein fyrir því að hann sé sjálfstæðismaður. Ekki verður hins vegar séð hverju það skiptir hvort hann er í einum flokki fremur en öðrum þegar hann fjallar um skipulagsmál og undirbúning framkvæmda við breikkun einnar mestu umferðaræðar vegakerfisins. Af langri reynslu minni sem pólitískur bæjarstjóri (var sautján ár bæjarstjóri), þingmaður og ráðherra tel ég það augljósan vott um vondan málstað þegar menn skreyta sig með flokksskírteini í þeim tilgangi að njóta forréttinda eða gera tilraun til þess að koma höggi á menn í því skjóli sem viðkomandi halda að þeir hafi af því að vera í stjórnmálaflokki. Það dregur mjög úr trúverðugleika manna í mínum augum þegar slíkum aðferðum er beitt.

Fyrir mér er það heiður að vera sjálfstæðismaður og mega vinna að hugsjónum heiðarlegra flokksmanna. Engum líðst til lengdar að nota það sem sverð til árása eða skjöld til varnar vondum málstað í eiginhagsmunaskyni að geta veifað flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins. Það er von mín að Ragnar Önundarson átti sig á þessum staðreyndum og gæti hófs í málflutningi.


Gerð umferðarmannvirkja er vandasamt verkefni. Gildir það ekki síst í þéttbýli þar sem byggð hefur verið skipulögð nærri fjölförnum umferðaræðum. Á Íslandi gilda lög sem segja til um hvernig sveitarstjórnir og samgönguyfirvöld koma að skipulagi og gerð mannvirkja á borð við vegi sem lagðir eru um okkar fagra land. Við undirbúning að breikkun Reykjanesbrautar í Garðabæ hefur í einu og öllu verið farið að lögum og reglum. Þar hafa verið settar strangari kröfur en áður hefur þekkst við vegagerð hér á landi. Af hálfu samgönguráðherra hafa engar athugasemdir verið gerðar við það og engin skilyrði verið sett eða takmarkanir gagnvart Vegagerðinni eins og Ragnar Önundarson lætur í veðri vaka. Milli samgönguráðherra og bæjaryfirvalda í Garðabæ standa engar deilur. Ég tel það skyldu mína að vinna með bæjaryfirvöldum í Garðabæ að því mikilvæga verkefni að byggja upp samgöngumannvirkin í þessu vaxandi bæjarfélagi. Ég mun ekki láta klámhögg Ragnars Önundarsonar trufla mig í þeim ásetningi. Ég hef fundið það mjög greinilega að réttsýnir menn í Garðabæ kunna Ragnari Önundarsyni litlar þakkir fyrir það framtak að nota síður Morgunblaðsins fyrir tilefnislausar og ódrengilegar árásir á einstaklinga í nafni Garðbæinga. Það er langmesta hagsmunamál Garðbæinga að réttkjörin stjórnvöld bæjarins fái frið til þess að vinna sitt mikilvæga starf við uppbyggingu samgöngumannvirkja í góðri samvinnu við samgönguyfirvöld í landinu. Reynsla mín af stjórnendum í Garðabæ bæði fyrr og síðar er á þann veg að þeim er best treystandi fyrir því að halda vel á hagsmunum bæjarins og bæjarbúa.
 
Sturla Böðvarsson